Ef ykkur langar í próteinríka máltíð sem gleður bragðlaukana er vel hægt að mæla með þessu dásamlega pastasalati sem kemur úr smiðju Helgu Möggu heilsumarkþjálfa og samfélagsmiðlastjörnu.
Grænmetið í salatinu er ekki heilagt, það má sleppa því sem þið eigið ekki til eða nota það sem ykkur finnst best. Þetta salat er líka einstaklega sniðugt til að hafa með sér í nesti.
Próteinríkt pastasalat úr smiðju Helgu Möggu sem steinliggur
Próteinríkt pastasalat Helgu Möggu
- 2 dósir túnfiskur í vatni (vatninu hellt af)
- 350 g pastaskrúfur (ósoðin þyngd)
- 2 dósir 10% sýrður rjómi
- 3 msk. dijon-sinnep
- Sítrónusafi úr hálfri sítrónu
- Hálf gúrka
- 1 paprika
- 1 rauðlaukur
- 120 g ólífur
- Salt, pipar og hvítlauksduft, 1 tsk. af hverju
Aðferð:
- Þið byrjið á því að blanda sýrða rjómanum, dijon-sinnepinu, sítrónusafanum og kryddinu saman í skál.
- Síðan er lag að sjóða pastað eftir leiðbeiningum í um 10-12 mínútur.
- Blandið síðan túnfisknum saman við sósuna í skálinni, skerið niður grænmetið í litla bita og blandið út í skálina.
- Kælið pastað örlítið áður en þið blandið því saman við.
- Það er hægt að bera salatið fram strax eða gera það áður og geyma í kæli.