Góðgerðarpítsa Domino’s seldist upp í gær

Góðgerðarpítsan er árlegt samstarfsverkefni Domino's og Hrefnu Sætran matreiðslumeistara og …
Góðgerðarpítsan er árlegt samstarfsverkefni Domino's og Hrefnu Sætran matreiðslumeistara og veitingahúseiganda. Í ár er hún seld til styrktar Minningarsjóði Bryndísar Klöru. Samsett mynd

Góðgerðarpítsa Dom­in­o’s er í ár seld til styrkt­ar Minn­ing­ar­sjóði Bryn­dís­ar Klöru. Sala pítsunn­ar hófst á mánu­dag­inn en vegna gríðarlegr­ar eft­ir­spurn­ar seld­ist hún upp um klukk­an átta í gær­kvöldi að því fram kem­ur í til­kynn­ingu frá Dom­ino´s.

„Hrá­efn­is­vinnsl­an okk­ar hef­ur farið í að koma hrá­efni í all­ar versl­an­ir svo hægt verði að bjóða upp á góðgerðarpítsuna í dag; sal­an á Góðgerðarpítsunni hefst aft­ur klukk­an 15:00 í dag,“ seg­ir Ásmund­ur Atla­son, markaðsstjóri Dom­ino‘s.

„Þau sem vilja styrkja sjóðinn og kaupa góðgerðarpítsuna geta því gert það í dag,“ bæt­ir hann við.

Góðgerðarpíts­an er ár­legt sam­starfs­verk­efni Dom­in­o's og Hrefnu Sætr­an mat­reiðslu­meist­ara og veit­inga­hús­eig­anda. Píts­an var fyrst á mat­seðli árið 2013 og er nú til sölu í 12. skipti. Á þeim tíma hafa sam­tals safn­ast um 65 millj­ón­ir til ým­issa góðra mál­efna, en á hverju ári renn­ur öll sala pítsunn­ar óskipt til val­ins góðgerðarfé­lags – hver ein­asta króna.

Aldrei selst upp áður á tveim­ur dög­um

„Við höf­um aldrei áður lent í því að Góðgerðarpíts­an selj­ist upp á tveim­ur dög­um,“ seg­ir Ásmund­ur. Hann seg­ist afar þakk­lát­ur en öll sala pítsunn­ar renn­ur beint í Minn­ing­ar­sjóð Bryn­dís­ar Klöru, hver ein­asta króna.

Aðspurður seg­ir Ásmund­ur að síðasti sölu­dag­ur Góðgerðarpítsunn­ar sé á morg­un, fimmtu­dag­inn 10. apríl. Hann seg­ist allt eins eiga von á að hún selj­ist upp áður en dag­ur­inn er úti.

„Miðað við viðtök­urn­ar þá gæti farið svo að góðgerðarpíts­an selj­ist aft­ur upp og ekki verði til hrá­efni á land­inu til að anna eft­ir­spurn. Við höf­um nú náð að safna rúm­um 8 millj­ón­um og von­um að við náum að safna yfir 10 millj­ón­um,“ seg­ir hann.

Selja bleik­ar svunt­ur í Kringl­unni til styrkt­ar sjóðnum

Auk Góðgerðarpítsunn­ar hafa verið fram­leidd­ar fal­leg­ar, bleik­ar svunt­ur með nafni og merki minn­ing­ar­sjóðsins. Þær eru seld­ar í Kringl­unni vik­una til 13. apríl næst­kom­andi, eða á meðan birgðir end­ast. Bleik­ur var ein­mitt upp­á­halds­lit­ur Bryn­dís­ar Klöru, en and­virðið af sölu svunt­unn­ar renn­ur einnig beint í minn­ing­ar­sjóðinn.

„Mark­mið minn­ing­ar­sjóðsins er að styðja við verk­efni sem vernda börn gegn of­beldi og efla sam­fé­lag þar sem sam­kennd og samstaða er í for­grunni. Við vilj­um búa í sam­fé­lagi þar sem kær­leik­ur­inn ræður ríkj­um,“ seg­ir Guðrún Inga Sívertsen, formaður minn­ing­ar­sjóðsins.

„Þess vegna skipt­ir sam­starfið við Dom­in­o’s okk­ur miklu máli, í raun er þetta ómet­an­legt fram­tak hjá þeim – því með hverri pítsu sem seld er í henn­ar nafni, minn­umst við henn­ar og stönd­um sam­an um að bæta sam­fé­lagið okk­ar,“ seg­ir Guðrún Inga jafn­framt.

Ómet­an­legt, seg­ir faðir Bryn­dís­ar Klöru

„Það er ómet­an­legt að Dom­in­o’s láti allt sölu­and­virðið renna til sjóðsins en ekki ein­ung­is ágóðann, en það gera þau í sam­vinnu við Ali og MS, sem út­vega einnig hrá­efni fyr­ir pítsuna og taka þannig þátt með Dom­in­o’s í þess­ari ein­stöku góðgerðarsöfn­un,“ seg­ir Birg­ir Karl Óskars­son, faðir Bryn­dís­ar Klöru.

„Að fá sér Bryn­dísarpítsu skipt­ir máli því þannig minn­umst við Bryn­dís­ar Klöru og sam­ein­umst í að gera sam­fé­lagið betra í henn­ar nafni,“ bæt­ir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert