Stjörnukokkurinn Sigurður Laufdal og teymið hans stóðu fyrir líflegu og skemmtilegu opnunarteiti á veitingastaðnum Lólu um helgina. Það er engum blöðum um það að fletta að það var ys og þys og það ætlaði allt um koll að keyra í gleðinni og voru húsakynnin sannarlega full út úr dyrum.
Sigurður stjörnu- og listakokkurinn, oftast nær kallaður Siggi Lauf, ákvað að leggja á ný mið að nýju og hyggst opna glænýjan veitingastað, Lólu, sem verður til húsa í Hafnarhvoli að Tryggvagötu 11 þar sem veitingastaðurinn Anna Jóna var áður til húsa. Staðurinn mun opna formlega á morgun, miðvikudaginn 7. maí næstkomandi, og bókanir eru nú þegar farnar að streyma inn enda enginn svikinn þegar Siggi Lauf kemur nálægt matseldinni.
Fjölmargir gestir lögðu leið sína í opnunarteitið og þar mátti sjá marga af þekktustu kokkum landsins ásamt ýmsu fólki úr veitingahúsageiranum. Meðal þeirra sem komu og fögnuðu opnun staðarins voru Gabríel Kr. Bjarnason, nýkrýndur Kokkur ársins, Sindri Guðbrandur Sigurðsson, sem einnig hefur hlotið titilinn Kokkur ársins, Snædís Jónsdóttir kokkur og þjálfari íslenska kokkalandsliðsins, Sigurður Hall sjónvarpskokkur með meiru svo fátt sé nefnt.
Siggi Lauf var bæði hrærður og meyr við viðtökum gesta og þakklátur fyrir hversu vel er tekið á móti Lólu í sívaxandi veitinga- og menningarflóru borgarinnar.
Aðspurður segir Sigurður Laufdal: „Við stefnum að því að opna formlega á morgun, 7. maí, og hlökkum mikið til að taka á móti gestum. Mikil áhersla verður lögð á framúrskarandi góða þjónustu, spennandi matseðil og ljúffenga kokteila sem og góð vín. Í matargerðinni verður áherslan á ítalska matargerð sem hefur verið að heilla mig svolítið upp á síðkastið, þannig að Lóla verður undir áhrifum frá Ítalíu en á sama tíma mun hugmyndaflugið hjá mér og teyminu ráða för,“ segir Sigurður sposkur á svip.
Veitingastaðurinn er stór og rúmar mikinn fjölda gesta. Jafnframt er stór og fallegur bar sem verður gaman að sitja á og njóta góðra kokteila og matar. Ekki má gleyma að nefna bíósalinn sem er inn af staðnum en þar er hægt að njóta þess að horfa á ræmu og dreypa á góðum drykkjum fyrir og eftir mat.
Spurning hvort þetta verði heitasti veitingastaðurinn í sumar og hvort Gordon Ramsay, betur þekktur sem Michelin-stjörnu matreiðslumaður, veitingamaður, sjónvarpsmaður og rithöfundur mæti á svæðið líkt og hann hefur gert undanfarin ár þar sem Siggi Lauf er í eldhúsinu skal ósagt látið.
Sjáið myndirnar sem lýsa vel gleðinni sem var völd í teitinu: