Ef þú elskar sítrónukökur og lemon curd eða sítrónusmjör þá eru þetta réttu páskabollakökurnar fyrir þig. Þær eru ekki bara bragðgóðar heldur líka einstaklega krúttaðar, þessir páskaungar munu bræða mörg hjörtu og lífga upp á umhverfið.
Botninn er dúnmjúkur með góðu sítrónubragði en til þess að toppa það er bæði lemon curd og sítrónusmjörkrem með. Þessar eru fullkomnar á páskaborðið.
Valgerður Gréta Gröndal, betur þekkt sem Valla, krúttaði yfir sig þegar hún gerði þessar á dögunum.
mbl.is/Karítas
Heiðurinn af uppskriftinni á Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla, sem heldur úti sínu eigin matarbloggi eins og lesendur matarvefsins eru örugglega farnir að þekkja vel til.
Þessar eiga án efa eftir að gleðja margar um páskana.
Ljósmynd/Valgerður Gréta Gröndal
Krúttlegustu páskabollakökurnar sem sést hafa
Páskabollakökur með lemon curd og sítrónusmjörkremi
- 150 g sykur
- 60 ml jurtaolía
- 2 egg
- 1 tsk. sítrónudropar
- 1 tsk. vanilludropar
- 180 g hveiti
- ¾ tsk. lyftiduft
- ½ tsk. matarsódi
- ½ tsk. salt
- 180 ml mjólk
- Safi úr hálfri sítrónu
- Rifinn börkur af einni sítrónu
- Sítrónusmjör, lemon curd, magn eftir smekk
- Sítrónusmjörkrem, sjá uppskrift fyrir neðan
- 24 stk. Sykuraugu frá Dr. Oetker
- Appelsínugult „candy melts“ eða bútur af gulrót t.d.
Aðferð:
- Hitið ofninn í 175°C.
- Setjið 12 bollakökuform í bollakökumót.
- Setjið sykur og olíu saman í hrærivélaskál og blandið vel saman.
- Setjið því næst 1 egg út í og þeytið vel.
- Skafið niður á milli.
- Bætið hinu egginu út í og þeytið þar til létt og ljóst.
- Bætið sítrónu- og vanilludropum út í og þeytið aðeins áfram.
- Setjið sítrónusafann út í mjólkina og bíðið í smástund.
- Sigtið hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt saman við eggjablönduna og setjið helminginn af mjólkinni saman við.
- Hrærið í nokkrar sekúndur.
- Bætið restinni af mjólkinni saman við ásamt sítrónuberki, hrærið aftur bara í nokkrar sekúndur.
- Kökurnar verða nefnilega of seigar ef deigið er hrært of mikið.
- Skiptið deiginu á milli formanna og bakið í 25 mínútur.
- Takið kökurnar út og kælið á grind.
- Þegar kökurnar eru orðnar alveg kaldar er hola gerð í þær með því að taka kremstút eða annað lítið kringlótt áhald og stinga út gat í hverja köku.
- Um það bil 1 teskeið af sítrónusmjöri er sett ofan í gatið og lokað aftur með því sem tekið var úr kökunni; Völlu fannst gott að taka aðeins af því svo tappinn passi.
- Ef vill má gera litla fætur úr appelsínugulu „candymelts“ súkkulaði.
- Valla bræddi nokkur stykki og notaði tannstöngul til þess að „teikna“ fætur á kökuna áður en hún sprautaði kreminu á.
- Hún gerði líka 12 litla þríhyrninga á smjörpappír sem ég notaði fyrir gott en það er alveg hægt að skera smá bút af gulrótarsneið og nota í staðinn.
- Setjið kringlóttan stút í sprautupoka og sprautið kreminu ofan á kökurnar.
- Hún gerði fyrst eina stóra doppu og aðra litla þar ofan á. Þá setti hún augun og gott á hvern unga og þá eru þær tilbúnar!
Sítrónusmjörkrem
- 140 g mjúkt smjör
- 2 pk. Butter Cream base frá Dr. Oetker
- 4-5 msk. sítrónusmjör (lemon curd)
- 1 tsk. rifinn sítrónubörkur
- 2 tsk. vanilludropar
- Gulur matarlitur frá Dr. Oetker
Aðferð:
- Setjið smjörið í skál og þeytið vel.
- Bætið Butter cream-grunninum saman við ásamt sítrónusmjöri og vanilludropum og þeytið vel.
- Bætið við gulum matarlit, magn eftir smekk.
- Þeytið áfram mjög vel.
- Ef ykkur finnst kremið vera of stíft má bæta við meiru af sítrónusmjöri.