Elísabet Sveinsdóttir, Gróa Ásgeirsdóttir og Guðný Pálsdóttir, forsvarskonur Á allra vörum, elduðu saman á dögunum og gerðu sér dagamun í tilefni þess að þær eru farnar af stað aftur með átakið sitt. Í forgrunni var guðdómlega góð humarsúpa og var það á allra vörum hve vel hún hefði heppnast.
Stöllurnar þrjár eru markaðskonur og hafa verið vinkonur í áratugi og kalla sig oftast systurnar. Þær eru iðnar við að láta gott af sér leiða og hafa staðið fyrir fjölmörgum átaksverkefnum sem bera heitið Á allra vörum til að styðja við verðug málefni í samfélaginu í áranna rás með því að selja varagloss og standa fyrir söfnunarþætti í beinni sjónvarpsútsendingu. Allur ágóðinn hefur síðan runnið í það verkefni sem tekið er fyrir hverju sinni. Nokkuð er síðan síðasta átaksverkefni var í gangi en nú er breyting á.
Nú eruð þið farnar á flug aftur með átaksverkefnið Á allra vörum og að þessu sinni ætlið þið að styrkja Kvennaathvarfið. Hvað varð til þess að þið ákváðuð að fara aftur af stað?
„Við fengum símtal frá Lindu Dröfn Gunnarsdóttur framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins í haust, þar sem hún bað um aðstoð við uppbyggingu á nýju húsnæði þeirra. Hjartað slær í Kvennaathvarfinu, dásamlegt og ómetanlegt starf er unnið þar og skiptir sköpun fyrir þær sem þangað koma, við gátum ekki annað en slegið til og dustað rykið af Á allra vörum-vélinni og lagt þeim lið,“ segir Elísabet einlæg.
Þegar farið er af stað í fjáröflun, hvað er það sem skiptir mestu máli? Er mikill undirbúningur að baki?
„Já, það er mikil undirbúningsvinna, en tekur yfirleitt 8-9 mánuði og síðan er stanslaus keyrsla í þennan hálfa mánuð sem átakið stendur yfir. Gott skipulag skiptir í raun mestu máli og að við skiptum með okkur verkum, hver og ein nýtir sína helstu styrkleika. Við erum frekar ólíkar og með mismunandi hæfileika og nýtum þá til fulls í þágu átakanna. Við erum allar vel tengdar við ólíka hópa og það nýtum við okkur óspart. Svo erum við með her manna og kvenna á bak við okkur, sem við fáum að hóa í og erum svo lánsamar að hafa með okkur í för. Bæði vinir og vandamenn, og ekki síst stjórn og starfsfólk Kvennaathvarfsins, hafa unnið ötullega með okkur núna, sem er gríðarlega mikilvægt.“
Hvernig hafa viðbrögðin verið í samfélaginu við átaksverkefninu í ár?
„Viðbrögðin hafa verið frábær eins og alltaf. Við erum afar heppnar með það að þjóðin hefur ávallt tekið átökunum okkar vel. Frá árinu 2008 höfum við safnað yfir milljarði króna í samtals níu átökum, og það er ekki gerlegt nema með samtakamætti þjóðarinnar,“ bætir Guðný við.
„Nú eru síðustu glossin/varasettin fáanleg í verslunum þar sem þau eru uppseld hjá dreifingaraðila. Við hvetjum fólk til að tryggja sér þetta flotta sett þannig að allir geti sett á sig gloss inn í vorið. Við viljum síðan hvetja landsmenn alla til að koma saman klukkan 19.45 núna á laugardaginn og horfa á RÚV okkar allra. Þá verður þátturinn okkar í beinni útsendingu þar sem fjölmargar sögur verða sagðar og lifandi tónlist mun óma. Allt efni sem er mannbætandi á marga vegu,“ segir Gróa.
Þið eigið allar annað sameiginlegt áhugamál, mat, og vitið að matur er mannsins megin. Segið aðeins frá matarástríðu ykkar.
„Við elskum að fá okkur gott að borða en Elísabet elskar mest af okkur að elda – hún er dásamlegur kokkur og það er yndi að fara til hennar í mat, hvort heldur sem er venjulegan heimilismat sem hún snarar fram eða sælkerarétti, eitthvað sem búið er að nostra við dagana á undan. Allt er þetta gert með mikilli ástríðu. Við Guðný erum líka miklir sælkerar og lumum á okkar sérréttum,“ segir Gróa og glottir.
„Það róar mig oft að gefa mér tíma í eldamennsku og mér finnst gaman að prófa eitthvað nýtt,“ segir Elísabet. „Ég lagaði til að mynda humarsúpu í fyrsta skipti á ævinni þegar ég bauð stelpunum í mat um nýliðna helgi. Sjálf er ég ekki mikið fyrir humar en veit að þetta er uppáhaldið hennar Guðnýjar. Súpan sló í gegn enda fékk ég uppskriftina hjá Halldóru Trausta vinkonu minni sem er eðalkokkur og allt sem hún gerir er ómótstæðilega gott.“
Eruð þið duglegar að hittast og borða saman?
„Já, við hittumst oft í mat. Gróa er vel gift Ísleifi sínum sem er fínasti kokkur og dekrar við sína konu og við Guðný fáum oft að njóta. Annars hittumst við oft á Te og kaffi í Hamraborginni og það klikkar ekki að Guðný pantar sér grilluðu samlokuna með jalapenó og skinku. Við Gróa erum meira í beyglunum með avókadó og rjómaosti,“ bætir Elísabet við.
Eigið þið ykkar uppáhaldsrétti sem ykkur finnst gaman að bjóða hver annarri upp á?
„Humarsúpan hennar Halldóru kemst á blað yfir uppáhaldsrétti hjá stelpunum og svo bý ég til gott salat fyrir Gróu mína. Ég verð samt að segja að það er nú sjaldan sem ég fer nákvæmlega eftir uppskriftum, eiginlega aldrei, en hérna fór ég algjörlega eftir henni. Súpan var alveg svakalega góð og það var á allra vörum hversu guðdómleg hún væri,“ segir Elísabet að lokum.
Elísabet bar súpuna fram með nýbökuðu brauði og salati.
Humarsúpa Halldóru – Á allra vörum
Aðferð: