Vefsíðan Gerum daginn girnilegan er uppskriftasíða á vegum heildverslunarinnar Innnes ehf sem var stofnuð árið 2015 með það að markmiði að kynna og fræða um þau frábæru vörumerki sem Innnes hefur upp á að bjóða í gegnum girnilegar uppskriftir. Jóhanna Ýr Hallgrímsdóttir, markaðsstjóri hjá Innnes, segir vefinn hafa vaxið jafnt og þétt með árunum og þar megi nú finna um 1.600 uppskriftir og 400 uppskriftarmyndbönd.
„Vikulega bætist við ný uppskrift, þar sem við leggjum áherslu á fjölbreytt tilefni og tyllidaga. Við hlustum einnig á fylgjendur okkar og spyrjum reglulega hvað þeim finnst vanta eða hvað þeir vilja sjá meira af. Það sem hefur skarað fram úr síðustu ár er einfaldleiki, skýrar leiðbeiningar og réttir sem taka stuttan tíma að matreiða.
Auk þess setjum við inn nýjan vikumatseðil sem vonandi veitir einhverjum innblástur fyrir vikuna. Það getur verið algjör tímasparnaður og betra fyrir veskið að skipuleggja kvöldmatinn fyrir vikuna. Hraðinn í samfélaginu kallar á einfaldar og fljótlegar lausnir þegar það kemur að kvöldmat.“
Jóhanna talar um að eitt það besta við Gerum daginn girnilegan vefsíðuna sé að hægt er að vista uppáhalds uppskriftirnar og jafnvel að gefa uppskriftunum einkunn. „Það er hægt að stofna sinn eigin aðgang undir Mitt svæði á síðunni og safna saman góðum uppskriftum þar. Það sem mér finnst best við síðuna er að þegar ég er að elda eftir uppskrift á síðunni eða jafnvel bara að versla inn þá haka ég við innihaldsefnin um leið og ég nota þau sem er frábær leið til að tryggja að ekkert gleymist í eldamennskunni.
Svo ef vikumatseðillinn er skoðaður þá er hægt að velja nokkra góða valkosti, til dæmis að senda uppskriftir vikunnar á ákveðið netfang, sækja þær á pdf formi eða prenta þær beint út,“ segir Jóhanna og bætir við að Vino sé líka frábær síða sem hún notar mikið en það er uppskrifta- og fróðleikssíða um léttvín og kokteila sem er einnig á vegum Innnes ehf.
„Það hefur aukist mikið að fólk geri kokteila heima, í matarboðum og í veislum en við erum dugleg að bæta við kokteilum og öðrum drykkjaruppskriftum inn á síðuna og frábært að hafa þetta allt á einum stað.“
„Það er einnig skemmtilegt að segja frá því að mörg uppskriftarmyndböndin á vefsíðunni eru innblásin af Tasty-myndböndunum, sem margir kannast við af samfélagsmiðlum. Fyrstu myndböndin tókum við upp í fundarherbergi þegar skrifstofa og vörulager okkar var staðsett í Fossaleyni,“ segir Jóhanna og hlær. „Það var ótrúlega gaman að skapa þetta efni, og má mikið af heiðrinum fara til Vigdísar Ylfu Hreinsdóttur, matreiðslumanns og sölustjóra fyrirtækjasviðs, sem átti stóran þátt í uppskriftunum sem þar birtust.
Í dag höfum við flutt í nýtt og bjartara húsnæði í Korngörðum sem veitir enn betri aðstöðu til að skapa myndefni fyrir samfélagsmiðla. Þó við gerum færri uppskriftarmyndbönd sjálf en við gerðum hér áður þá höfum við í staðinn nýtt okkur samstarfið við frábæra matarbloggara og aðra samstarfsaðila til að halda áfram að færa ykkur girnilegar uppskriftir og innblástur. Í dag og í gegnum tíðina höfum við starfað með frábæru fólki og flest eru þetta langtímasamstörf sem við erum í.
Það er svo ótrúlega gaman að fylgjast með þessum aðilum þróast í gegnum árin og þau eru algjörir snillingar í eldhúsinu og tala nú ekki um myndefnið sem kemur frá þeim. Við reynum að vinna samstörfin líka þannig að við séum að ná inn fjölbreyttum uppskriftum svo að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það er einfaldleikinn, grænmetisréttir, vegan eða lífrænt sem dæmi má nefna,“ segir Jóhanna að lokum og lætur fylgja með ljúffenga uppskrift að Milljón dollar spaghettí eftir Berglindi Hreiðars.