Það er fátt betra en lyktin sem fyllir heimilið af nýbökuðum kanilsnúðum. Þessi uppskrift er innblásin af hinum sívinsælu cinnabon-snúðum, mjúkir, dúnmjúkir botnar með ríkri kanilfyllingu og silkimjúku ostakremi sem bráðnar yfir snúðana. Hvort sem þið eruð að bjóða upp á kaffitímasnúða eða dekra við fjölskylduna í helgarbakstri, þá slær þessi uppskrift alltaf í gegn.
Heiðurinn að uppskriftinni á Árni Þorvarðarson, bakari og fagstjóri við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi, sem kemur eflaust fáum á óvart, en hann hefur verið iðinn að deila með lesendum matarvefsins uppskriftum úr smiðju sinni sem gleðja bragðlaukana og ekki síst sálina sem elskar ljúffengt bakkelsi og kökur.
Árni Þorvarðarson bakari og fagstjóri við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi kann listina að gleðja sitt fólk. með ljúffengu bakkelsi.
mbl.is/Eyþór
Vonandi njótið þið þess að prófa þessa uppskrift og finnið gleðina sem felst í því að búa til eitthvað gott frá grunni. Það þarf oft ekki mikið til að skapa hlýju og ánægju á heimilinu, stundum er ilmandi nýbakaður snúður nóg til að gera daginn betri.
Undursamlega ljúffengir cinnabon-snúðar með ostakremi
Cinnabon-snúðar með ostakremi
Deig
- 300 g volgt vatn
- 60 g sykur
- 4 msk. olía
- 1 tsk. salt
- 1 msk. þurrger
- 600 g hveiti
Fylling
- 2 tsk. sykur
- 2 tsk. púðursykur
- 2 tsk. kanill
- 2 tsk. bráðið smjör
Ostakrem
- 37 g rjómaostur
- 75 g mjúkt smjör
- ½ tsk. vanilludropar
- 200 g flórsykur
Aðferð:
- Byrjið á því að virkja gerið með því að blanda því saman við volgt vatn og sykur.
- Leyfið því að freyða og koma sér í gang, bætið olíu og salti við, og síðan hveitinu smátt og smátt.
- Hnoðið þar til deigið er mjúkt, slétt og aðeins klístrað – þetta er hjartað í góðum snúðum.
- Setjið deigið í skál, breiðið viskastykki yfir og leyfið því að hefast í ró og næði í um 15 mínútur.
- Rúllið næst deiginu út í stóran ferhyrning, smyrjið yfir bráðið smjör og stráið síðan kanilsykursblöndunni yfir í jafnri lögun.
- Rúllið upp í þétta rúllu og skerið í sneiðar með beittum hníf.
- Raðið snúðunum í bökunarform og leyfið þeim að lyfta sér aftur í um 40 mínútur, svo þeir verði léttir og mjúkir.
- Bakaðu við 180°C hita í 12-15 mínútur þar til snúðarnir eru orðnir gullinbrúnir og ilmurinn fyllir húsið.
- Að lokum, á meðan snúðarnir eru enn heitir, smyrjið rjómaostakremi yfir þá.
- Kremið bráðnar ofan í hverja rifu og gerir hvern bita silkimjúkan og syndsamlega góðan.
- Berið fram ylvolga og njótið með ykkar besta fólki.