This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Í tilefni þess að verðlaunasteikurnar úr hinni frægu keppni, World Steak Challenge, eru komnar í hús á veitingastaðnum Finnsson í Kringlunni bauð Óskar Finns helstu kjötnördum landsins í steikarsmakk.
World Steak Challenge er risakeppni á milli steikarframleiðenda um bestu steikina í heimi. Á síðasta ári var það í fyrsta skipti sem Íslendingar áttu dómara í keppninni en Óskari hlotnaðist sá heiður en þetta er ein virtasta steikarkeppni í heimi.
Óskar bauð einvalaliði sem hefur mikla ástríðu fyrir góðum steikum í smakkið, þeim Agnari Sverrissyni Michelin-stjörnukokki á Moss, Völundi Snæ Völundssyni meistarakokki, Jóhanni S. Eggertssyni hjá Mata og Jóhanni Ægi Kristjánssyni hjá Fastus.
Hann bauð annars vegar upp á eðalribeye-steik frá Red-White, sem var valin besta ribeye-steikin í Evrópu í keppninni árið 2024, og hins vegar upp á argentíska nautalund frá fyrirtækinu Devesa, sem var valin sú besta í Ameríku árin 2023 og 2024.
„Ég var lengi búinn að bíða eftir þessu tækifæri, að geta boðið þessum kjötnördum í alvöru steikarsmakk, og leyfa þeim að finna þessi gæði í steikunum. Í smakkinu leyfðum við kjötinu að njóta sín en auðvitað bárum við líka fram franskar kartöflur og djúpsteiktar heilar kartöflur sem eru steiktar upp úr andafitu ásamt okkar bestu útgáfu af bernaise,“ segir Óskar sem var afar spenntur að sjá svipbrigðin í smakkinu.
Á Finnsson Bistro hefur fjölskyldan verið að feta sig frekar inn á steikarmarkaðinn og má segja að Óskar sé þessa dagana að leyfa ástríðunni að blómstra áfram og nýta þá kunnáttu sem hann hefur.
Óskar er með fleira spennandi í bígerð þegar kemur að ástríðu hans fyrir steikum. „Það styttist óðum í það að ég ljóstri upp hvert næsta verkefni mitt verður þegar steikur eru annars vegar. Þessa dagana eru það steikurnar sem eiga hug minn allan,“ segir Óskar leyndardómsfullur.