„Breki fær stundum að gæða sér á matarleifunum“

Kári Garðarsson framkvæmdastjóru Samtakanna´78 býður upp á vikumatseðilinn að þessu …
Kári Garðarsson framkvæmdastjóru Samtakanna´78 býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni. mbl.is/Eyþór

Kári Garðarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna´78, býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni en hann elskar að fátt meira en að elda góðan kvöldverð.

Kári er búinn að vera framkvæmdastjóri Samtakanna '78 frá því um mitt síðasta sumar og unnir sér vel í starfinu.

„Það er virkilega skemmtilegt og krefjandi að vera farinn að vinna að málaflokki hinsegin fólks. Dagarnir eru fjölbreyttir og viðburðaríkir og ég hef kynnst ótrúlegum fjölda af kraftmiklu og skemmtilegu fólki á þessum stutta tíma,“ segir Kári með bros á vör.

„Samtökin '78 vinna alveg gríðarlega mikilvægt starf í að gæta að réttindum hinsegin fólks. Fræðslustarf samtakanna er mjög yfirgripsmikið auk þess sem við þjónustum hinsegin fólk og aðstandendur þeirra með ráðgjöf sérfræðinga. Til að standa straum af starfseminni höfum við sett af stað happdrætti með glæsilegum vinningum,“ segir Kári sem er þessa dagana á fullu að keyra happrættið í gang. Fyrir áhugasama er hægt að fá miða hér.

Nostra við matargerðina

Kári er mikill matgæðingur og nýtur þess að eiga góðar stundir í eldhúsinu.

„Ég elska að elda góðan kvöldmat og gef mér oft drjúgan tíma við að nostra við matargerðina. Mér finnst alltaf gaman að skoða uppskriftir og prófa nýja hluti í eldhúsinu og það jafnast ekkert á við það að bjóða góðum vinum í heimsókn í matarboð. Svo fær hundurinn okkar hann Breki stundum að gæða sér á matarleifunum,“ segir Kári og glottir.

Hér er Kári búinn að setja saman draumamatseðilinn sinn fyrir vikuna.

Mánudagur – Blómkálssteik með hunangi og hnetum

„Það jafnast ekkert á við gott íslenskt grænmeti og þessi blómkálssteik er alveg svakalega góð. Máltíðin er létt og fullkomin til að byrja góða viku.“

Þriðjudagur – Kjúklingur með parmesan og jógúrtsósu

„Þessi kjúklingaréttur er bæði einfaldur og virkilega góður. Það er bæði frábært að hafa hann á boðstólnum á góðu virku kvöldi en einnig hafa góðir vinir oft komið heim til að gæða sér á þessari frábæru máltíð.“

Miðvikudagur – Litríkt salat með appelsínu- og engiferdressingu

„Þetta ferska og skemmtilega salat leikur svo sannarlega við bragðlaukana oger fullkomið í kvöldmatinn í miðri viku.“

Fimmtudagur – Heimalagaðar fiskbollur

„Það jafnast fátt á við heimalagaðar fiskibollur eins og amma gerði þær í gamla daga. Lauksmjörið og nýuppteknar íslenskar kartöflur með og þá er komin fullkomin máltíð.“

Föstudagur – Lærisneiðar í raspi með öllu tilheyrandi

„Lærissneiðar í raspi eins og pabbi gamli græjaði svo oft þegar ég var lítill. Hér er Albert Eiríks matgæðingur með alveg hreint frábæra uppskrift sem klikkar hreinlega aldrei.“

Laugardagur – Grænmetislasanja

„Á laugardagskvöldum er gott að safna saman helling af fersku grænmeti og gera þetta frábæra grænmetislasanja. Gott hvítlauksbrauð með og matarmikið salat og máltíðin slær í gegn.“

Sunnudagur – Nautasteik með öllu

„Það er alveg týpískt að enda vikuna á góðri nautasteik með öllu því meðlæti sem hugurinn girnist. Fullkomin leið til að undirbúa sig fyrir komandi viku.“

 

 

 

 

 

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka