Stutt er síðan vinsælasta hljómsveit landsins, Iceguys, gaf út lagið Stígðu inn, þar sem textinn býður hlustendum að stíga inn í nýjan heim – ísheiminn.
Nú er það orðinn veruleiki, því Kjörís kynnir með stolti glænýja íslínu undir merkjum Iceguys að því kemur fram í tilkynningu frá Kjörís.
„Vörulínan ber með sér skýran keim af ævintýri, ferskleika og þeim krafti sem Iceguys hefur að bjóða. Líklegt verður að teljast að þessi vara verði næsta æðið á markaðnum, enda eru vinsældir Iceguys í hæstu hæðum og aðdáendahópurinn sífellt að stækka,“ segir Elías Þór Þorvarðarson markaðsstjóri Kjöríss.
Samkvæmt heimildum matarvefsins hefst dreifing í dag, fimmtudaginn 3. apríl, og búist er við miklum hamagangi í verslunum víðs vegar um landið.