Sumarið er komið og það styttist í að gróðurinn fari að lifna við og blómin fari að skarta sínu fegursta. Nú eru flestir búnir að taka út grillin og margir farnir að skipta um gír þegar kemur að matargerðinni. Grillréttir koma sterkir inn, kaldar sósur og lítrík og fersk salöt lífga upp á borðhaldið.
Hér er kominn glænýr og ferskur vikumatseðill í boði Matarvefsins með sumarlegu ívafi. Uppskriftirnar eru hver annarri girnilegri og munu án efa leika við bragðlaukana.
Mánudagur – Heilsusalat Laufeyjar
„Þetta er bæði litríkt og bragðgott salat sem er fullkomið að hefja nýja vinnuviku á. Þar sem túnfiskur og rækjur eru í forgrunni.“
Þriðjudagur – Laxa-taco með chili-hunangi
„Þriðjudagar eru oft taco-dagar og þá er lag að slá tvær flugur í einu höggi. Hvað er betra en að bjóða upp á taco og fisk og slá í gegn? Chili-hunangið er ómótstæðilega gott og passar ákaflega vel með laxinum.“
Miðvikudagur – Orkuskálin hans Höskuldar
„Orkuskálin hans Höskuldar er unaður að njóta. Hún er með ýmiss konar grænmeti, kjúklingabaunum, harðsoðnum eggjum og perlubyggi sem er ljómandi gott. Þetta er svo hollt og gott, ekta sumarréttur til að njóta.“
Fimmtudagur – Þorskhnakki með beurre blanc-sósu
„Þetta er ómótstæðilega góður réttur og þessi sósa er fullkomin með. Það verður enginn svikinn af þessum fiskrétti og meðlætið parast svo vel með.“
Föstudagur – Pítsa með kartöflum og timían
„Margir gera heimagerðar pítsur á föstudagskvöldum enda eru oft bestu gæðustundirnar þegar fjölskyldan er saman í eldhúsinu að elda saman. Hér erum við með uppskrift að góðri pítsu sem vel er hægt að mæla með. Pítsan er dásamlega góð, hvít pítsa, eða „pizza bianca“, með sýrðum rjóma, kartöflum, rauðlauk, timían og chiliflögum.“
Laugardagur – Nautalund með bernaise-sósu og ferskum aspas
„Grilluð nautalund getur ekki klikkað og það þarf ekki mikið meðlæti með. Heimagerð bernaise-sósa og grillaður ferskur aspas eru hreint sælgæti að njóta með en vert er að leyfa steikinni að vera í aðalhlutverki.“
Sunnudagur - Húsó - nautakjötssalat með límónu- og engifersósu
„Ekkert er betra en að enda vikuna á ljúffengu nautakjötsalati með límónu- og engifersósu. Salat með nautakjöti á svo vel við á sumrin og svo líka hægt að nota afgangs grillkjöt frá laugardagskvöldinu í salöt.“