Tinna Brá Baldvinsdóttir gleðigjafi og eigandi Hrím deilir með lesendum skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar að þessu sinni. Hún elskar fátt meira en að njóta þess að fá sér hamborgara í baði og drekka kampavín með, alla vega er það uppáhaldsdrykkurinn hennar.
Það er aldrei lognmolla kringum Tinnu Brá og um þessar mundir er hún að undirbúa afmælisveislu hjá Hrím.
„Framundan er 15 ára afmæli Hrím, en það er 27. maí næstkomandi. Ég er stolt af þessu 15 ára starfi í Hrím og ætla að fagna því tímabili þann 15. maí næstkomandi með skemmtilegum afmælisviðburði í versluninni. Síðan verða nýjar vörur frumsýndar samhliða afmælinu næstu vikur og mögulega endurgerð á fyrstu vörunni sem við framleiddum árið 2010 en það verður sennilega með haustinu,“ segir Tinna Brá þegar hún er spurð hvort eitthvað nýtt sé á döfinni hjá henni.
En það eru fleiri verkefni sem bíða hennar því hana langar að stækka við sig.
„Þessa dagana er ég einmitt að leita að stærri eign með góðu eldhúsi og baðkari. Ég ætlaði bara að búa hérna í eitt ár, svona tímabundið en svo fluttu foreldrar mínir við hliðina á mér og þá er nú erfitt að fara að flytja eftir að hafa verið búandi í hvoru bæjarfélaginu í 23 ár.“
Tinna Brá er haldin óbilandi matarást og sýnir það með margvíslegum hætti.
„Ég gerði meira að segja plakatlínu fyrir Hrím með Ágústu vinkonu minni sem heitir Matarást. Ég er með vandræðalega mikla matarást af öllu sem inniheldur majónes. Ég eralin upp úti á landi og það var ekki almennileg veisla nema það væri mikið af majónesi. Þá er ég aðallega að tala um brauðtertur og salöt.
Ég elska að elda og ef ég er eirðarlaus eða kvíðin og næ erfiðlega að vinna þá fer ég og set í gang Tinnumall eins og Ari minn kallar það,“ segir Tinna Brá og hlær.
En hún og maðurinn hennar, Ari Eldjárn, eru dugleg að njóta góðs matar.
„Þá set ég nokkra potta á hellurnar, kveiki á plötuspilaranum og gleymi mér aðeins yfir pottunum. Svo er nú gott að skella í eitt majónessalat á kvöldin til að eiga í ísskápnum.
Ég hef búið aðeins þrengra síðustu fimm ár og þá hefur matarástin mín aðeins legið í dvala því miður en ég nýt mín best með stóru gashelluborði, útdraganlegum krana og japönsku stáli, klædd í svuntuna hennar ömmu Fjólu. Uppáhaldið mitt þessa dagana er að bjóða í bröns heima hjá Ara. Þar notum við flotta Kintsugi-matarstellið úr Hrím og ég nýt mín svo vel með gott pláss fyrir matseldina,“ segir Tinna Brá dreymin á svip.
Tinna Brá svarar hér nokkrum laufléttum spurningum um matarvenjur sínar sem gefur lesendum smá innsýn í hvað er í uppáhaldi hjá henni þegar kemur að mat.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég gæti borðað egg alla daga, allan daginn. Ég elska egg í morgunmat. Við mæðgur elskum líka að gera chiagraut oggóðan próteinþeyting.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Já, ég hef alltaf þurft að borða reglulega. Þannig næ ég líka betra jafnvægi á blóðsykrinum. Ég dýrka harðfisk, próteinsnakk, flatköku með túnfisksalati og ost í millimál.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Já, ég elska að borða fisk í hádeginu en oft er það nú bara flatkaka líka, með rækjusalati.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Gettu, majónes og egg, þá get ég í neyð gert mitt eigið majónes. En svo ég svari þessu þá er það smjör, majónes, skyr og Collab,“ segir Tinna og hlær.
Borðar þú páskaegg?
„Það hef ég ekki gert í mörg ár. Ég hef tamið mér það að vera að mestu sykurlaus. Er reyndar búin að vera í góðu fríi núna í tæp tvö ár eftir að ég varð svona ástfangin og kærulaus. En það er lítið mál að byrja aftur í „sykurleysinu” og ég er búin með rúman mánuð núna nánast sykurlaus. Þetta kemur aftur. Góðu fréttirnar eru að mig langar ekkert í páskaegg.“
Hver er uppáhaldspáskaeggjategundin þín?
„Það var Nói Sírius þegar ég keypti mér páskaegg síðast.“
Geymir þú málshættina þína?
„Ég safnaði málsháttum í mörg ár þegar ég var lítil. Elska að kaupa lítil páskaegg saman í pakka og gefa fólki, svona til að sjá málshættina þeirra. Ég fékk síðast lítið páskaegg í Icelandair-flugi og þá stóð „Allt er fertugum fært“. Sem var afar viðeigandi því ég var að verða fertug.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Ég á marga uppáhalds staði. Ég fer mjög mikið í hádeginu á Yndisauka, keypti einmitt íbúðina mína eiginlega út af því að það var þessi holli og góði veitingastaður í 50 metra fjarlægð þar sem er frábært að fara með börnin líka út af leiksvæðinu þar úti. Skál hefur líka alltaf verið mikið í uppáhaldi hjá mér en Dill er auðvitað sá flottasti og þangað fer ég ef ég ætla að gera mjög vel við mig. Við Ari elskum líka að fara á deit á Kringlukránni á virkum dögum áður en við kíkjum í bíó, smá nostalgía þar.
Hvar finnst þér best að borða hamborgarann þinn?
„Ég elska að borða hamborgara í baði og drekka kampavín með,“ segir Tinna og hlær dátt.
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Skinku, ólífur, tómata, sveppi, papriku og alls konar góða osta. Ég get bætt við ananas, ætisþystlum og döðlum stundum líka. Ég vil sem sagt hafa mikið álegg á pítsunni minni.“