Bragðsprengja fyrir páskana - Lion-ís með Quality Street karamellusósu

Guðrún Erla Guðjónsdóttir bakari og konditori er snillingur að búa …
Guðrún Erla Guðjónsdóttir bakari og konditori er snillingur að búa til eftirrétti sem bráðna í munni. Hér er hún búin að búa til lion-ís og laga karamellusósu sem er algjör bragðsprengja. Samsett mynd

Lion-ísinn er hinn fullkomni eftirréttur um páskana ef þig vantar einfaldan eftirrétt sem heillar alla við matarborðið og skapar hina fullkomnu bragðupplifun. Ísinn er rjómakenndur og er hver biti fullur af mjúkum Lion-bar-smábitum.

Heiðurinn af uppskriftinni á hún Guðrún Erla Guðjónsdóttir, bakari og konditor, sem lesendur matarvefs mbl.is kannast eflaust við.

Silkimjúka karamellusósan til að para við ísinn er gerð úr hinum klassísku Quality Street-karamellum. Sósan er einföld í undirbúningi en hún tengir vel saman bragð og minningar sem gerir eftirréttinn ómótstæðilegan.

Lion-ís

  • 2,5 dl rjómi
  • 1 egg
  • 1 eggjarauða
  • 70 g sykur
  • 1 tsk. vanillusykur
  • 6 – 7 stk. Lion bar

Aðferð:

  1. Stífþeytið vanillusykurinn og rjómann.
  2. Í annarri skál, þeytið saman eggið, eggjarauðuna og sykurinn þar til það er létt og ljóst.
  3. Blandið þessu síðan varlega saman.
  4. Skerið Lion í misstóra bita, og hellið út í.
  5. Setjið í viðeigandi form og frystið í sólarhring.
  6. Njótið með Quality Street karamellusósu, sjá uppskrift fyrir neðan.

Quality Street karamellusósa

  • 10 stk. Quality Street karamellumolar
  • 50 g rjómi

Aðferð:

  1. Hitið saman í potti og blandið þar til karamellan bráðnar.
  2. Berið karamellusósuna fram í fallegri könnu og hafið til hliðar með ísnum.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert