Gabríel vann keppnina Kokkur ársins 2025

Gabríel Kristinn Bjarnason er Kokkur ársins 2025 og fagnaði ákaft …
Gabríel Kristinn Bjarnason er Kokkur ársins 2025 og fagnaði ákaft þegar úrslitin voru kunngjörð í Bjórgarðinum í gærkvöldi. Ljósmynd/Mummi Lú

Í gær, laugardaginn 29. mars, fór fram úrslitakeppnin um titilinn Kokkur ársins 2025. Keppnin var haldin í versluninni IKEA og hófst klukkan 9.00 í gærmorgun og lauk klukkan 16.30. Keppnin var æsispennandi og allir keppendurnir stóðu sig framúrskarandi vel en sýnt var beint frá keppninni í gær á mbl.is.

Að lokinni keppni fór fram verðlaunaafhending í Bjórgarðinum, þar sem úrslitin voru kunngjörð en Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara, og Dennis Rafn yfirdómari keppninnar kynntu til leiks Kokk ársins 2025. Gabríel Kristinn Bjarnason landsliðskokkur bar sigur úr býtum eftir harða keppni. Gabríel starfar hjá Expert í dag og hefur unnið til fleiri verðlauna í matreiðslukeppnum, meðal annars á Ólympíuleikunum í matreiðslu í fyrra með íslenska kokkalandsliðinu og titilinn Ungkokkur Norðurlandanna fyrir þremur árum.

Í öðru sæti varð Wiktor Pálsson, sem er nýr meðlimur í íslenska kokkalandsliðinu og starfar hjá Lola sem er nýr veitingastaður sem verður opnaður von bráðar. Þriðja sætið hlaut Ísak Aron Jóhannsson, fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins, en hann starfar í veisluteyminu hjá Múlakaffi.

Þórir Erlingsson forseti Klúbbs matreiðslumeistara ásamt Ísaki Aroni Jóhannssyni sem …
Þórir Erlingsson forseti Klúbbs matreiðslumeistara ásamt Ísaki Aroni Jóhannssyni sem hlaut 3. sætið, Gabríeli, nýkryndum Kokki ársins, Wiktori Pálssyni sem hlaut 2. sætið og yfirdómari keppninnar Dennis Rafn. Ljósmynd/Mummi Lú

Skylduhráefnalisti í úrslitakeppni Kokkur ársins 2025 var eftirfarandi:

Forréttur:

  • Kalkúnalæri
  • Íslenskur pak choi
  • Gulrætur
  • Smjördeig

Aðalréttur:

  • Skötuselur
  • Svartrót
  • Toppkál
  • Mórelusveppir
  • Skál/diskur til hliðar
  • Skötuselskinnar
  • Feykir ostur

Eftirréttur:

  • Frosin hafþyrnisber
  • Cacao Barry Zephyr 35% hvítt súkkulaði með saltkaramellu
  • Pistasíuhnetumauk
  • Fáfnisgras
Gabríel var einbeittur í eldhúsinu í gær.
Gabríel var einbeittur í eldhúsinu í gær. Ljósmynd/Mummi Lú
Wiktor undirbýr sig í eldhúsinu.
Wiktor undirbýr sig í eldhúsinu. Ljósmynd/Mummi Lú
Ísak Aron einbeittur við störf í eldhúsinu.
Ísak Aron einbeittur við störf í eldhúsinu. Ljósmynd/Mummi Lú


Dómarar í Kokkur ársins 2025 voru eftirfarandi:

Yfirdómari:

  • Dennis Rafn

Smakkdómarar:

  • Björn Bragi Bragason
  • Denis Grbic
  • Erla Þóra Bergmann Pálmadóttir
  • Fanney Dóra Sigurjónsdóttir
  • Georg Arnar Halldórsson
  • Hafliði Halldórsson
  • Hákon Már Örvarsson
  • Þráinn Freyr Vigfússon

Eldhúsdómarar:

  • Hafsteinn Ólafsson
  • Rafn Heiðar Ingólfsson
Dómarar í keppninni Kokkur ársins 2025.
Dómarar í keppninni Kokkur ársins 2025. Ljósmynd/Mummu Lú

Hefur verið haldin frá árinu 1994

Keppnin Kokkur ársins var fyrst haldin árið 1994 og hefur hún verið ein mikilvægasta keppni fagkokka á Íslandi síðan. Á síðasta ári sigraði Hinrik Örn Lárusson í keppninni og keppti fyrir Íslands hönd á Global Chef Europe fyrr á þessu ári. Hann kom, sá og sigraði í Europe North-hluta keppninnar. Hinrik mun síðan keppa í úrslitakeppni Global Chef sem fer fram í Wales í maí á næsta ári.

Gabríel Kristinn Bjarnason, Kokkur ársins 2025, mun taka þátt í Nordic Chef á næsta ári en þar etja hæfileikaríkustu kokkar Norðurlandanna kappi.

Matarvefur mbl.is óskar þeim öllum innilega til hamingju með árangurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka