Páskarnir nálgast óðfluga og þá er alveg tilvalið að búa til ljúffengan dögurð og slá í gegn. Egg Benedict er fallegur og gómsætur brönsréttur sem samanstendur af enskri múffu, beikoni, hleyptu eggi og Hollandaise sósu.
Á heimasíðu Hagkaups birtist uppskrift að þessum rétti sem kemur úr smiðju Evu Laufeyjar Kjaran matgæðings með meiru sem allir ættu að ráða við.
Það er nefnilega ekki eins flókið að útbúa þennan rétt eins og margir halda, en aðaláskorunin er mögulega Hollandaise-sósan. Eva Laufey bjó til þessa einföldu og fljótlegu aðferð hvernig skal búa til Hollandaise-sósuna, en gott er að nota töfrasprota og það tekur tvær til þrjár mínútur að útbúa sósuna, mjög einfalt.
Ljúffengt Egg Benedict með heimagerðri Hollandaise-sósu
Egg Benedict með heimagerðri Hollandaise sósu
- 4 egg
- 2 l vatn
- 1 tsk. edik (má sleppa)
- 6 sneiðar af góðri hráskinku
- Tvær þykkar sneiðar af grófu brauði (ég notaði gróft súrdeigsbrauð)
- Spínat steikt upp úr smjöri, magn eftir smekk
- 3 – 4 msk. Hollandaise sósa (sjá uppskrift fyrir neðan)
- Salt og nýmalaður pipar
- Smátt söxuð steinselja eftir smekk
Aðferð:
- Það er best að byrja á sósunni og þið finnið uppskriftina hér fyrir neðan.
- Næsta skref er að skera súrdeigsbrauðið í þykkar sneiðar. Setjið brauðsneiðarnar á pappírsklædda ofnskúffu og sáldrið smávegis af olíu yfir. Hitið í ofni í 5 – 7 mínútur við 180°C.
- Hleypt egg eru linsoðin án skurnar.
- Það er mikilvægt að eggin séu fersk.
- Setjið vatn í pott, bætið edikinu út í vatnið og látið suðuna koma upp, lækkið þá undir pottinum en látið hann samt halda vægri suðu.
- Brjótið egg í bolla og hellið egginu mjög varlega út í vatnið (Eva mælir með að þið skoðið kennslumyndbönd á YouTube, þá sjáið þið aðferðina við að setja eggið út í pottinn).
- Sjóðið eggin í þrjár mínútur, þá ætti eggjahvítan að vera umvafin eggjarauðunni og þegar skorið er í eggið ætti rauðan að leka fallega út.
- Takið eggið varlega upp úr pottinum, Evu finnst best að nota fiskispaða og setjið á eldhúspappír til þess að þerra.
- Snöggsteikið spínat upp úr smjöri og steikið hráskinkuna í smá stund á pönnu eða þar til hún er orðin stökk og fín.
- Setjið brauðsneiðarnar á diska og raðið í eftirfarandi röð: brauð, hráskinka, spínat, egg, tvær matskeiðar af sósu, salt, pipar og smátt söxuð steinselju.
- Berið fram og njótið.
Hollandaise sósa
- 2 eggjarauður
- 1 tsk. kalt vatn
- 1 tsk. sítrónusafi
- 200 g brætt smjör
- Salt og nýmalaður pipar eftir smekk
Aðferð:
- Setjið eggjarauður, vatn og sítrónusafa íílátt sem töfrasprotinn kemst ofan í.
- Bræðið smjörið og passið að það sé enn heitt þegar þið hellið því saman við eggjarauðurnar.
- Þeytið eggjarauður, vatn og sítrónusafa með töfrasprotanum í eina til tvær mínútur eða þar til það er komin ljós og létt froða sem hefur margfaldas.,Helliðð smjörinu í mjórri bunu saman við sósuna þar til hún er tilbúin.
- Ef sósan verður of þykk þá má þeyta svolitlu volgu vatni saman við.
- Að lokum er sósan smökkuð til með salti, pipar og smá sítrónusafa.