Wiktor Pálsson gerði þessa dásamlega fallegu og ljúffengu köku sem þið eigið eftir steinfalla fyrir. Hún á vel við á hátíðarborðið um páskana og líka á sumardaginn fyrsta. Þetta er reyndar kakan sem ég myndi velja sem sumarkökuna í ár.
Hér er á ferðinni klassísk og illmandi vanillu- og tonkabaka, með hindberjahlaupi og þeyttu pístasíukremi sem er erfitt að standast.
Wiktor Pálsson landsliðskokkur kann svo sannarlega að gleðja sína með ómótstæðilega góðum kræsingum. Hér er dýrðlega páska- og sumarkaka sem þið eigið eftir að elska.
mbl.is/Árni Sæberg
Wiktor afhjúpar uppskriftina að þessari dýrð fyrir lesendum matarvefs mbl.is og það er vel hægt að mæla með þessari í eftirrétt um páskana eða þegar sumrinu verður fagnað á fimmtudaginn næstkomandi, þann 24. apríl.
Vann á Michelin-stjörnustað í Noregi
Wiktor er einstaklega fjölhæfur og metnaðarfullur kokkur og hefur náð framúrskarandi árangri í sínu fagi þrátt fyrir ungan aldur en hann er einungis 25 ára gamall. Hann hefur meðal annars starfað á Michelin-stjörnustað og hefur unnið til verðlauna í faginu.
„Í haust, árið 2024, kom ég heim frá Noregi eftir þriggja ára dvöl þar, en á þeim tíma vann ég hjá Michelin-stjörnu veitingastaðnum Speilsalen í Þrándheimi. Ég er í Kokkalandsliðinu og vann nýlega til silfurverðlauna í keppninni Kokkur ársins. Í byrjun maí byrja ég að vinna á nýjasta veitingastaðnum, Lóla, sem opnar í miðbæ Reykjavíkur, og hlakka mikið til þess,“ segir Wiktor þegar hann er beðinn að segja aðeins frá því sem hann hefur verið að gera síðastliðin misseri.
Ástríða Wiktors á matargerð leynir sér ekki og hann ætlar sér að ná langt.
„Ég er með brennandi áhuga á matreiðslu og ég er stöðugt að leita nýrra leiða til að þróa mig áfram í faginu. Í maí fer ég til að mynda aftur til New York í súkkulaðiskóla, þar sem ég hef áður sótt námskeið,“ segir Wiktor fullur áhuga.
Aðspurður segist Wiktor ekki halda margar sérstakar hefðir þegar páskahátíðin er annars vegar.
„Það eru ekki margar matarhefðir hjá okkur á páskunum, en við borðum alltaf saman á páskasunnudag. Það er nánast alltaf lamb, helst gott læri, bakað með kryddum og með því kemur brún sósa og kartöflumús,“ segir Wiktor og brosir.
„Ég verð síðan heima um páskana. Síðastliðna mánuði var ég stöðugt að undirbúa mig fyrir keppnina Kokkur ársins og hlakka því til að geta tekið því rólega um páskana. Mig langar að fara út að hlaupa, fara í göngutúra með hundinn, mæta í sund og líkamsrækt. Það verður eldað, en ekki of mikið – ég vil bara njóta þess að vera heima og taka
því rólega áður en ég fer í næsta verkefni.“
Vildi helst nammið úr eggjunum
Minna fer fyrir súkkulaðiáti hjá Wiktori þessa dagana og hann segist vel geta lifað án þess að fá páskaegg.
„Þegar ég var barn voru Nóa Sírius-páskaegg í uppáhaldi hjá mér – því stærri, því betri. Í súkkulaðiegginu vildi ég alltaf að fá nammi, helst Haribo. Stundum gerðum við okkar eigin páskaegg því mig langaði ekki í súkkulaðibita, mig langaði mest að fá nammi eins og Haribo. Núna borða ég sjaldan sælgæti, nema eftirrétti sem ég geri sjálfur, en ég á ljúfar minningar um að hafa látið gabba mig í súkkulaðið á sunnudagsmorgni,“ segir Wiktor og hlær.
Ef ykkur langar að gleðja ykkar nánustu þá er lag að baka þessa dýrð og gefa sér tíma í að nostra við hana og bera hana fram í næsta boði.
Klassísk og ilmandi vanillu- og tonkabaka sem þú átt eftir að elska
Klassísk og illmandi vanillu- og tonkabaka, með hindberjahlaupi og þeyttu pístasíukremi
Tartbotn (Pâte Brisée)
Uppskrift í eina tartskel
- 200 g hveiti
- 100 g kalt ósaltað smjör, skorið í teninga
- 3 g salt
- 50 g kalt vatn
Aðferð:
- Blandið þurrefnunum saman
- Setjið hveiti og salt í skál og hrærið létt saman.
- Bætið smjörinu við.
- Bætið köldu smjörteningunum út í blönduna.
- Notið puttana (eða deigskera eða matvinnsluvél) til að vinna smjörið inn í hveitið þar til blandan líkist grófu brauðraspi. Passið að vinna deigið ekki of mikið – það mega sjást smáir smjörklumpar í deiginu.
- Hellið vatninu smám saman út í.
- Bætið köldu vatninu við, lítið í einu, og hrærið varlega þar til deigið helst saman. Það er ekki víst að þið þurfið allt vatnið.
- Mótið og kælið.
- Mótið deigið í flatan disk, vefjið inn í plastfilmu og kælið í að minnsta kosti 30 mínútur. Kælingin gerir glútenið mýkra og hjálpar deiginu að haldast stöðugt við bakstur.
Næsta skref
- Takið kælda deigið og rúllið því út á létt hveitistráð borð.
- Kælið tartformið með deiginu.
Blindbakstur – Aðferð:
- Hitið ofninn í 190°C (170°C með blæstri).
- Rúllið út deigið
- Takið kælda deigið úr ísskápnum og rúllið því út þar til það er um 3 mm þykkt. Passið að það sé nógu stórt til að klæða bæði botn og hliðar á tertuforminu.
- Setjið í form.
- Þrýstið deiginu varlega niður í formið og klippið umframdeig meðfram brúnunum.
- Setjið formið í frysti í um það bil 15 mínútur, það dregur úr líkum á að deigið sígi niður við bakstur.
- Priktið botninn með gaffli.
Vanillu og tonkabaka (Custard Tart)
- 530 g rjómi til þeytingar
- 40 g rjómaostur
- 6 g vanilluduft eða 1 vanillustöng
- 4 stk. tonka baunir, rifnar fínt
- 140 g ljós púðursykur
- 195 g eggjarauður
- 1 stk. forbakað pâte brisée botn
Aðferð:
- Hitið ofninn í 110°C.
- Setjið rjóma, rjómaost, vanillu, rifnar tonkabaunir og púðursykur í pott.
- Þeytið eggjarauðurnar í skál.
- Hellið smá af heitu rjómablöndunni út í eggin og þeytið vel.
- Bætið síðan restinni við og blandið þar til það er alveg slétt.
- Hitið í 60°c ásamt því að hræra stuðugt í pottinum með písk eða sleikju, sigtið blöndu og hellið í form
- Setjið forbakaða pâte brisée botninn í ofninn.
- Hellið blöndunni varlega í formið þar til það er fullt af brún.
- Gott er að nota eldbyssu eða tannstungla til að fjarlægja loftbólur fyrir bakstur.
- Bakið í 30 mínútur, eða þar til fyllingin er aðeins skjálfandi í miðjunni.
- Kælið alveg í forminu.
- Takið síðan úr forminu og skerið í sneiðar með beittum, heitum hníf.
Hindberjahlaup
- 200 g hindberjasafi
- 20 g sykur
- 3 matarlímsblöð
Aðferð:
- Leggið matarlímið í kalt vatn
- Hitið varlega hindberjasafa ásamt sykri og bætið matarlím við.
- Hrærið vel saman til að leysa upp matarlímið.
- Þegar bakan hefur kólnað, hellið þá hlaupinu í miðjuna á bökunni og látið hana standa í kæli í eina klukkustund til að hlaupið taki sig.
Pístasíukrem
- 225 g rjómi
- 25 g glúkósi
- 25 g invert sykur
- 325 g hvítt súkkulaði
- 100 g pistasíu paste
- 2 matarlímsblöð
- 500 g rjómi (kældur, til að bæta við í lokin)
Aðferð:
- Leggið matarlím í bleyti
- Hitið saman í potti rjóma, glúkósa, invert sykur og pístasíu paste í 85°C hita.
- Bætið matarlím út í og síðan hvíta súkkulaðinu og vinnið saman með töfrasprota þar til blandan er slétt.
- Bætið við rjóma í lokin og vinnið aftur með töfrasporta og kælið yfir nótt.
- Þeytið kremið í Kitchenaid-hrærivél þar til blandan er orðin stíf, setjið í sprautupoka og sprautið á bökuna.
- Skreytið síðan af hjartans list. Vert er að nýta íslensk blóm eða jurtir ef vill.
Þessi á eftir að slá í gegn í grillveislum sumarsins, ekki bara á páskunum.
mbl.is/Árni Sæberg