Sumar kökur bera með sér ákveðna nostalgíu, minningar um sunnudagskaffi, veislur í bernsku eða heimabakaðan eftirrétt sem fékk alltaf hrós. Þessi peruterta er ein af þeim og passar ákaflega vel með kaffinu til að fagna sumrinu, hvort sem það er í dag, sumardaginn fyrsta eða um helgina.
Léttir, mjúkir botnar, rjómakennt súkkulaðikrem og safaríkar perur, allt klætt í fallegu súkkulaðihreiðri sem gerir hana einstaklega tilkomumikla á borði. Hún hentar bæði í sparitilefni og sem gleðibiti við venjulegt kaffiborð. Hún er einföld í gerð, en útkoman lítur út fyrir að hafa tekið miklu meiri tíma.
Bakarameistarinn og fagstjóri við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi, Árni Þorvarðarson, á heiðurinn af þessari uppskrift og hjartað réð för þegar hann skreytti hana fyrir myndatökuna.
Hin klassíska peruterta komin í sumarbúninginn þar sem fuglarnir eru í hreiðurgerð.
mbl.is/Eyþór
Sameinar það besta
„Þessi kaka sameinar það besta úr gömlum uppskriftum og nútímalegra útliti – mjúk áferð, djúpt súkkulaðibragð og ferskleiki frá perunum sem léttir allt upp. Hún vekur bæði eftirvæntingu og ánægju þegar hún er borin fram, og það er eitthvað sérstaklega töfrandi við hvernig einföld hráefni geta orðið að svona glæsilegri tertu. Hvort sem þú bakar hana fyrir veislu, fjölskylduboð eða bara til að gera daginn betri – þá er þetta uppskrift sem mun gleðja í hvert sinn,“ segir Árni þegar hann lýsir sinni upplifun þegar hann bakar þessa köku og ber hana fram.
Árni Þorvarðarson ætlar að fagna sumrinu með þessari dýrðlegu perutertu sem bráðnar í munni.
mbl.is/Eyþór
Hin klassíska peruterta er komin í sumarbúninginn
Gamaldags peruterta með súkkulaðirjóma og hreiðri
Botnar
- 4 egg (238 g)
- ¾ bolli sykur (178 g)
- ⅔ bolli hveiti (89 g)
- ⅔ bolli kartöflumjöl (89 g)
- 1½ tsk lyftiduft (6 g)
Aðferð:
- Þeytið egg og sykur saman þar til blandan verður létt og ljós, ca. 5–7 mínútur.
- Sigtið hveiti, kartöflumjöl og lyftiduft saman og blandið varlega saman við eggjablönduna með sleif.
- Skiptið deiginu í tvö hringlaga form (20–22 cm) og bakið við 175°C í 18–20 mínútur eða þar til botnarnir eru gylltir og bakaðir í gegn.
- Kælið botnana alveg áður en þeir eru notaðir.
Krem og fylling
- 150 g suðusúkkulaði
- 5 eggjarauður
- 5 msk. flórsykur
- 4 dl rjómi
- 1 dós perur (í sneiðum, vel afsigtaðar)
Aðferð:
- Bræðið suðusúkkulaðið varlega yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni.
- Þeytið rjóma þar til hann er stífur.
- Í annarri skál, þeytið saman eggjarauður og flórsykur þar til létt og ljós blanda myndast.
- Blandið bræddu súkkulaði varlega saman við eggjablönduna.
- Að lokum er rjóminn lagður varlega saman við til að mynda létt og loftkennt krem.
Samsetning og skreyting
- 100 g brætt sprautar yfir skál fulla af klökum. Þegar súkkulaði hefur harðnað takið upp og setjið á kökuna.
- Lítil súkkulaðiegg eða annað skraut að eigin vali.
Samsetning:
- Leggið annan botninn á kökudisk. Bleytið með safanum af perunum. Smyrjið góðu lagi af súkkulaðirjómakremi yfir og dreifið perusneiðum jafnt yfir.
- Setjið hinn botninn ofan á og smyrjið restinni af kreminu yfir og á hliðarnar.
- Leggið perur yfir áður kantinum er lokað með rósamynstri.
- Skreytið með súkkulaðieggjum og súkkulaðihreiðrinu eins og ykkur finnst koma best út.
- Berið fram og njótið með ykkar besta fólki.