Stjörnukokkurinn Sigurður Laufdal hefur ákveðið að venda sínu kvæði í kross að nýju og opna nýjan veitingastað í hjarta borgarinnar. Staðurinn ber heitið Lóla og er til húsa í Hafnarhvoli að Tryggvagötu 11 þar sem veitingastaðurinn Anna Jóna var áður til húsa.
Sigurður hefur komið víða við á ferli sínum; allt frá því að vera kosinn matreiðslumaður ársins, keppa í Bocuse d'Or og vinna sem sous chef á einum þekktasta veitingastað heims, Geranium í Kaupmannahöfn. Hann opnaði síðan sinn eigin veitingastað ásamt öðrum, OTO, við Hverfisgötu 44 árið 2023 og laðaði til sín heimsfræga menn eins og Gordon Ramsay og náði sér í Michelin-meðmæli svo fátt eitt sé nefnt.
Nú vendir Sigurður kvæði sínu í kross að nýju og stendur til að opna Lólu í byrjun maí ef allt gengur eftir.
Segðu okkur aðeins frá því hvernig það kom til að þú ákvaðst að fara út í það að opna nýjan veitingastað.
„Ég fékk það tækifæri í hendurnar að vera eini hluthafinn í þessu verkefni og sú hugmynd hefur heillað mig um tíma, þannig að ég ákvað að taka slaginn og lét það verða að veruleika, Guð hjálpi mér,“ segir Sigurður brosandi og léttur í bragði.
Hvað hafðir þú í huga þegar þú valdir staðsetninguna?
„Staðsetningin í raun valdi mig frekar en að ég veldi staðsetninguna, ég er það lukkulegur að hafa fengið þetta húsnæði upp í hendurnar, þetta er án alls vafa að mínu hlutlausa mati eitt fallegasta og flottast hannaða rými fyrir veitingastað sem er hér á höfuðborgarsvæðinu og hentar fullkomlega fyrir Lólu, ég er fullur tilhlökkunar til að taka á móti gestum í þessu einstaka rými.“
Nafnið, hvaða skírskotun hefur það?
„Já, góð spurning, hver er þessi Lóla? Nafnið er tilkomið vegna þess að mig langaði að finna nafn fyrir staðinn sem væri auðvelt fyrir innlenda sem erlenda að bera fram, eins nafn sem gefur ekki of mikið til kynna hvers konar veitingastaður þetta er. Ég hef fengið margar spurningar um það hvaðan nafnið kemur og hafa margir sína skoðun á því hver Lóla er, en fyrir mér er hún líklegast frönsk eða ítölsk kona í blóma lífsins, sjálfstæð, elegant og smá frökk,“ segir Sigurður glettinn á svipinn.
Hvernig veitingastaður verður Lóla og hverjar verða áherslurnar í matargerðinni?
„Lóla verður fyrst og fremst staður sem á að henta sem flestum, þægilegur og léttur með góðu andrúmslofti. Mikið verður gert út á góða þjónustu, mat, vín og kokteila, staðurinn er stór og rúmar mikinn fjölda gesta, eins er stór og fallegur bar sem verður gaman að sitja á og njóta góðra kokteila og matar.
En hvað varðar áherslur í matargerð hefur ítalskt verið að heilla mig svolítið upp á síðkastið, þannig að Lóla verður undir áhrifum frá Ítalíu en á sama tíma mun hugmyndaflugið hjá mér og teyminu alltaf ráða ferðinni. Þannig að orkan flæðir þangað sem athyglin fer.“
Nú hefur þú fengið Michelin-meðmæli fyrir matargerð þína, ætlar þú að halda þeirri vegferð áfram?
„Ég ætla allavega ekki að gefa neitt eftir, en það er alltaf erfitt að segja til um það þar sem maður hefur ekki grænan grun um hver Michelin-gæinn er og maður þarf að ná að heilla hana/hann upp úr skónum til að eiga möguleika í því, en við munum fyrst og fremst gera okkar besta til að gleðja alla okkar gesti og vonandi verður einn af þeim gestum frá Michelin. Ætli það sé ekki besta leiðin til að ná árangri og komast í Michelin-bókina.“
Sigurður segist vera afar heppinn að hafa með sér gott starfsfólk í þessu verkefni og það má með sanni segja að hér sé á ferðinni þungavigtarteymi í veitingastaðabransanum á Íslandi í dag.
„Yfirkokkur á Lólu verður Micaela Ajanti, en hún var líka yfirkokkur hjá mér á OTO og var stór partur af þeirri velgengni. Eins er ég þakklátur fyrir að Helena hafi tekið að sér að verða veitingastjóri, en hún var vaktstjóri á OTO og var nú síðast á veitingastaðnum Skál, ung og metnaðargjörn og á alla framtíðina fyrir sér. Einnig verður Gyða vaktstjóri, en hún var að útskrifast sem framreiðslumaður frá OTO og er nýkomin heim eftir tveggja mánaða dvöl þar sem hún vann á Michelin-stjörnu veitingastað í Danmörku.
Svo er það Lív sem sér um barinn og hannar alla kokteila, en hún gerir einstaklega góða kokteila sem eru fallegir fyrir augað og einstaklega bragðgóðir. Síðan verða Wiktor og Hinrik í eldhúsinu með okkur en Wiktor varð í 2. sæti í keppninni Kokkur ársins á dögunum og Hinrik er nýkominn heim af Bocuse d’Or sem var haldin í Lyon núna í janúar síðastliðnum.“
Það er óhætt að segja að á bak við Lólu séu fagmenn fram í fingurgóma. „Sem er gott því ég hef alltaf haldið því fram að það sé starfsfólkið á gólfinu sem býr til góðan veitingastað,“ segir Sigurður að lokum.