Axel Björn Clausen, þekktur einnig sem Axel Chef eða Axel Umami, hefur nú opnað annað útibú Umami Sushi í mathöllinni Hafnartorg Gallerý. Fyrsta útibúið opnaði hann í Borg 29 mathöllinni í Borgartúni árið 2021.
Fjölmargir lögðu leið sína í opnunarhófið sem haldið var í síðustu viku og fögnuðu viðbótinni með honum og Selmu.
Axel er eigandinn og yfirkokkur Umami Sushi og er hokinn reynslu í bransanum. Hann útskrifaðist árið 2010 úr Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi og er einnig matreiðslumeistari. Hann átti í íslenska kokkalandsliðinu um árabil og hefur unnið til margra verðlauna með landsliðinu og einstaklingskeppnum.
Segðu okkur aðeins frá tilurð staðarins, Umami Sushi, hvernig kom það til að þú ákvaðst að opna staðinn og hvar fékkstu innblásturinn?
„Góðvinir mínir komu að mér einn daginn og spurðu hvort ég vildi opna matsölubás í mathöll sem væri að opna næsta vor. Eftir stutta umhugsun ákvað ég að slá til, skoðaði markaðinn vel og fannst vanta stað sem selur handgert, hágæða sushi sem er gert hratt og selt á góðu verði. Eftir að hafa unnið á Fiskmarkaðnum til margra ára fannst mér ég hafa fengið mjög góða reynslu í sushigerð og geta notað reynsluna sem ég hafði sótt með landsliðinu og fleira til að láta þennan draum rætast,“ segir Axel dreyminn á svip.
„Ég hef haft augun opin lengi með það í huga að opna annan stað svo þegar haft var samband við mig frá Hafnartorg Gallerý var ekki aftur snúið. Að mínu mati finnst mér þetta langflottasta mathöllin. Hún er „fancy“, í stíl London vibes og það sárvantaði hágæða sushi fyrir gesti þannig að það var auðvelt að segja já við þessari beiðni,“ segir Axel þegar hann er spurður út í þá ákvörðun að opna annan stað.
Hvaðan kemur nafnið Umami?
„Umami er fimmta bragðið sem þú finnur á tungunni eftir salti, súru, beisku og sætu. Umami þýðir í rauninni „essence of deliciousness“ sem er fín þýðing fyrir okkar sushi. Áherslurnar eru nokkuð skýrar í sushigerð og í þær höldum við. Þú verður að vera með ferskt hráefni og hörkugóð grjón. Ef eitt klikkar þá klikkar allt,“ segir Axel alvörugefinn.
„Stefnan á Umami er að vera einungis með fyrsta flokks hráefni, handgert gæða sushi sem er gert á staðnum fyrir framan gestinn. Ég hef séð um alla matseðlagerð frá opnun. Auðvitað hefur seðilinn þróast með tímanum eftir ábendingar frá kokkavinum, gestum og fleirum sem gerir þetta hrikalega skemmtilegt. Það skiptir máli að hlusta á aðra til að finna það sem ég kalla „Crowd-Pleaser“ rétti.
Aðspurður segir Axel að það sé ekki erfitt að gleðja Íslendinga með góðu sushi og þeir eigi sína uppáhaldsbita. „Íslendingar elska allt sem er djúpsteikt og með majónessósu. Ég verð þó að ljóstra því upp að Eldfjallarúllan okkar er langvinsælust. Einnig hafa poké-skálarnar okkar verið gríðarlega vinsælar enda hrikalega góðar þótt ég segi sjálfur frá,“ segir Axel glaður á bragði enda í skýjunum að vera búinn að opna á Hafnartorgi og vígja staðinn með góðum gestum.
Gleðin var í fyrirrúmi þegar staðurinn var opnaður og gestirnir fögnuðu með því að skála í búbblum og fá sér sushi.