Margrét Ríkharðs yfirkokkur á veitingastaðnum Duck & Rose heldur hátíðlega upp á páskana og finnst það vera sá tími sem er ómissandi að njóta samvista með fjölskyldunni og snæða góðan mat. Hún deilir hér með lesendum páskarétti sem á vel við í páskabrönsinn eða sem forréttur og páskamarenstertu sem hún hefur mikið dálæti af.
„Mér finnst algerlega ómissandi að hitta fjölskylduna yfir góðum mat um páskana en matseðillinn getur verið breytilegur, við erum ekki með eitthvað fast þegar kemur að páskamatnum sjálfum. Mágkona mín, Áslaug Eir, bakar yfirleitt alltaf uppáhaldsköku okkar systkina sem ber heitið Ljósmóðurkaka en mamma lærði að gera hana þegar hún vann í Sendiráði Íslands í Noregi.
Þegar hún var ung skipti hún á uppskrift að íslenskum pönnukökum og þessari. Mamma kenndi síðan Áslaugu að baka kökuna svo hún hefur glatt okkur systkinin með því að baka hana fyrir okkur eftir að mamma lést. Ég kann ekki að gera hana sjálf og hugsa að ég haldi því þannig. Mér þykir ávallt ofurvænt um þegar hún bakar hana fyrir okkur en þetta er möndlumassi með súkkulaði- og kaffismjörkremi, algjör veisla.“
Hlakka mikið til að fela eggin í ár
Margrét segir að hluti páskanna sé líka að njóta góðra páskaeggja og fela þau.
„Það er rosalega gaman að fela og finna páskaegg á páskunum. Ég hlakka mikið til að fela eggin í ár fyrir stjúpsonum mínum, Alexander og Úlfi. Spurning hvort ég fái ekki egg líka en þjálfarinn minn yrði eflaust himinlifandi ef ég myndi sleppa þessu súkkulaðiáti alfarið. En ég smakkaði um daginn í páskaeggjasmakki með vinkonum nokkur egg og þar stóð upp úr sterk djúpuegg og bombuegg, ég mæli mikið með þeim.“
Áttu einhverjar minningar úr bernsku sem tengist páskunum á einn eða annan hátt sem er þér kær?
„Margar þá flestar tengdar einhvers konar ratleik í leit að páskaeggjum. Við fórum oft á sjóinn um páskana með pabba og það er ekkert skemmtilegra en að leita að páskaeggi í stóru flutningaskipi. Mamma var ansi góð að fela eggin.“
Það má líka útfæra púðursykursmarensinn í lítinn eftirrétt í fallegu glasi á fæti.
mbl.is/Karítas
Býður lesendum upp á tvær uppskriftir
Matur er mannsins megin og sérstaklega á hátíðisdögum eins og páskunum og því ætla ég að deila með lesendum uppskrift að Burrata-salati með vínberjum, kirsuberjatómötum, súrdeigs croutons með hvítlauk, klettasalati, sítrónudressingu og prociutto skinku. Þessi réttur er fullkominn sem léttur og smart hádegisverður í páskaboðið eða sem forréttur.
Einnig langar mig að deila með lesendum uppskrift að púðursykursmaregs með þristakremi og hindberjum sem er tilvalið að bera fram í kaffiboði um páskana og eða sem eftirrétt. Ég sýni ykkur tvær mismunandi aðferðir um hvernig hægt er að bera hann fram sem eftirrétt eða tertu.
Huggulegt hjá Margréti.
mbl.is/Karítas
Upplagt að nýta tímann í hugmyndavinnu
Er einhver saga bak við páskakræsingarnar?
„Burrata-salatið er ný uppskrift hjá mér og eitthvað sem ég sé fyrir mér að vinna með í sumar og ratar jafnvel í einhverri mynd á sumarseðilinn hjá Duck & Rose en ég prufaði salatið í þeirri meiningu. Það voru að koma nýjar og minni burrata-kúlur frá MS sem eru svo smart í salat og forrétti og þar sem nú styttist í sumarið er upplagt að nýta tímann í hugmyndavinnu að nýjum, góðum réttum.
Dýrðlegt burrata-salat úr smiðju Margrétar sem allir sælkerar eiga eftir að elska.
mbl.is/Karítas
Marensinn er ég búin að baka núna fyrir nokkur boð upp á síðkastið, bæði fermingarveislur og barnasturtuboð, og hefur vakið mikla lukku enda ómótstæðilega góður og hægt að undirbúa fyrir fram, það er alltaf svo mikill kostur. Best er að setja á tertuna daginn áður þannig að marensinn nái að taka sig. Ef þetta er borið fram sem eftirréttur í kúlum þá er nóg að setja saman um morguninn.“
Púðursykursmarens með þristakremi og hindberjum.
mbl.is/Karítas
Burrata-salat með páskaívafi og púðursykurmarens fyrir sælkera
Burrata-salat með prociutto skinku, vínberjum, kirsuberjatómötum, croutons, klettasalati og sítrónudressingu
Fyrir 4
- 3 dósir Burrata ostur, 6 litlar kúlur í hverju boxi
- 1 askja rauð vínber
- 1 askja kirsuberjatómatar
- 150-250 g klettasalat frá Vaxa eða annað gott salat
- 2 pk. Prociutto skinka, 10-12 sneiðar
- Súrdeigsbrauð fyrir croutons eða kaupa tilbúna croutons
- 4 hvítlauksgeirar
- Salt og pipar eftir smekk
- 1 tsk. chili-flögur
- Ólífuolía eftir smekk
- 2 tsk. sushi- eða hvítvinsedik
Sítrónudressing
- 1-2 tsk. ferskur sítrónusafi
- 1 hvítlauksgeiri, rifinn
- 1 tsk. dijon sinnep
- Salt og pipar eftir smekk
- ½ tsk. hunang eða maple siróp
- 1/3 bolli ólífuolía
Aðferð:
- Setjið allt hráefnið saman í skál og þeytið eða setjið í krukku og hristið.
Súrdeigs croutons
- Nokkrar súrdeigsbrauðsneiðar
- Salt og pipar eftir smekk
- Ólífuolía eftir smekk
- 2 hvítlauksgeirar, marðir eða kramdir
Aðferð:
- Ef þið eigið nokkurra daga gamalt brauð er upplagt að nota það í stað þess að henda því.
- Skerið sneiðarnar í bita og veltið upp úr ólífuolíu með salti og pipar og 2 hvílauksgeirum sem búið er að merja.
- Setjið á ofnplötu klædda bökunarpappír og bakið við 200°C hita í um það bil 10 mínútur eða þar til gullibrúnt.
Aðferð og samsetning á salatinu
- Setjið kirsuberjatómatana í eldfast mót og kryddið með chili-flögum, setjið smá ólífuolíu út ásamt salti og pipar.
- Bætið síðan 2 tsk. af edikinu og einum mörðum hvítlauksgeira út í.
- Setjið vínberin líka í annað eldfast mót með ögn af ólífuolíu, salti og pipar.
- Setjið tómatana og vínberin inn í ofn þegar crouton-teningarnir eru tilbúnir og bakið í 15 mínútur við 160°C hita.
- Síðan er næsta skref að raða salatinu fallega á vel valinn disk.
- Setjið klettasalat fyrst á diskinn og dreifið síðan tómötum, vínberjum og croutons yfir salatið.
- Að lokum setjið þið ostinn ofan á, takið 4 heilar kúlur og rífið tvær í tvennt.
- Síðan má hella sítrónudressingunni yfir eða hafa hana til hliðar, fer eftir smekk hvers og eins.
Púðursykursmarens með þristakremi
Fyrir 2 botna eða 12 -14 kúlur,
Marensbotnar
- 4 stk. eggjavítur
- 3 dl púðursykur
Aðferð:
- Hitið ofninn í 140°C hita með blæstri.
- Takið ofnplöturnar úr ofninum.
- Setjið eggjahvítur og púðursykur í hreina hrærivélaskál.
- Þeytið saman á fullum hraða þar til blandan verður stífþeytt og hægt er að hvolfa skálinni án þess að marensinn falli úr skálinni.
- Setjið bökunarpappír á ofnplöturnar.
- Mótið marens eftir því hvernig þið viljið hafa hann, ef þið ætlið að gera kúlur notið þá matskeið og setjið kúlur á stærð við egg á plötuna með hæfilegu bili á milli, meira en minna.
- Ef þið ætlið að gera tvo botna þá skiptið þið deiginu í tvennt og dreifið fallega úr í hringlaga form.
- Setjið inn í ofn og bakið í eina klukkustund.
- Þegar baksturstímanum er lokið opnið þá ofninn og slökkvið á honum en leyfið marensnum að jafna sig í ofninum, helst í smá tíma.
- Sniðugt er að baka marens daginn fyrir eða jafnvel nokkrum dögum ef það hentar til þess að spara sér tíma en hann geymist vel.
Þristakrem og skraut
- 700 ml rjómi
- 500 g þristur
- 100 g suðusúkkulaði
- 1 pk. frosin hindber
Aðferð:
- Setjið 250 g rjóma í pott og látið suðuna koma upp.
- Skerið 300 g af þristum smátt niður ásamt 50 g af suðusúkkulaði.
- Setjið þristinn og súkkulaði saman við rjóma þegar hann kemur upp að suðu.
- Lækkið þá hitann og hrærið í þar til súkkulaðið er bráðnað og orðið að kremi.
- Takið af hitanum og leyfið að kólna við herbergishita.
Fylling
- 50 g suðusúkkulaði, skorið smátt
- Þristur, skorinn örþunnt í sneiðar
- Þeytið rjómann og blandið suðusúkkulaðinu saman við.
Samsetning:
- Setjið smá doppu af rjóma á kökudiskinn svo kakan renni ekki til á disknum.
- Setjið síðan marensbotn á rjómann og stingið frosnum hindberjum í rjómann og talið líka ber í sundur til að dreifa yfir.
- Dreifið svo þristasneiðum líka yfir rjómann.
- Setjið síðan hinn botninn ofan á og smyrjið þristakreminu yfir og skreytið með hindberjum og brotnum þristasneiðum líkt og Margrét gerir.
- Kakan er best ef hún fær að taka sig í kælinum í sólarhring.
- Það má setja bara kremið yfir og klára svo að skreyta hana þegar hún er borin fram.
Eftirréttaskálar – framsetning:
- Þegar rétturinn er borinn fram í eftirréttaskál eða glasi brýtur Margrét svona 5-6 hindber í botninn og setur síðan rjóma þar ofan á.
- Síðan setur hún þristasneiðar og meiri hindber ofan á rjómann og marenskúluna ofan á.
- Loks þristakrem og meira af hindberjum ofan á næsta lag.
- Nóg er að setja þennan rétt saman um morguninn sama dag og á að bera hann fram eða að minnsta kosti 4 klukkustundum áður hann fer á borðið.