Þessi fiskréttur er bæði fljótlegur í gerð og bragðgóður, fullkominn til að njóta á mánudagskvöldi. Í réttinum er pestó og mozzarella-ostakúlur sem gefa svo gott bragð. Gott er að bera fiskréttinn fram með hrísgrjónum eða bankabyggi og jafnvel fersku salati.
Heiðurinn af uppskriftinni á Helga Magga heilsumarkþjálfi og samfélagsmiðlastjarna en hún gerði uppskriftina fyrir uppskriftavefinn Gott í matinn.
Girnilegur ofnbakaður fiskréttur með mozzarella-ostakúlum
Ofnbakaður fiskréttur með mozzarella-ostakúlum
Fyrir 4-5
- 860 g ýsuflök
- 180 g rautt pestó
- 1 dós mozzarella kúlur eða perlur
- 110 g döðlur (10-12 stk.)
- basilíka, handfylli
- salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Byrjið á að skola fiskinn og þerra.
- Hitið ofninn í 180°C.
- Skerið flökin niður í hæfilega stóra bita og raðið fisknum í botninn á eldföstu móti.
- Kryddið fiskinn með salti og pipar.
- Setjið rauða pestóið yfir fiskinn og dreifið því vel yfir alla bitana.
- Skerið döðlurnar í bita og raðið yfir fiskinn.
- Setjið mozzarella-kúlurnar yfir fiskinn ásamt niðurskorinni ferskri basilíku.
- Setjið fatið inn í ofn við 180°C hita og bakið í 25 mínútur.
- Á meðan er tilvalið að sjóða hrísgrjón, útbúa salat eða annað meðlæti sem þið kjósið að hafa með fiskinum.
- Berið fram og njótið.