Kalkúnn nýtur ávallt mikilla vinsælda á veisluborðum á páskunum en mörgum finnst það vera mál og of mikið að vera með heilan kalkún. Þá getur verið ráð að bjóða upp á kalkúnaskip og girnilegt meðlæti með. Ótrúlega einfalt er að elda það og engin flækjustig.
Á heimasíðu Hagkaups er að finna uppskrift að smjörsprautuðu kalkúnaskipi ásamt tillögum að gómsætu meðlæti sem á vel við á hátíðarborðinu um páskana. Sælkerameðlætið gerir máltíðina enn betri og gaman er að leika sér með bragðsamsetningar eins og hér er gert. Hver og einn getur síðan valið það sem hugurinn girnist.
Hefur þú prófað að matreiða kalkúnaskip?
Smjörsprautað kalkúnaskip með Dijon- og salvíukalkúnasósu borið fram með gljáðum gulrótum og rauðlauk, kremuðum maís með spínati, sætum fetaostskartöflum og rósakáli með brúnuðu smjöri og gúmmelaði
Smjörsprautað kalkúnaskip
- 1 stk. smjörsprautað kalkúnaskip Hagkaups
- Olía
- Smjör
- Salt
- Bezt á kalkúninn – krydd
Aðferð:
- Byrjið á því að hita ofninn í 180°C.
- Takið kalkúnaskipið úr pakkningunum og þerrið.
- Setjið í ofnskúffu og kryddið með salti.
- Bakið á 180°C í um það bil 45 mínútur á hvert kg.
Dijon- og salvíukalkúnasósa
- 100 g gulrætur
- 1 stór laukur
- 3 hvítlauksgeirar
- 1 msk. piparkorn
- 3 greinar rósmarín
- 30 g salvía
- 350 ml hvítvín
- 500 ml rjómi
- 2 msk. grófkorna Dijonsinnep
- 1-2 msk. kalkúnakraftur
Aðferð:
- Skerið gulrætur, lauk og hvítlauk gróft niður og steikið í potti á meðalhita með piparkornum og rósmaríngreinum.
- Þegar laukurinn er orðinn glær bætið þá salvíu og hvítvíni út í og látið sjóða niður um rúmlega helming.
- Hellið þá rjóma saman við og sjóðið aftur niður þar til sósan fer að þykkna aðeins, sigtið hana þá.
- Eftir það bætið þá sinnepi og krafti út í.
- Smakkið síðan sósuna til og bætið út í meiri krafti eða sinnepi ef ykkur finnst þurfa að bragðbæta hana.
Gljáðar gulrætur og rauðlaukur
- 6 msk. púðursykur
- 150 ml. appelsínusafi
- 3 litlir rauðlaukar
- 500 g gulrætur
- 750 ml grænmetissoð (vatn og 2 grænmetisteningar)
Aðferð:
- Byrjið á því að flysja gulræturnar og skerið í tvennt til fernt á lengdina.
- Skerið rauðlaukinn fernt.
- Sjóðið grænmetið í grænmetissoðinu, gulræturnar í um það bil sex mínútur og laukinn þrjár mínútur.
- Blandið þá saman appelsínusafa og púðursykri og hrærið.
- Sigtið síðan grænmetið frá soðinu og setjið á plötu og hellið púðursykursblöndunni yfir.
- Bakið síðan í ofni við 200°C hita í 15 mínútur, veltið vel upp úr púðursykursblöndunni 1-2 sinnum á bökunartímanum.
Kremaður maís með spínati
- 500 g frosin maískorn – affryst
- 250 g spínat
- 80 g smjör
- 40 g hveiti
- 250 ml rjómi
- Salt eftir smekk
- Hvítlaukspipar eftir smekk
- Olía eftir smekk
Aðferð:
- Steikið maískornin á pönnu upp úr smá olíu í u.þ.b. 3 mínútur.
- Bætið þá spínatinu út á pönnuna og kryddið með salti og hvítlaukspipar.
- Setjið smjör í annan pott og bræðið við meðalhita og bætið síðan hveiti út í og hrærið vel.
- Bætið síðan rjómanum út í smá saman þar til blandan þykknar vel, passið að hræra mjög reglulega í blöndunni þar sem þetta brennur mjög auðveldlega við.
- Að lokum bætið þið maís og spínati saman við sósuna, hrærið saman og berið fram heitt.
Sætar fetaostskartöflur
- 600 g sætar kartöflur
- 1 krukka salatostur
- 3 greinar rósmarín
- Salt eftir smekk
Aðferð:
- Flysjið og skerið ætu kartöflurnar í jafna bita og setjið í eldfast mót.
- Hellið um það bil helmingnum af olíunni af ostinum yfir kartöflurnar, saltið eftir smekk og setjið rósmaríngreinarnar með.
- Bakið á 200°C hita í um það bil 30 mínútur.
- Bætið þá ostinum við, hrærið í kartöflunum og bakið í 10 mínútur í viðbót.
- Takið síðan rósmaríngreinarnar upp úr fatinu áður en kartöflurnar eru bornar fram.
- Athugið að bökunartíminn getur verið misjafn eftir því hve stórir bitarnir eru.
Rósakál með brúnuðu smjöri og gúmmelaði
- 500 g rósakál
- 2 litlir rauðlaukar
- Olía eftir smekk
- Salt og pipar eftir smekk
- 80 g smjör
- 40 g möndluflögur
- 40 g trönuber sítrónusafi
Aðferð:
- Skerið botninn af rósakálinu og skerið það síðan í helminga og laukinn í lauf.
- Blandið rósakáli og rauðlauk saman með olíunni, salti og pipar.
- Bakið síðan í ofni við 200°C hita í um það bil 20 mínútur.
- Meðan rósakálið er í ofninum setjið þá smjörið í pott og bræðið á miðlungshita þar til það fer að freyðast, bætið þá möndluflögunum út í og hrærið vel í um það bil þrjár mínútur þar til möndlur og smjör eru orðin gullinbrún.
- Bætið þá er trönuberjunum út í smjörblönduna.
- Þegar rósakálið er tilbúið hellið þá smjörblöndunni yfir og blandið vel saman, smakkið til með sítrónusafa og salti.