Á dögunum bauð Andrea Gunnars matarbloggari upp á lúðu í súrsætri sósu sem sló rækilega í gegn á hennar heimili. Uppskriftina fann hún á veraldarvefnum og þar sem hún er hrifin af asískri matargerð ákvað hún að prófa.
Hún gerði uppskriftina að sinni og breytti lítillega með góðri útkomu og nú er þessi réttur matreiddur reglulega fjölskyldumeðlimum til mikillar ánægju.
Lúða í súrsætri sósu
Lúðan
- 900 g smálúða, roðflett og skorin í 1,5 cm bita
- ½ bolli kornsterkja
Aðferð:
- Blandið þessu saman í skál og setjið til hliðar.
Súrsæt sósa
- 1 msk. kornsterkja
- ¼ bolli ljós púðursykur (ef þið eigið hann ekki, notið þá bara hvítan sykur)
- ¼bolli sojasósa
- 4 msk. tómatsósa
- ¼ bolli eplaedik
- ½ bolli kjúklingasoð
Aðferð:
- Blandið öllu saman í skál og setjið til hliðar.
Steikt grænmeti
- 1 rauð paprika, skorin í teninga
- 1 græn paprika, skorin í teninga
- 1 laukur, skorinn í bita
- 1 búnt vorlaukur, sneiddur
- ½ bolli salthnetur (má sleppa)
- 2 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
- 4 msk. bragðdauf olía
Eldun og samsetning á fiskréttinum
- Hitið pönnu þar til pannan er orðin mjög heit.
- Setjið þá 2 msk. af olíu á pönnuna og lækkið hitann á miðlungsháan.
- Steikið helminginn af lúðubitunum á pönnunni í 2-4 mínútur á hvorri hlið.
- Takið af pönnunni, setjið til hliðar, setjið 2 msk. af olíu á pönnuna og endurtakið þetta skref með hinn helminginn af lúðunni.
- Þegar lúðan er tilbúin er hitinn á pönnunni hækkaður og paprikur, laukur, vorlaukur og hvítlaukur steikt í 2-3 mínútur.
- Bætið salthnetum á pönnuna, séu þær notaðar, og blandið öllu vel saman.
- Hellið sósunni yfir þetta og látið hana þykkna aðeins.
- Bætið lúðunni á pönnuna og látið allt malla saman í 2 mínútur.
- Berið strax fram með hrísgrjónum og sojasósu og njótið.