„Ég elska að borða hamborgara í baði“

Tinna Brá Baldvinsdóttir, gleðigjafi og eigandi Hrím afhjúpar nokkur leyndarmál …
Tinna Brá Baldvinsdóttir, gleðigjafi og eigandi Hrím afhjúpar nokkur leyndarmál bak við matarvenjur sínar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tinna Brá Bald­vins­dótt­ir gleðigjafi og eig­andi Hrím deil­ir með les­end­um skemmti­leg­um staðreynd­um um mat­ar­venj­ur sín­ar að þessu sinni. Hún elsk­ar fátt meira en að njóta þess að fá sér ham­borg­ara í baði og drekka kampa­vín með, alla vega er það upp­á­halds­drykk­ur­inn henn­ar.

Það er aldrei logn­molla kring­um Tinnu Brá og um þess­ar mund­ir er hún að und­ir­búa af­mæl­is­veislu hjá Hrím.

„Framund­an er 15 ára af­mæli Hrím, en það er 27. maí næst­kom­andi. Ég er stolt af þessu 15 ára starfi í Hrím og ætla að fagna því tíma­bili þann 15. maí næst­kom­andi með skemmti­leg­um af­mælisviðburði í versl­un­inni. Síðan verða nýj­ar vör­ur frum­sýnd­ar sam­hliða af­mæl­inu næstu vik­ur og mögu­lega end­ur­gerð á fyrstu vör­unni sem við fram­leidd­um árið 2010 en það verður senni­lega með haust­inu,“ seg­ir Tinna Brá þegar hún er spurð hvort eitt­hvað nýtt sé á döf­inni hjá henni.

En það eru fleiri verk­efni sem bíða henn­ar því hana lang­ar að stækka við sig.

„Þessa dag­ana er ég ein­mitt að leita að stærri eign með góðu eld­húsi og baðkari. Ég ætlaði bara að búa hérna í eitt ár, svona tíma­bundið en svo fluttu for­eldr­ar mín­ir við hliðina á mér og þá er nú erfitt að fara að flytja eft­ir að hafa verið bú­andi í hvoru bæj­ar­fé­lag­inu í 23 ár.“

Vand­ræðamikla mat­ar­ást á öllu sem inni­held­ur maj­ónes

Tinna Brá er hald­in óbilandi mat­ar­ást og sýn­ir það með marg­vís­leg­um hætti.

„Ég gerði meira að segja plakatlínu fyr­ir Hrím með Ágústu vin­konu minni sem heit­ir Mat­ar­ást. Ég er með vand­ræðal­ega mikla mat­ar­ást af öllu sem inni­held­ur maj­ónes. Ég er­alin upp úti á landi og það var ekki al­menni­leg veisla nema það væri mikið af maj­ónesi. Þá er ég aðallega að tala um brauðtert­ur og salöt.

Ég elska að elda og ef ég er eirðarlaus eða kvíðin og næ erfiðlega að vinna þá fer ég og set í gang Tinnu­m­all eins og Ari minn kall­ar það,“ seg­ir Tinna Brá og hlær.

En hún og maður­inn henn­ar, Ari Eld­járn, eru dug­leg að njóta góðs mat­ar.

„Þá set ég nokkra potta á hell­urn­ar, kveiki á plötu­spil­ar­an­um og gleymi mér aðeins yfir pott­un­um. Svo er nú gott að skella í eitt maj­ónessal­at á kvöld­in til að eiga í ís­skápn­um.

Ég hef búið aðeins þrengra síðustu fimm ár og þá hef­ur mat­ar­ást­in mín aðeins legið í dvala því miður en ég nýt mín best með stóru gashellu­borði, út­drag­an­leg­um krana og japönsku stáli, klædd í svunt­una henn­ar ömmu Fjólu. Upp­á­haldið mitt þessa dag­ana er að bjóða í bröns heima hjá Ara. Þar not­um við flotta Kintsugi-mat­ar­stellið úr Hrím og ég nýt mín svo vel með gott pláss fyr­ir mat­seld­ina,“ seg­ir Tinna Brá dreym­in á svip.

Tinna Brá er að leita sér að stærri eign með …
Tinna Brá er að leita sér að stærri eign með með góðu eld­húsi og baðkari svo hún geti haldið áfram að láta mat­ar­ást­ina sína blómstra. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Elsk­ar egg í morg­un­mat

Tinna Brá svar­ar hér nokkr­um lauflétt­um spurn­ing­um um mat­ar­venj­ur sín­ar sem gef­ur les­end­um smá inn­sýn í hvað er í upp­á­haldi hjá henni þegar kem­ur að mat.

Hvað færðu þér í morg­un­mat?

„Ég gæti borðað egg alla daga, all­an dag­inn. Ég elska egg í morg­un­mat. Við mæðgur elsk­um líka að gera chia­graut oggóðan próteinþeyt­ing.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Já, ég hef alltaf þurft að borða reglu­lega. Þannig næ ég líka betra jafn­vægi á blóðsykr­in­um. Ég dýrka harðfisk, próteinsnakk, flat­köku með tún­fisksal­ati og ost í milli­mál.“

Flat­kaka með rækju­sal­ati

Finnst þér ómiss­andi að borða há­deg­is­verð?

„Já, ég elska að borða fisk í há­deg­inu en oft er það nú bara flat­kaka líka, með rækju­sal­ati.“

Hvað áttu alltaf til í ís­skápn­um?

„Gettu, maj­ónes og egg, þá get ég í neyð gert mitt eigið maj­ónes. En svo ég svari þessu þá er það smjör, maj­ónes, skyr og Collab,“ seg­ir Tinna og hlær.

Búin að vera svo kæru­laus eft­ir að ég varð svona ást­fang­in

Borðar þú páska­egg?

„Það hef ég ekki gert í mörg ár. Ég hef tamið mér það að vera að mestu syk­ur­laus. Er reynd­ar búin að vera í góðu fríi núna í tæp tvö ár eft­ir að ég varð svona ást­fang­in og kæru­laus. En það er lítið mál að byrja aft­ur í „syk­ur­leys­inu” og ég er búin með rúm­an mánuð núna nán­ast syk­ur­laus. Þetta kem­ur aft­ur. Góðu frétt­irn­ar eru að mig lang­ar ekk­ert í páska­egg.“

Hver er upp­á­hald­spáska­eggja­teg­und­in þín?

„Það var Nói Sír­ius þegar ég keypti mér páska­egg síðast.“

Geym­ir þú máls­hætt­ina þína?

„Ég safnaði máls­hátt­um í mörg ár þegar ég var lít­il. Elska að kaupa lít­il páska­egg sam­an í pakka og gefa fólki, svona til að sjá máls­hætt­ina þeirra. Ég fékk síðast lítið páska­egg í Icelanda­ir-flugi og þá stóð „Allt er fer­tug­um fært“. Sem var afar viðeig­andi því ég var að verða fer­tug.“

Þegar þú ætl­ar að gera vel við þig í mat og drykk og vel­ur veit­ingastað til að fara á, hvert ferðu?

„Ég á marga upp­á­halds staði. Ég fer mjög mikið í há­deg­inu á Yndis­auka, keypti ein­mitt íbúðina mína eig­in­lega út af því að það var þessi holli og góði veit­ingastaður í 50 metra fjar­lægð þar sem er frá­bært að fara með börn­in líka út af leik­svæðinu þar úti. Skál hef­ur líka alltaf verið mikið í upp­á­haldi hjá mér en Dill er auðvitað sá flott­asti og þangað fer ég ef ég ætla að gera mjög vel við mig. Við Ari elsk­um líka að fara á deit á Kringlukránni á virk­um dög­um áður en við kíkj­um í bíó, smá nostal­g­ía þar.

Hvar finnst þér best að borða ham­borg­ar­ann þinn?

„Ég elska að borða ham­borg­ara í baði og drekka kampa­vín með,“ seg­ir Tinna og hlær dátt.

Hvað vilt þú á pítsuna þína?

Skinku, ólíf­ur, tóm­ata, sveppi, papriku og alls kon­ar góða osta. Ég get bætt við an­an­as, ætisþystl­um og döðlum stund­um líka. Ég vil sem sagt hafa mikið álegg á pítsunni minni.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka