Katrín Júlíusdóttir, nýr formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni sem er hinn fjölskylduvænasti.
„Heimilislífið hjá okkur er ansi líflegt og er heimilið okkar stundum eins og brautarstöð á háannatíma. Við búum sex saman, við hjónin, þrír synir okkar af fjórum og pabbi. Við erum því þrjár kynslóðir undir einu þaki sem er yndislegt fyrirkomulag sem ég mæli með. Þá er yfirleitt einhver heima og fjölskyldusamvera mikil. Hjá okkur er alltaf opið og gjarnan gestagangur,“ segir Katrín og brosir sínu glaðlega brosi.
„Ég hef ávallt haft gaman af því að elda góðan mat en aðferðirnar hafa þróast töluvert frá því að ég fylgdi uppskriftum úr Mikka mús matreiðslubókinni af mikilli nákvæmni sem barn,“ segir Katrín sposk á svip.
„Í dag er ég meiri dassari og finnst ekkert skemmtilegra en sú áskorun að vinna með það sem til er í skápunum. Þá finnst mér gaman að skipuleggja og elda veislumat á hátíðisdögum. Maðurinn minn er mjög öflugur í hversdagsmatargerð sem er heppilegt því ég missti ánægjuna af því fyrir einhverju síðan. Ég þarf áskorun í flestum verkefnum og eldamennska virðist ekki undanþegin í þeim efnum. Annars er mjög skemmtilegt hversu áhugasamir synirnir eru í eldhúsinu og þeir taka stundum yfir og galdra fram skemmtilega rétti.“
„Við eldamennsku er það smá áskorun að ég er sú eina á heimilinu sem borðar ekkert kjöt en þegar ég elda kjöt fyrir fjölskylduna þá geri ég vegleg meðlæti sem getur verið aðalréttur fyrir mig líka. Þá borða ég líka fisk með bestu lyst og sem betur fer eru allir hrifnir af sjávarréttum,“ segir Katrín.
Katrín tók sig til og setti saman vikumatseðil fyrir fjölskylduna og deilir hér með lesendum. „Svona gæti góð vika litið út hjá okkur.“
Mánudagur – Þorskur í tómatbasilsósu
„Mér finnst afar gott að hefja nýja viku á góðum fiskrétt eftir vellystingarnar um páskana. Það er því tilvalið að vera með fisk annan í páskum.“
Þriðjudagur – Lasanja með extra miklum osti
„Lasanja nýtur mikillar vinsælda á heimilinu og ostur er veislukostur og á án efa eftir að gera það enn betra.“
Miðvikudagur – Núðluréttur með tofu og grænmeti
„Réttur sem steinliggur fyrir mér, núðlur eru í miklu uppáhaldi.“
Fimmtudagur – Flak í raspi að hætti Ellu Stínu
„Ég er mjög spennt fyrir þessum rétti og hlakka til að prófa.“
Föstudagur – Mexíkósk veisla
„Þetta er ekta föstudagsmatur og allir hér heima eru fyrir kryddaðan og bragðmikinn mat eins og mexíkóskur matur er iðulega.“
Laugardagur – Kjúklingur eins og hann gerist bestur
„Þessi réttur er mjög spennandi og mér finnst tilvalið að bjóða upp á kjúkling á laugardafskvöldi.“
Sunnudagur – Lambalæri með bernaise og grænmeti á klassískan máta
„Sunnudagslambalærið með bernaise-sósu er klassískt og stendur ávallt fyrir sínu.“