Þetta er uppskrift að páskabrauði sem gleður, einstaklega mjúkt og ilmandi heimabrauð. Hið fullkomna brauð til að baka á skírdag eða morgni páskadags og vekja heimilisfólkið með lokkandi ilmi. Þetta er sætt og mjúkt brauð með appelsínukeim og trönuberjum og uppskriftin gefur 2 stór brauð eða 3 minni.
Ljúffenga páskabrauðið hans Árna sem á eftir að gleðja marga um páskana.
mbl.is/Eyþór
Heiðurinn af þessari guðdómlegu uppskrift á Árni Þorvarðarson, bakari og fagstjóri við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi.
Hann vonar að lesendur njóti þess að prófa þessa uppskrift og finni gleðina sem felst í því að búa til eitthvað gott frá grunni. Það þarf oft ekki mikið til að skapa hlýju og ánægju á heimilinu – stundum er ilmandi brauð eða nýbakaður snúður nóg til að gera daginn betri. Njótið þess að deila þessu með öðrum.
Trönuberin passa ákaflega vel í páskabrauðið.
mbl.is/Eyþór
Guðdómlegt páskabrauð með trönuberjum og appelsínu úr smiðju Árna
Páskabrauð með trönuberjum og appelsínu
- 280 g volgt vatn
- 1 stórt egg
- 56 g sykur
- 56 g smjör
- 8 g salt (1½ tsk)
- 14 g þurrger (ca 1 msk)
- 600 g hveiti
- 1–2 tsk appelsínuþykkni (eftir smekk)
- 110 g trönuber
- Egg til penslunar
- Hnetur (valkvætt, til skrauts)
Aðferð:
Skref 1
- Byrjið á því að hnoða deigið.
- Setjið vatn, egg, sykur, smjör, salt, ger, hveiti og appelsínuþykkni í hrærivél (allt nema trönuber og hnetur).
- Hnoðið á hægum hraða í 4 mínútur og svo á miðlungshraða í aðrar 4 mínútur.
- Bætið rúsínum út í undir lok hnoðunar og látið blandast vel.
Skref 2
- Fyrsta hefun.
- Látið deigið hvíla í 20 mínútur undir plasti eða rökum klút.
- Skref 3
- Mótun á brauðinu
- Skiptið deiginu í tvennt (eða þrjá hluta fyrir minni brauð).
- Mótið í kúlur eða aflöng brauð.
- Látið hefast í 40 mínútur undir plasti eða klút.
Skref 4
- Þá er það skreyting og bakstur
- Penslið brauðin með eggi.
- Skerið rák eftir endilöngu með beittum hníf.
- Valkvætt, stráið hökkuðum hnetum í skurðinn fyrir aukið bragð og áferð.
- Bakið við 200°c í 25 mínútur eða þar til brauðið er fallega brúnað.
Skref 5
- Kæling og geymsla.
- Kælið á grind.
- Berið fram volgt eða látið kólna og frystið.