Þetta kúrekasmjör er ótrúlega gott með kjöti, eins og kjúkling í milanese, og steiktum fiski. Það er eitthvað við þessa smjörblöndu sem gerir réttina enn þá betri. Þessi uppskrift kemur úr smiðju Vigfúsar hennar Hönnu Thordarson, matgæðings með meiru, en hún birti uppskriftina á uppskriftavef sínum á dögunum.
„Um daginn þegar við vorum að elda kjúkling skellti hann í sína útgáfu af kúrekasmjöri sem þótti passa mjög vel með réttinum,“ segir Hanna.
Kúrekasmjör er samsetning af smjöri og kryddi, sem er kannski ekki gott eitt og sér, en á vel með ýmsu kjöti og fiski.
„Útgáfan hans Vigfúsar er aðeins öðruvísi þar sem hún er full af lauk sem er karamelseraður fyrst. Þetta er nokkuð skemmtileg útgáfa af því sem ég set á síðuna mína til að halda hlutföllunum til haga,“ bætir Hanna við.
Ekta kúrekasmjör sem gerir allt betra
Kúrekasmjör
- 2 stórir gulir laukar, skornir í þunnar sneiðar
- 100 g íslenskt smjör
- 2 msk. dijon sinnep
- 1 lífræn sítróna, allur safinn og börkur af ½ sítrónu
- 2 hvítlauksrif, pressuð eða rifin
- 1 msk. þurrkað rósmarín
- 1 – 1½ msk. þurrkað kóríander
- 1 – 1½ msk. þurrkað timian
- ½ tsk. cayennepipar, má einnig nota ferskt chili, saxa það niður
- 2 msk. kapers – söxuð
- 1 tsk. paprikukrydd
- ½ – 1 tsk. whorsestersósa
- Saltflögur eftir smekk
- Vel af nýmöluðum svörtum pipar
- 1 – 3 msk. fersk steinselja, það er líka fallegt að skreyta með henni
Aðferð:
- Steikið lauksneiðarnar upp úr smjörinu á meðalhita í 10 – 15 mínútur.
- Steikið laukinn þar til hann verður fallega brúnleitur.
- Bætið afganginum af hráefninu við á pönnuna og blandið öllu saman.
- Setjið síðan í skál og berið fram með því sem hugurinn girnist.
- Á vel með tjúlluðum kjúlla milanese, steiktum fiski eða á hamborgarann.