Í byrjun apríl hélt Iðan Fræðslusetur, í samstarfi við súkkulaði- og eftirréttameistarann Juan Gutierrez, glæsilegt fimm daga Masterclass-námskeið í eftirréttagerð og uppsetningu eftirrétta og í konfektgerð eða „Bon Bon“ eins og Gutierrez kýs að kalla það. Námskeiðið var haldið í kennslueldhúsi Iðunnar og Matvís stéttarfélags að Stórhöfða 31.
Námskeiðin voru ætluð fagfólki á veitingastöðum og í bakaríum sem vildi tileinka sér nýjustu aðferðir og hugmyndir í eftirrétta- og konfektgerð. Ekki er ólíklegt að áhrifa námskeiðanna megi vænta á veitingastöðum og bakaríum víða um land á næstunni.
Á námskeiðunum fór Gutierrez í allt það nýjasta í eftirréttagerð sem og í vinnu með súkkulaði og litafræði í konfektgerð. Axel Þorsteinsson, bakari og konditor hjá Hygge Coffee & Micro Bakery, var Gutierrez til aðstoðar á námskeiðinu.
Meistarakokkurinn Gutierrez sló í gegn árið 2022 þegar hann varð hlutskarpastur í hinum vinsæla þætti School of Chocolate á Netflix. Hann á stóran hóp fylgjenda og það má segja að þessir þættir hafi kyndað enn frekar undir frægð hans í faginu.
„Gutierrez þykir vera meðal fremstu og færustu eftirréttameistara heims, enda eru réttirnir hans meira en bara sælgæti, þeir bjóða upp á matarupplifanir sem segja sögur,“ segir Axel og bætir við að það hafi verið lærdómsríkt og mikil upplifun að taka þátt í þessu námskeiði með honum.
„Í sköpun sinni heiðrar Gutierrez bragð og hefðir hvaðanæva úr heiminum. Hann sækir innblástur til fjölbreyttrar menningar Mexíkó, Ítalíu, Indlands og Bandaríkjanna en hjartað slær þó alltaf sterkast með heimalandi hans, Kólumbíu,“ segir Axel og bætir við að það hafi verið mikill fengur að fá meistarann hingað til lands til að bæta við þekkinguna.
Fyrir utan eldhúsið hefur Juan brennandi áhuga á menntun og leiðsögn. Hann ferðast um allan heim og kennir súkkulaði- og eftirréttatækni, sem veitir innblástur fyrir næstu kynslóð eftirréttakokka. Það má með sanni segja að hann hafi heillað fagfólkið sem tók þátt í námskeiðinu upp úr skónum.
Á námskeiðinu var mikil áhersla lögð á árstíðarbundið hráefni eins og sjá má á matseðlunum sem unnið var með hér fyrir neðan ásamt myndaveislu af réttunum sem eru ómótstæðilegir á að líta.
Matseðlarnir á námskeiðinu
Eftirréttir:
Vetur
KÓKOS & MONGO MONGO (GLÚTENFRÍTT & VEGAN)
Kókos sorbet, Mongo Mongo & kókossvampur
MOCHI SVART SESAM
Mochi-svampur, svart sesam, pralín og kolaís
SÚKKULAÐI & PIPARMINTA
Súkkulaðimús, Peppermint Streusel & súkkulaðisvampur
Vor
JARÐARBER OG RJÓMI
Mascarpone-mús, bleikur piparkornssorbet og jarðarberjasósa
MANGÓ & KÓKOS (VEGAN)
Kókosmús, þjappað mangó og mangó sorbet
RÓS & LITCHI
Rósaþeyttur Ganache, Hindberja Cremeux & Pistasíusvampur
Sumar
KIRSUBER OG PISTASÍUHNETUR (VEGAN)
Pistasíumús, kirsuberjasvampur og kirsuberjasorbet
MANDARÍNUR OG PASSION ÁVÖXTUR (GLÚTENFRÍTT)
Mandaríunís, Vanillu Creme Brûlée & Passion ávaxtagel
SÓLBLÓM OG BÍFLUGUFRJÓKORN
Sólblómakaka, býflugufrjókorn og mjólkurís
Haust
SMJÖR & POPP
Smjörkaka, poppís og sveigjanlegur ganache
EPLA CIDER OG PECAN HNETUR (VEGAN)
Pecan hnetu Pralinee, eplakleinuhringir og eplasorbet
BYGG OG KARAMELLA
Byggbúðingur, karamellufroða og dökkur bjórís
Konfekt:
JARÐARBER
Jarðarberjasulta, jarðarberjakurl og vanilluganache
MILO
Milo ganache og Milo kurl
OSTAKAKA MARACUYA
Ástríðuávaxtagel og Ganache de Cheesecake
MORGUNKORN
Korn ganache og kornkurl
HESSILHNETUR
Heslihnetupralín
KAFFI
Kaffigel og kaffi ganache
PISTASÍUHNETUR
Pistasíu ganache og pistasíu marsípan
SVÖRT SESAM OSTAKAKA
Vanillu ganache og svart sesam pralín
Sjáið myndir af kræsingunum sem voru töfraðar fram, algjört augnakonfekt að njóta þessarar veislu.