Guðrún Erla Guðjónsdóttir ætlar að bjóða fjölskyldunni upp á páskasúkkulaðimús með litlum páskaeggjum í eftirrétt á páskadag og deilir uppskriftinni með lesendum.
Guðrún er 24 ára gömul og er bæði bakari og konditor og veit ekkert skemmtilegra en að baka og laga sælkerarétti til að gleðja sína nánustu með.
Þegar hún er spurð hvort það séu fastar matarhefðir hjá fjölskyldu hennar þegar páskahátíðin er annars vegar segir hún þau hafi til að mynda skapað sér eina hefð sem kemur frá föðurömmu hennar.
„Við byrjuðum með þá hefð að borða súkkulaðimús í litlum páskaeggjum. Pabbi byrjaði á þessari hefð þegar við bjuggum í Noregi, sem er upprunalega hefð frá mömmu hans. Þá fórum við ekki heim til Íslands um páskana og pabbi vildi þá reyna gera eitthvað skemmtilegt. Hann tekur lítil páskaegg, sker í tvennt og fyllir helmingana af súkkulaðimús sem hann gerir sjálfur. Þetta er svo inni í ísskáp yfir nótt og við borðum þetta í eftirrétt. Við héldum þessu síðan áfram þegar við fluttum heim. Þetta er hefð sem mér þykir mjög vænt um,“ segir Guðrún.
Um páskana ætlar Guðrún að njóta þess að vera heima í rólegheitum og borða góðan mat og súkkulaðiegg.
„Við höfum ávallt verið mikið fyrir þessi hefðbundnu rjómasúkkulaðiegg. Við pössuðum líka upp á það að eiga örugglega páskaegg þegar við bjuggum í Noregi. Norðmenn eru með þá hefð að fá bara pappaegg, með blönduðu nammi í. Þeim fannst þá mjög sérstakt þegar við sýndum þeim íslensku eggin,“ segir Guðrún og hlær.
Síðan séu það gömlu siðirnir frá bernsku sem fá hana til að brosa. „Þegar ég var yngri voru páskaeggin ávallt falin. Mér fannst svo gaman að vakna á páskadagsmorgun og fara leita að eggjunum sem voru falin út um allt hús.“
Guðrún hefur líka gaman af því að lesa málshættina sem eru í eggjunum og finnst það skipta máli að þeir séu til staðar. Einn af hennar eftirminnilegustu er málsháttur sem lýsir vel raunveruleikanum.
„Sá sem aldrei byrjar lýkur aldrei verki,“ er einn minn uppáhalds og mér finnst hann segja mikið.
Guðrún gefur lesendum matarvefsins uppskrift að súkkulaðimús sem á vel við á páskunum og steinliggur sem ljúfur eftirréttur.
„Þessi uppskrift fannst mér henta mjög vel þar sem það er enginn viðbættur sykur í henni. Það er svo mikið nammiát um páskana, ég vil að minnsta kosti ekki vera að borða mjög sæta eftirrétti um páskana. Þá finnst mér þessi súkkulaðimús passa inn fullkomlega, þar sem það er enginn viðbættur sykur í henni.“
Páskasúkkulaðimús að hætti Guðrúnar
Fyrir 4
Aðferð:
Skraut
Aðferð og samsetning: