Berglind Hreiðars er ótrúlega útsjónarsöm að einfalda sér lífið þegar hún setur saman dögurð eða páskabröns.
Hún ætlar að fara þægilegu leiðina og reyna að kaupa sem mest tilbúið til að spara sér tímann og tiltektina. Það eina sem hún ætlar að gera sjálf er að galdra fram Egg Benedict sem hún segir vera miklu einfaldara að gera en marga grunar.
Hún prufukeyrði hugmynd sína og þetta skotgekk og gestirnir kolféllu fyrir öllum réttunum á hlaðborðinu.
„Það er alls ekki flókið að útbúa „Egg Benedict“ og aðferðin sem ég deili með ykkur hér er skothelt. Allt gekk upp á tíu,“ segir Berglind og bætir við að allt hráefnið í bransann hafi hún keypt á einum stað, í Hagkaup.
Berglind Hreiðarsdóttir lífsstíls- og matar-
bloggari sem er þekkt fyrir kræs-
ingar sínar og koma með hugmyndir af því hvernig má stytta sér leið í eldhúsinu.
mbl.is/Eggert Jóhannesson
„Ég elska hvað það sparar mikinn tíma í undirbúningi að fara þessa leið og get vel mælt með því,“ segir Berglind að lokum og er farin að hlakka til að bjóða í páskabrönsinn.
Sjáið Berglindi fullkomna Egg Benedict með Hollandaise sósu:
Hér er listi yfir tillögur að kræsingum á hlaðborðið fyrir brönsinn sem Berglind tók saman:
- Súrdeigsbrauð með jalapeno
- Tilbúin brauðsalöt
- Tilbúnir niðurskornir ávextir, til dæmis ananas og vatnsmelóna
- Steikt beikon
- Jarðarber, brómber eða önnur ber/ávextir sem hugurinn girnist
- Tilbúnar frosnar pönnukökur með sírópi og berjum
Egg Benedict rétturinn er ávallt jafn girnilegur og passar ákaflega vel með páskabrönsinum.
Ljósmynd/Berglind Hreiðars
Sjáið páskabrönsinn sem Berglind ætlar að bjóða upp á
Egg Benedict með Hollandaise sósu
Egg Benedict
Fyrir 6
- 3 stk. Manhattan English Muffins
- Beikonskinka og/eða reyktur lax
- Hleypt egg, sjá aðferð að neðan
- Hollandise sósa, sjá uppskrift að neðan
- Pipar eftir smekk
- Smjör til steikingar
Aðferð:
- Skerið English Muffins í sundur svo þið fáið 6 helminga.
- Steikið upp úr smjöri við meðalháan hita og leggið á disk.
- Setjið næst beikonskinku eða reyktan lax, hleypt egg og toppið með vel af hollandaise sósu og smá pipar.
Hleypt egg
- 6 egg
- 1 l vatn
- 1 msk. edik
Aðferð:
- Hitið vatnið að suðu og bætið ediki saman við.
- Brjótið eggin í bolla, eitt í einu.
- Snúið með skeið í hringi í pottinum til að mynda hringsog í miðjunni og hellið egginu varlega í miðjuna og leyfið því að vera í pottinum í 2 ½ – 3 ½ mínútu eftir því hversu blauta þið viljið hafa rauðuna.
- Veiðið eggið þá upp úr með spaða/gatasigti og leggið ofan á skinkuna/laxinn, einnig má safna eggjunum saman á eldhúspappír og setja síðan ofan á brauðið.
Hollandaise sósa
- 3 eggjarauður
- 1 msk. vatn
- ½ sítróna (safinn)
- 180 g smjör (brætt)
- Salt eftir smekk
- cheyenne pipar eftir smekk
Aðferð:
- Setjið eggjarauður, vatn og sítrónusafa í þrönga könnu/ílát sem töfrasproti kemst ofan í.
- Bræðið smjörið og hellið yfir í mælikönnu.
- Þeytið eggjarauðublönduna stutta stund og á meðan töfrasprotinn er enn í gangi megið þið bæta brædda smjörinu saman við í mjórri bunu og þeyta allan tímann.
- Þeytið þar til sósan hefur þykknað og njótið sem fyrst.
- Ef sósan verður of þykk má þynna hana með því að setja 1 msk. af volgu vatni saman við í einu og þeyta saman.