Matvöruverslanir landsins eru nú að fyllast af alls kyns páskaeggjum og keppast páskaeggjaframleiðendur við að anna eftirspurn súkkulaðióðra landsmanna. Nói Síríus fer ekki varhluta af þeirri þróun að Íslendingar sækjast mun fyrr eftir því að fá páskaegg í verslanir en áður og sem dæmi barst þeim fyrirspurn um slíkt í desember á síðasta ári.
Anna Fríða Gísladóttir, framkvæmdastjóri markaðssviðs Nóa Síríus, telur augljóst að þjóðin skiptist í tvær fylkingar þegar kemur að tímasetningu páskaeggja í verslanir; þeim sem finnst páskaeggin koma alltof snemma og þeim sem geta ekki beðið eftir að fá að smakka löngu fyrir páska.
„Við sjáum það líka í gögnunum okkar að það er augljóslega vinsælt að kaupa eitt páskaegg fyrir helgi. Það er okkar ágiskun að það sé keypt í staðinn fyrir hinn klassíska nammipoka enda er páskaegg hið fullkomna sælgæti til að deila,“ segir Anna Fríða.
Starfsfólk Nóa Síríus er nú í óða önn að handraða innihaldinu í þau 700 til 800 þúsund egg sem sælgætisframleiðandinn framleiðir ár hvert. Nói Síríus hefur lengi lagt áherslu á að kynna landsmenn fyrir nýstárlegum páskaeggjum þar sem markmiðið er ávalt að fá bragðlaukana til að dansa. Í ár var leitað til starfsfólk Nóa Síríus þegar kom að vali á nýjasta páskaegginu og varð páskaegg sem byggir á vinsælli súkkulaðiplötu fyrir valinu. Súkkulaðiplatan kom út í takmörkuðu upplagi í fyrra og innihélt saltlakkrís- og saltkaramelluflögur.
„Þessi blanda fékk hæstu einkunn frá starfsfólki Nóa Síríus og er að okkar mati hin fullkomna blanda af söltu og sætu. Einnig kynnum við páskaegg úr okkar ástsæla suðusúkkulaði sem hefur verið órjúfanlegur hluti af íslenskri matarmenningu í næstum 100 ár.
Páskaeggið er dekkra en okkar hefðbundnu egg og verður virkilega gaman að sjá viðtökurnar. Vinsælasta og mest selda páskaegg Nóa ár hvert er þó alltaf mjólkursúkkulaðiegg númer 4,“ segir Anna Fríða að lokum.