Árni Þorvarðarson, bakari og fagstjóri við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi, er óstöðvandi þegar kemur að bakstri. Hann á fulla fjársjóðskistu af uppskriftum sem gleðja matarhjartað. Það er enginn sem á jafnmargar girnilegar uppskriftir að gómsætum snúðum sem fanga bæði augu og munn og hann, alla vega ekki sem ég veit um. Nú er hann mættur með bláberjasnúða með flórssykurskreytingu sem þið eigið eftir að elska.
Árni hefur þróað margar snúðauppskriftir sem hafa slegið í gegn. Hann hefur ekki tæmt kistuna enn þá.
mbl.is/Eyþór
Þessir snúðar eru ekki bara girnilegir að sjá, þeir bjóða upp á einstakt jafnvægi milli sætleika og ferskleika. Bláberin gefa þeim lit, líf og léttan súrleika sem brýtur upp hefðbundið snúðabragð á dásamlegan hátt. Flórsykursgljáin setur punktinn yfir i-ið og gerir þá jafn fallega og þeir eru bragðgóðir. Hvort sem þið berð þá fram volga með kaffibolla eða njótið þeirra daginn eftir, þá munu þeir alltaf vekja lukku. Þetta er uppskrift sem þið munið vilja baka aftur og aftur.
Snúðaveislan hans Árna heldur áfram
Bláberjasnúðar með flórsykursskreytingu
Deig
- 300 g volgt vatn
- 60 g sykur
- 4 msk. olía
- 1 tsk. salt
- 1 msk. þurrger
- 600 g hveiti
Fylling
- 230 g bláberjasulta Good Good
Skreyting
- Flórsykur til að sigta yfir.
Aðferð:
- Byrjið á því að virkja gerið með því að blanda því saman við volgt vatn og sykur – leyfið því að freyða og koma sér í gang.
- Bætið olíu og salti við, og síðan hveitinu smátt og smátt.
- Hnoðið þar til deigið er mjúkt, slétt og aðeins klístrað, þetta er hjartað í góðum snúðum.
- Setjið deigið í skál, breiðið viskastykki yfir og leyfið því að hefast í ró og næði í um það bil 15 mínútur.
- Rúllið næst deiginu út í stóran ferhyrning og smyrjið bláberjasultunni yfir.
- Rúllið upp í þétta rúllu og skerið í sneiðar með beittum hníf.
- Raðið snúðunum í bökunarform og leyfið þeim að lyfta sér aftur í um það bil 40 mínútur, svo þeir verði léttir og mjúkir.
- Bakið við 180°C hita í 12-15 mínútur þar til snúðarnir verða gullinbrúnir og ilmurinn fyllir húsið.
- Að lokum áður en snúðarnir eru bornir fram er fallegt að sigta flórsykur yfir.