Dóróthea Ármann er þekkt fyrir að vera mikill nautnaseggur og laga góðan mat. Hún er aðstoðarframkvæmdastjóri Friðheima og stendur að baki Vínstofu Friðheima ásamt manni sínum Kristjáni Geir Gunnarssyni og foreldrum sínum, Knúti Rafni Ármanni og Helenu Hermundadóttur.
Hún afhjúpar fyrir lesendum matarvefsins hvaða réttur er hennar uppáhalds á Vínstofunni og hvernig hann er borinn fram en það er fullt glas af ferskum og nýjum jarðarberjum sem fyllt er upp í með kampavíni. Ást hennar á jarðarberjum hefur bara aukist eftir að fjölskyldan bætti við sig jarðarberjaræktun.
„Um áramótin tókum við fjölskyldan við garðyrkjustöðinni Jarðarberjalandi, garðyrkjustöð sem hefur verið brautryðjandi í ylrækt í jarðarberjum allt árið um kring. Með þessu teygjum við anga okkar út fyrir tómatana, sem er mjög skemmtilegt, því við erum orðnir ágætir sérfræðingar í tómötum en getum lengi blómum á okkur bætt í öðrum ávöxtum. Það er nefnilega skemmtileg staðreynd að bæði tómatar og jarðarber eru ávextir,“ segir Dóróthea með bros á vör.
„Jarðarber eru drottning ylræktarinnar og verðskulda að vera meðhöndluð þannig allt frá byrjun. Þess vegna er berið aðeins snert einu sinni frá plöntu í box og því nánast ósnert þegar þess er neytt,“ bætir Dóróthea við.
Íslensk jarðarber eru sér á stalli hvað varðar hreinleika, bragð og gæði. Engin eitur- né varnarefni eru notuð, þau eru vökvuð með hreina íslenska vatninu og leyft að þroskast í friði þangað til þau eru orðin sæt og góð á plöntunni og tilbúin til átu.
„Jarðarber eru munaðarvara sem dekrað er við frá byrjun til enda og kosta þess vegna sitt. Því er synd að vinna þau of mikið og okkur fjölskyldunni finnst langbest að leyfa þeim að njóta sín í sínu hreinasta formi, með smá tvisti.
Þess vegna langar mig að deila með ykkur afar einfaldri uppskrift, ef uppskrift má kalla, en þannig uppskriftir finnst mér einmitt bestar. Þetta er jarðarberja- og kampavínsdrykkur. Fá innihaldsefni og fá skref þarf til að töfra þennan fram. Þessi réttur hefur alltaf slegið í gegn, bæði á Vínstofu Friðheima og heima. Fólk fljótt að taka upp myndavélarnar því hann er mikið fyrir auga og munn,“ segir Dóróthea og horfir fallegum augum á jarðarberin sem bíða þess að fara í kampavínsglasið.
„Þetta er minn uppáhaldsréttur á Vínstofu Friðheima þar sem hann er framreiddur með prosecco, Moet, Philipponnat eða Vinada óáfengu freyðivíni. Fullkominn sem eftirréttur, fordrykkur eða bara til að lyfta sér upp og gera sér glaðan dag,“ segir Dóróthea að lokum.
Jarðarberja- og kampavínsdrykkur Vínstofunnar
Aðferð: