Nú styttist óðfluga í páskahátíðina og sumarið er handan við hornið. Þá kallar það á að við tökum út grillin. Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla, er búin að taka grillið út og er byrjuð að fullkomna meðlæti með grillkjötinu, fiskinum og öðrum kræsingum.
Það er klassískt að bera fram kartöflusalat með hinum ýmsu grillréttum og það þekkir Valla vel. Hún bjó til þetta salat sem hún kallar klessukartöflusalat sem er með maískorni, avókadó og stökkri parmaskinku. Þetta er sennilega það kartöflusalat sem toppar þau líklega flest og er ansi nýstárlegt.
Í dágóðan tíma hafa kartöflusalöt með klessukartöflum hringsólað á samfélagsmiðlum og ýmislegt verið prófað en Valla fann uppskriftina einmitt þar.
Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla, er bráðsniðug að setja saman góða rétti. Nú er hún komin í sumargírinn og búin að taka út grillið.
mbl.is/Karítas
„Ég mæli með því að bera það fram með grilluðum kjúklingi, lambakjöti og fiski. Og þegar páskarnir eru á næsta leiti liggur auðvitað beinast við að hafa það með páskasteikinni,“ segir Valla og brosir út í eitt.
Klessukartöflusalatið hennar Völlu er nýstárlegt og litríkt
Klessukartöflusalat með maískorni, avókadó og stökkri parmaskinku
- ½ kg litlar kartöflur
- 3 msk. ólífuolía
- 1 dós maískorn
- ½ avókadó, skorið í bita
- 3 vorlaukar, hvíti hlutinn
- ½ rauðlaukur, miðlungsstór
- 50 g ítölsk parmaskinka
- 1 msk. ferskt dill, saxað
- 1 msk. ferskt kóríander, saxað (má sleppa)
- 40 g majónes
- 40 g sýrður rjómi
- 1 tsk. ferskur sítrónusafi
- ¼ tsk. cayenne pipar
- ¼ tsk. hvítlauksduft
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Sjóðið kartöflurnar þar til þær eru soðnar í gegn.
- Hitið ofninn í 210°C blástur.
- Hellið vatninu af kartöflunum og setjið þær á ofnplötu sem klædd er með bökunarpappír.
- Notið glas eða eitthvað áhald til þess að kremja niður kartöflurnar.
- Penslið þær með ólífuolíu og stráið smávegis af sjávarsalti yfir.
- Bakið kartöflurnar í 30 mínútur í ofninum, snúið þeim við og penslið aftur með olíu þegar tíminn er hálfnaður.
- Setjið parmaskinkuna á bökunarpappírsklædda ofnplötu.
- Bakið hana í ofninum síðustu 7 mínúturnar af kartöflutímanum.
- Fylgist vel með þar sem sneiðarnar eru svo þunnar.
- Takið kartöflurnar og skinkuna úr ofninum og kælið.
- Á meðan kartöflurnar kólna setjið þá majónes og sýrðan rjóma í miðlungsstóra skál. Bætið við sítrónusafa og kryddum og hrærið.
- Skerið avókadó í bita og vorlauk og rauðlauk smátt. Hellið maískorni í sigti og látið vatnið renna af.
- Setjið grænmetið og maísinn saman við sósuna.
- Skerið kartöflurnar í bita þegar þær hafa kólnað að mestu og saxið parmaskinkuna.
- Setjið út í skálina og blandið saman.
- Best er að láta salatið taka sig í smá stund í kæli áður en það er borið fram.
- Berið fram með því sem ykkur langar til.