Berglind Hreiðars hjá Gotterí og gersemar hefur mikið dálæti af burrataostinum og reyndar öll fjölskyldan. Hún töfraði fram þennan dásamlega spagettírétt á dögunum fyrir uppskriftavefinn Gott í matinn þar sem burrataosturinn er í forgrunni og leikur við bragðlaukana ásamt humri. Sítrónusmjörið bráðnar í munni og minnir á vorið.
Fullkominn réttur til að njóta í páskafríinu með fjölskyldunni.
Ómótstæðilega gott sítrónuspagettí með humri og burrata
Sítrónuspagettí með humri og burrata
Fyrir 4
- 300 g litlir tómatar
- 400 g spagettí eða linguine pasta
- 500 g skelflettur humar
- 1 stk. sítróna (skorin í þunnar sneiðar)
- 4 stk. hvítlauksgeirar
- smjör til steikingar
- ólífuolía eftir smekk
- salt og pipar eftir smekk
Toppur
- ferskt basilpestó (grænt pestó), eftir smekk
- ristaðar furuhnetur, eftir smekk
- söxuð basilíka, eftir smekk
- 4 stk. litlar burrata kúlur (við stofuhita)
Meðlæti
- Hvítlauksbrauð eða annað brauð sem heillar
Aðferð:
- Hitið ofninn í 200°C.
- Setjið tómatana í eldfast mót, hellið um 2 msk. af ólífuolíu yfir, rífið 2 hvítlauksrif saman við, saltið og piprið.
- Bakið í ofninum í 20 mínútur á meðan þið undirbúið annað.
- Sjóðið spagettíið í söltu vatni.
- Smjörsteikið humarinn á meðan og rífið 2 hvítlauksrif yfir hann í lokin, saltið og piprið.
- Takið humarinn af pönnunni, bætið á hana smjöri (um 2 msk.), ólífuolíu (um 2 msk.) og sítrónusneiðum, leyfið að malla við meðalhita þar til sneiðarnar mýkjast upp.
- Bætið spagettínu saman við sítrónusmjörið og veltið upp úr því, fjarlægið svo sítrónusneiðarnar sjálfar.
- Raðið síðan saman á disk; spagettí, bökuðum tómötum, smjörsteiktum humri, pestó, furuhnetum, basilíku og síðast en ekki síst lítilli burrata kúlu.
- Njótið sem fyrst með góðu hvítlauksbrauði eða öðru brauði sem heillar.