Sigrún Sól Vigfúsdóttir, bakari og konditor, galdraði fram þessa gullfallegu páskatertu sem á sér fáa líka og afhjúpar uppskriftina hér svo lesendur geti leikið listina eftir henni.
Hún útskrifaðist sem bakari og konditor eftir 5 ára nám í Kaupmannahöfn og kemur úr stórri bakarafjölskyldu. Hún er hvorki meira né minna en þriðja kynslóð bakara í fjölskyldunni og vinnur í fjölskyldufyrirtækinu Bakarameistaranum sem yfirmaður tertudeildar.
Sigrún Sól er nýkomin heim frá Taiwan þar sem hún var í för með íslenska bakaralandsliðinu sem tók þátt í CITY BREAD CHAMPIONSHIP 2025 keppninni. Þau gerðu sér lítið fyrir og hrepptu bronsið í keppninni sem er framúrskarandi árangur hjá liðinu.
Segðu okkur aðeins frá ferðinni ykkar, íslenska bakaralandsliðsins í Taiwan, hvernig var að taka þátt í keppni sem þessari?
„Þetta var einstök upplifun og það var virkilega gaman að kynnast frábærum fagmönnum alls staðar úr heiminum. Keppnin var mjög vel skipulögð og mikið í hana lagt en bakarasamtökin í Taiwan sáu um keppnina. Gestrisni heimamanna var stórkostleg og það var tekið einstaklega vel á móti okkur,“ segir Sigrún Sól innblásin af gleði eftir ferðina.
„Það sem stóð upp úr var hlýja heimamanna, gestrisni og metnaður fyrir bakarafaginu. Allir sem komu að keppninni lögðu sig alla fram og það sáust langar leiðir, bæði hjá keppendum og skipuleggjendum.“
Sigrún Sól sá einnig um að sinna dómnefndarstörfum og krefst það undirbúnings og einbeitningar.
„Það fer ávallt einhver undirbúningur í þetta. Ég undirbjó mig mestmegnis við að lesa vel yfir reglur keppninnar og gera mér grein fyrir hvað það er sem við eigum að leita eftir og tryggja að reglum keppninnar sé fylgt eftir,“ segir Sigrún Sól.
„Það var dæmt út frá bragði, tækni og útliti á vörunum. Það var mikil vinna á bak við það að vera dómari og við vorum að dæma og vinna í tengslum við dómgæsluna í um það bil 12 klukkustundir á dag. Mætt var áður en keppni hófst klukkan 6 að morgni og síðan eftir að keppni lauk þurftum við að fylgjast með næstu keppendum undirbúa sig fyrir næsta dag. Fylgst var með keppendum vinna og skoðað hvernig keppendur vinna saman sem teymi, hvernig hreinlæti keppendanna er háttað sem og umgengni um hráefni með tilliti til matarsóunar.“
Finnst þér vera mikill munur á bakkelsi og brauði eftir frá hvaða landi það kemur?
„Já, ég sá það einmitt í keppninni. Það er mikill menningarlegur munur á baksturshefðum hvers lands. Bæði á tækni og á bragðsamsetningum. Meira var um hvítt brauð frá Asíulöndunum og öðruvísi fyllingum í sætu vörunum“
Páskarnir eru handan við hornið og þessa dagana er Sigrún Sól byrjuð að undirbúa hátíðina og segir að fjölskyldan haldi ávallt í ákveðnar hefðir þegar kemur að páskamatnum.
„Fjölskyldan mín býður ávallt upp á íslenskt lamb á páskunum, það má ekki klikka. Einnig eru málshættir og páskaegg alveg ómissandi hluti af páskunum hjá okkur og mikilvægt að lesa málsháttinn upp hátt fyrir alla fjölskyldumeðlimi þegar eggin eru opnuð,“ segir Sigrún Sól og brosir.
Aðspurð segist Sigrún Sól elska súkkulaði og ákveðin tegund sé í uppáhaldi. „Mitt uppáhaldspáskaegg er Rís-páskaeggið frá Freyju. Þegar ég bjó í Kaupmannahöfn fékk ég alltaf sent eitt Rís-páskaegg fyrir páskana og þar var ég í fimm ár. Það klikkaði aldrei að ég fengi eggið sent til mín, mér til mikillar ánægju.“
Hver er eftirminnilegasti málshátturinn sem þú hefur fengið?
„Morgunstund gefur gull í mund.“
Átt þú einhverjar minningar úr bernsku sem tengist páskunum á einn eða annan hátt?
„Þegar ég hugsa til baka þá eru bestu páskaminningarnar mínar allar upp í sumarbústað þegar ég var barn. Þar stóðu mamma og pabbi fyrir fjársjóðsleit að páskaeggjunum fyrir mig og bróður minn og við vorum hlaupandi um alla lóð að leita að vísbendingum og eggjum. Ógleymanlegar minningar,“ segir hún dreymin á svip.
Einn liður í páskaundirbúningnum hjá Sigrúnu Sól er að þróa nýja uppskrift að eftirrétt fyrir fjölskylduna og hún deilir hér uppskriftinni með lesendum matarvefsins.
„Fyrir hvert ár finnst mér gaman að koma með nýja og skemmtilega páskaeftirrétti. Mér finnst ótrúlega gaman að prufa og þróa nýjar uppskriftir og í ár ætla ég að bjóða upp á sítrónu-rúllutertu, sem ég kalla sítrónu-rúllettu, í fjölskylduboðinu sem er einstaklega páskaleg,“ segir Sigrún Sól og er mjög ánægð með útkomuna, bæði bragð, áferð og útlit.
Sítrónu-rúlletta
Aðferð:
Hvítt súkkulaðismjörkrem
Aðferð:
Samsetning: