Jóhanna Ýr Hallgrímsdóttir býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni. Hún er mikil fjölskyldumanneskja og matur spilar stóra rútínu á heimilinu.
Jóhanna er 35 ára gömul, trúlofuð fjögurra barna móðir í Árbænum og segir að það sé að mörgu að hyggja á heimilinu.
„Ég á tvö börn með unnusta mínum, Finnboga Ágústssyni, Hugrúnu Lind 6 ára og Hallgrím sem verður þriggja ára í haust. Þegar ég kynntist Finnboga eignaðist ég tvær stjúpdætur sem koma til okkar aðra hverja helgi, Guðrúnu Lilju 14 ára og Sædísi Önnu 13 ára. Ég starfa sem markaðsstjóri hjá heildsölunni Innnes og Finnbogi starfar hjá Marel í þjónustu og viðhaldi á búnaðinum hjá þeim.
Þannig má því segja að það sé nóg að gera í vinnunni og fjölskyldulífi. Það er einstaklega gaman að elda á pabbahelgum og eru nokkrir réttir sem ég geri í uppáhaldi hjá þeim elstu. Þau yngri eru minna að spá í hvað er í matinn og Hugrún Lind er með mjög einfaldan matarsmekk,“ segir Jóhanna og brosir.
„Ég elska að skipuleggja vikuna og það hjálpar mikið að vera með skipulagðan vikumatseðil. Í vinnunni minni set ég saman vikumatseðil fyrir uppskriftasíðuna Gerum daginn girnilegan ásamt því að sinna samfélagsmiðlunum tengt því. Það má því segja að ég sé að skoða og pæla í uppskriftum daglega,“ segir Jóhanna enn fremur og hlær.
„Oftast sé ég um eldamennskuna en Finnbogi er samt sem áður listakokkur og elskar að dunda sér í eldhúsinu. Hann er með grænar fingur og á sumrin fer hann reglulega í matjurtagarðinn og nær í grænmeti sem hann er að rækta. Við deilum áhuga á eldamennsku og okkur finnst gaman að senda á milli spennandi uppskriftir, ég heillast mest af einföldum og fljótlegum réttum en Finnbogi elskar að hægelda mat og gera sósur og maríneringar frá grunni.“
Matur er stór partur af lífi Jóhönnu alla daga og það má stundum segja að hún sé alltaf í vinnunni. Sem betur fer hefur hún áhuga á mat og nýtur þess að vera í kringum hann.
„Þar sem að ég starfa í kringum matvæli alla daga verður þetta hálfgert áhugamál, það er að segja að skoða uppskriftir, vörur og pæla í vörumerkjum. Það sem ég hef lært á þessu er að vanda valið á hráefnum, það er ekki alveg sama hvað maður notar hverju sinni. Börnunum finnst ekkert skemmtilegt að fara með mér í matvöruverslun þar sem ég enda oft á að vera að taka myndir, raða aðeins í hillur og svona,“ segir Jóhanna kímin.
Hér má sjá vikumatseðilinn sem Jóhanna er búin að setja saman fyrir vikuna.
Mánudagur – Djúsí samloka
„Ég viðurkenni að á mánudögum er ég oft löt við að elda og elska ef við eigum afganga frá deginum áður. Við reynum oft að elda eitthvað extra gott á sunnudögum. Þessi samloka steinliggur hún er ótrúlega saðsöm og í henni er hamborgarasósa, skinka, salat, tómatar, jalapenó ásamt cheddar- og havarti-osti.“
Þriðjudagur – Steikar-taco
„Við elskum taco-þriðjudaga, það er ekki heilagt að hafa það á þriðjudögum en það hljómar vel. Það er líka svo einfalt að leika sér með hráefnin og búa til góðar sósur.“
Miðvikudagur – Penne pasta með beikoni og sveppum
„Gott pasta klikkar ekki, svo er svo gott að eiga afgang og hita upp í hádeginu daginn eftir. En hér er mikilvægt að velja líka gott pasta.“
Fimmtudagur – Kjúklingaleggir sem krakkarnir eiga eftir að elska
„Ef það er eitthvað sem klárast alltaf þá er það þegar við eldum kjúklingaleggi, þetta er svo einfalt og þægilegt.“
Föstudagur – „BBQ“ kjúklingaborgari
„Það eru margir með föstudagspítsuhefð en við erum ekki föst í neinu, þessi BBQ-kjúklingaborgari er tilvalinn til að byrja helgarfríið.“
Laugardagur – „BBQ“ kjúklingaspjót og makkarónusalat
„Þar sem það er vor í lofti þá er um að gera að draga fram grilluppskriftirnar, ég elska bbq og bbq á grillmat. Þessi uppskrift er algjört æði.“
Sunnudagur – Helgarsteik eins og hún gerist best
„Ef maður er ekki búinn að vera með brjálaða dagskrá og í nokkrum barnaafmælum þá er algjört æði að enda helgina á góðri steik.“