Anna Fríða Gísladóttir, framkvæmdastjóri markaðssviðs Nóa Síríus, sviptir hulunni af nokkrum staðreyndum um matarvenjur sínar. Það eru ávallt miklar annir í vinnunni og þegar heim kemur er það fjölskyldan í forgrunni og hvað á að hafa í matinn.
Anna Fríða, lífsglöð og orkumikil eiginkona og móðir tveggja drengja sem finnst ekkert skemmtilegra en að elda góðan mat.
„Mér finnst ekkert skemmtilegra en að elda góðan mat og helst vil ég nostra við hann lengi. Sá lúxus fæst því miður ekki á virkum dögum en ég reyni á móti að plana helgarnar vel. Mér finnst svo líka ekkert skemmtilegra en að bjóða í matarboð og hugsa þá lengi og vel hvað ég vil bjóða upp á og hvert konseptið verður,“ segir Anna Fríða spennt á svipinn enda farin að huga að páskamatnum.
Þrátt fyrir miklar annir fyrir páskafríið sem framundan er gaf Anna Fríða sér tíma til að svara nokkrum spurningum um matarvenjur sínar og deila með lesendum.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég borða yfirleitt einhverja útgáfu af eggjum og kolvetnaskertri Hleðslu. Útfærslan er breytileg svo ég fái ekki leið. Lengi vel voru það tvö steikt egg með salti, pipar, parmesan og heimagerðri hot sauce, ef ég átti hana til, og Hleðslan var drukkin úr glasi fullu af klaka með espressóskoti út í. Núna er það einfaldara, tvö soðin egg og Hleðsla beint úr fernunni. Um helgar gerum við fjölskyldan pönnukökur úr banana, höfrum og eggi.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Já, alla jafna. Grísk jógúrt verður oft fyrir valinu.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Já, engin spurning. Við hjá Nóa Síríus búum svo vel að vera með einn færasta kokk landsins hjá okkur. Hvert hádegi er því.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Parmesan, gríska jógúrt og Collab.“
Borðar þú páskaegg?
„Að sjálfsögðu, í fleirtölu.“
Hver er uppáhaldspáskaeggjategundin þín?
„Ég kýs gæði þegar kemur að páskaeggjum, þau koma að sjálfsögðu frá Nóa Síríus. Uppáhaldspáskaeggin mín eru með saltlakkrís og saltkaramellu annars vegar og suðusúkkulaðiegg annars vegar.“
Geymir þú málshættina þína?
„Ég hef ekki lagt það í vana en að sjálfsögðu breytist það núna, enda fyrstu páskarnir mínir hjá Nóa Síríus.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Ég hef mjög gaman af því að fara út að borða. Mínir uppáhalds staðir eru Fiskmarkaðurinn, La Primavera í Marshallhúsinu, Hósíló, Sumac, Austurindíafélagið svo fátt sé nefnt.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Það fer í raun eftir stemningu og deigi. Að mínu mati fer álegg smá eftir því hvernig pítsudeig ég er með hverju sinni.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þínu?
„Tómatsósu og steiktan lauk, það er ekki meiri þroski hjá mér en það.“
Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?
„Lesendur mega vita að það tók mig langan tíma til að svara þessari spurningu. Það er mjög breytilegt eftir skapi. Núna þegar sólin hækkar á lofti er ég mjög hrifin af ferskari mat eins og grískum eða líbönskum. Ég og maðurinn minn erum búin að fullkomna Birria tacos sem er mikið tekið á haustin til að mynda. En ég segi sjaldan nei við góðri steik.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Blanda af báðu, þó er yfirleitt hærra hlutfall salats á mánudögum og hærra hlutfall kartafla um helgar.“
Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Sódavatn, kaffi eða annar orkudrykkur miðað við daglega neyslu.“