Íslensku framreiðslunemarnir, Silvia Louise Einarsdóttir frá Michelin-stjörnuveitingastaðnum Moss í Bláa Lóninu og Tristan Tómasson Manoury frá Matarkjallaranum, komu, sáu og sigruðu Norrænu nemakeppnina sem fram fór í verkmenntaskólanum College 360 í Silkiborg í Danmörku. Úrslitin voru kunngjörð í gær, þann 25. apríl síðastliðinn, en keppnin fór fram dagana 24. og 25. apríl.
Í keppnina fóru tveir keppendur í framreiðslu og tveir í matreiðslu sem kepptu saman sem lið. Íslensku liðin lögðu mjög hart að sér við æfingar undanfarnar vikur og stóðu sig framúrskarandi vel. Matreiðslunemarnir Sindri Hrafn Rúnarsson frá veitingastaðnum Monkeys og Marlís Jóna Þórunn Karlsdóttir frá Grand Hótel kepptu í matreiðslu með góðum árangri. Þjálfari framreiðslunemanna var Finnur Gauti Vilhelmsson og þjálfari matreiðslunemanna var Jakob Zarioh Sifjarson Baldvinsson.
Íslensku keppendurnir eru því á leið heim með gullverðlaunin í farteskinu og reynslunni ríkari sem á án efa eftir að skila sér áfram til fagstéttarinnar hér heima. Þjálfari framreiðslunemanna er bæði hrærður og stoltur yfir árangri Silviu og Tristans.
„Þetta er tilfinningin sem ég hef aldrei fundið fyrir áður þegar það var tilkynnt um að Ísland hafi unnið, ég var svo stoltur af þeim, þau stóðu sig eins og hetjur og hafa lagt inn vinnuna fyrir þessum sigri og staðið sig frábærlega á öllu æfingarferlinu,“ segir Finnur sem er afar stoltur af sínu fólki.
„Það hjálpar líka rosalega mikið hvað þau eru skemmtileg og jákvæðar manneskjur og öll þau verkefni sem þau fengu í hendurnar leystu þau eins og meistarar sem þau eru. Ég held að það muni taka þau smá tíma að átta sig á hversu stór þessi sigur er og hversu mikið þetta mun hjálpa þeim í faginu okkar. Ég er óendanlega stoltur af þeim og var heiður að vera með þeim í þessu verkefni,“ segir Finnur enn fremur.
Gullverðlaunahafarnir fara heim til Íslands á bleiku skýi með minningar sem aldrei gleymast eins og þau komast sjálf að orði.
„Þessi keppni var ótrúlega skemmtileg og mikill heiður að fá að keppa fyrir Íslands hönd. Mjög gaman að fá að keppa í svona flottum skóla, keppendurnir og allir sem komu nálægt keppninni tóku vel á móti okkur. Ég er í skýjunum yfir frammistöðunni okkar,“ segir Tristan Tómasson Manour og brosir breitt.
„Ég er bara uppi í skýjunum yfir frammistöðu okkar, þvílík stolt að vera partur af teyminu sem tók heim gullið í fyrsta skiptið í 7 ár fyrir hönd framreiðslumanna. Sérstaklega út af því að forseti Íslands Halla Tómas lánaði mér klút sem ég notaði í keppnina, það var algjörlega lukkugripur,“ segir Silvía Louise með bros á vör og bætir við: „Það er mikill heiður að keppa fyrir hönd Íslands með geggjuðum keppendum sem maður kynntist í leiðinni. Minning sem mun aldrei gleymast.“
Framreiðsla:
Matreiðsla:
Þátttakendur og þjálfarar fyrir Íslands hönd voru:
Framreiðsla
Matreiðsla
Þema keppninnar í ár var „sjálfbærni“, og hlaut lið Svíþjóðar sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi frammistöðu á því sviði.