Tilkynnt hefur verið hverjir eru topp 8 bestu barþjónar landsins og bestu kokteilstaðirnir sem komust áfram í barþjónakeppninni World Class en úrslitin fara fram í næsta mánuði hver fer fyrir Íslands hönd í stóru keppnina sem er haldin í Kanada í ár.
Bestu barþjónar landsins komu saman á kokteilbarnum Tipsý á skemmtilegu festivali á Reykjavík Cocktail Week og spennan var gríðarleg þar sem sjaldan hefur verið jafn erfitt að velja topp 8. Dansarar komu fram og Dj Rakel hélt uppi stuðinu fram eftir kvöldi.
„Vert er að nefna að vel er gætt að jafnræði og gegnsæi við dómgæslu World Class hér á litla Íslandi, þar sem allir þekkja alla. Við dómgæslu að þessu sinni kom Richard Wynne frá Callooh Callay í London sem er á lista yfir 50 bestu kokteilbari heims og dæmdi ásamt Fannari í Klakavinnslunni og Jakobi Eggerts frá Daisy sem var síðasti World Class sigurvegari Íslands,“ segir Sóley Kristjánsdóttir vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni sem kemur meðal annars að keppninni.
Barþjónarnir tókust á við skemmtilega staðbundna áskorun þar sem þeir unnu með Don Julio tequila og svo „hyper-local“ hráefni. Áskorunin snérist um tvo drykki þar sem barþjónar þurftu að vinna með hráefni sem var að finna í 15 km radíus frá barnum þeirra.
Annar drykkurinn átti að vera fordrykkur þar sem hafa þurfti áfengisinnihald í huga því það er óráðlegt að hafa fordrykki of sterka á tóma maga.
Hinn drykkurinn var svo hágæða Don Julio-kokteill með staðbundnu ívafi.