Góðgerðarpítsa Domino’s er í ár seld til styrktar Minningarsjóði Bryndísar Klöru. Sala pítsunnar hófst á mánudaginn en vegna gríðarlegrar eftirspurnar seldist hún upp um klukkan átta í gærkvöldi að því fram kemur í tilkynningu frá Domino´s.
„Hráefnisvinnslan okkar hefur farið í að koma hráefni í allar verslanir svo hægt verði að bjóða upp á góðgerðarpítsuna í dag; salan á Góðgerðarpítsunni hefst aftur klukkan 15:00 í dag,“ segir Ásmundur Atlason, markaðsstjóri Domino‘s.
„Þau sem vilja styrkja sjóðinn og kaupa góðgerðarpítsuna geta því gert það í dag,“ bætir hann við.
Góðgerðarpítsan er árlegt samstarfsverkefni Domino's og Hrefnu Sætran matreiðslumeistara og veitingahúseiganda. Pítsan var fyrst á matseðli árið 2013 og er nú til sölu í 12. skipti. Á þeim tíma hafa samtals safnast um 65 milljónir til ýmissa góðra málefna, en á hverju ári rennur öll sala pítsunnar óskipt til valins góðgerðarfélags – hver einasta króna.
„Við höfum aldrei áður lent í því að Góðgerðarpítsan seljist upp á tveimur dögum,“ segir Ásmundur. Hann segist afar þakklátur en öll sala pítsunnar rennur beint í Minningarsjóð Bryndísar Klöru, hver einasta króna.
Aðspurður segir Ásmundur að síðasti söludagur Góðgerðarpítsunnar sé á morgun, fimmtudaginn 10. apríl. Hann segist allt eins eiga von á að hún seljist upp áður en dagurinn er úti.
„Miðað við viðtökurnar þá gæti farið svo að góðgerðarpítsan seljist aftur upp og ekki verði til hráefni á landinu til að anna eftirspurn. Við höfum nú náð að safna rúmum 8 milljónum og vonum að við náum að safna yfir 10 milljónum,“ segir hann.
Selja bleikar svuntur í Kringlunni til styrktar sjóðnum
Auk Góðgerðarpítsunnar hafa verið framleiddar fallegar, bleikar svuntur með nafni og merki minningarsjóðsins. Þær eru seldar í Kringlunni vikuna til 13. apríl næstkomandi, eða á meðan birgðir endast. Bleikur var einmitt uppáhaldslitur Bryndísar Klöru, en andvirðið af sölu svuntunnar rennur einnig beint í minningarsjóðinn.
„Markmið minningarsjóðsins er að styðja við verkefni sem vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samstaða er í forgrunni. Við viljum búa í samfélagi þar sem kærleikurinn ræður ríkjum,“ segir Guðrún Inga Sívertsen, formaður minningarsjóðsins.
„Þess vegna skiptir samstarfið við Domino’s okkur miklu máli, í raun er þetta ómetanlegt framtak hjá þeim – því með hverri pítsu sem seld er í hennar nafni, minnumst við hennar og stöndum saman um að bæta samfélagið okkar,“ segir Guðrún Inga jafnframt.
„Það er ómetanlegt að Domino’s láti allt söluandvirðið renna til sjóðsins en ekki einungis ágóðann, en það gera þau í samvinnu við Ali og MS, sem útvega einnig hráefni fyrir pítsuna og taka þannig þátt með Domino’s í þessari einstöku góðgerðarsöfnun,“ segir Birgir Karl Óskarsson, faðir Bryndísar Klöru.
„Að fá sér Bryndísarpítsu skiptir máli því þannig minnumst við Bryndísar Klöru og sameinumst í að gera samfélagið betra í hennar nafni,“ bætir hann við.