Ítalski kaffiframleiðandinn Lavazza snýr aftur sem samstarfsaðili HönnunarMars sem fer fram dagana 2.-6. apríl næstkomandi.
Í ár hefur Lavazza einnig leitt hesta sína saman við listakonuna Maríu Guðjohnsen, en hún sérhæfir sig í þrívíddarhönnun og new media list. Hún hefur áður unnið með vörumerkjum á borð við Dolce & Gabbana, Gucci, Adidas og Jägermeister. Þetta er í fyrsta sinn sem viðfangsefni í verki hennar er kaffi.
„Lavazza var stofnað í Torínó á Ítalíu árið 1895 og er í dag einn helsti kaffiframleiðandi í heimi. Lavazza er þekkt fyrir hágæða kaffiblöndur ásamt samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni innan kaffiiðnaðarins, en Lavazza er mjög virkur þátttakandi í sínu nærumhverfi, hvort sem varðar stuðning við listir, íþróttir eða kaffibændur,“ segir Ragnheiður Skúladóttir vörumerkjastjóri hjá Danól.
Lavazza á langvarandi samband við list og hönnun, allt frá listrænni ljósmyndun til vöruhönnunar. En Lavazza telur kjarna vörumerkisins verða að tjá með list og fegurð, enda sé kaffigerð listform út af fyrir sig.
„Í gegnum tíðina hefur Lavazza unnið með ýmsum listamönnum svo sem Helmut Newton, David LaChapelle, Annie Leibovitz, Elliott Erwitt og Erwin Olaf, ásamt því að eiga í samstarfi við Guggenheim-safnið í New York, Triennale í Mílanó og VELA í Feneyjum, svo fátt sé nefnt.
Lavazza telur tengingu við list og upphefð ungra listamanna mikilvæga, hvort sem á við sem tjáningarform fyrir sýn vörumerkisins eða mikilvægi listar fyrir samfélagið sjálft. Lavazza heldur því áratugalöngu ástarsambandi við listina áfram, nú á Íslandi,“ segir Ragnheiður enn fremur.
„María hefur einstaka sýn og túlkar þema hátíðarinnar uppruna í verkinu Rætur og rennsli. Verkið er margþætt, en það er útfært sem gagnvirkt (AR) vegglistaverk á gafli Laugavegs 3 og videóverk. María kafar abstrakt inn í umbreytingu kaffis; frá uppruna þess sem hráefni af jörðu, til fljótandi orku. Í hringiðu hversdagsins gleymist að staldra við og huga að því hvað liggur að baki þessa staðfasta drykks sem leikur svo stórt hlutverk aukaleikara í okkar daglega lífi. María losar sig við hefðbundna framsetningu og tjáir ferlið í gegnum áferð, hreyfingu og flæðandi form,“ segir Ragnheiður að lokum.
Samstarfið er frumsýnt á DesignTalks í Hörpu miðvikudaginn 2. apríl, en þar verður Lavazza með pop-up kaffibar og sérhannaðan og framandi HönnunarMars kaffidrykk, auk innsetningar með verki Maríu.
Verkið er gagnvirkt og verður hægt að sjá það vakna til lífsins með auknum veruleika (e. Augmented reality) sem virkjaður er með snjallsíma.
Innsetningin flytur svo í Smáralindina það sem eftir varir af hátíðinni, en kaffibarþjónar Lavazza munu bjóða gestum og gangandi upp á ilmandi kaffi auk HönnunarMarsdrykksins í Lavazzabúðinni í Hagkaup í Smáralind helgina 5. og 6. apríl næstkomandi frá klukkan 12:00-15:30.