Á dögunum var haldin frumleg og skemmtileg Odense-marsipan kransakökukeppni á sýningunni Mín framtíð sem haldin var í Laugardagshöllinni. Keppnin vakti mikla athygli og fangaði athygli gesta.
Alls tóku fimm stelpur þátt sem allar eru efnilegar í sínu fagi og eru bakaranemar við Hótel- og matvælaskólann og útskrifast í faginu í vor. Þema keppninnar var dýr og það voru ekkert smá glæsilegar kökur sem stelpurnar sendu inn til leiks.
Ragnhildur Tinna, sem kemur frá bakaríinu Brauðgerð Akureyrar, bar sigur úr býtum í keppninni með kransakökuna sína sem var býflugnabú.
Einnig tóku Guðbjörg Salvör, Karen Lilja, Hugbjört Lind og Jóhanna Helga þátt í keppninni sem allar eru bakaranemar á lokaári, eins og fram hefur komið.
Vildum vekja athygli á bakstri
„Ég fékk þann heiður að dæma ásamt vörumerkjastjóra Odense, Daníel Helga,“ segir Guðrún Erla Guðjónsdóttir.
„Við vildum vekja athygli á bakstri á sýningunni mín framtíð. Það sló heldur betur í gegn að stilla þessum kransakökum upp, öllum sem löbbuðu fram hjá fannst þetta alveg æðislegt. Okkur langaði til að standa fyrir skemmtilegri keppni sem sýndi bæði hæfileikana og frumleikann hjá bökurum. Við vildum líka vekja athygli á Odense-marsipan, þar sem það er mikilvæg vara hjá bökurum þegar hátíðartertur og kransakökur skal gera. Þegar kemur að því að dæma í keppni sem þessari er dæmt út frá sprautun, bakstri og frumleika,“ segir Guðrún.
Myndirnar segja meira en þúsund orð þegar kransakökurnar eru skoðaðar.