Lovísa Thompson Valsari og landsliðskona í handbolta ljóstrar upp áhugaverðum og skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar fyrir lesendum matarvefs mbl.is.
Lovísa er einn af lykilmönnum Vals í handbolta en liðið stendur í ströngu þessa dagana og er á leið út til Spánar til að keppa í Evrópukeppninni auk þess sem þær keppa til úrslita á Íslandsmótinu.
„Ég starfa sem dönskukennari á daginn og handboltakona á kvöldin. Ég elska allt sem tengist íþróttum og heilsu og hef gaman af því að eiga góðar stundir með vinum og fjölskyldu,“ segir Lovísa þegar hún er spurð út í hið daglega líf.
Þegar kemur að hefðbundnum matarvenjum er Lovísa mjög vanaföst. „Ég borða yfirleitt það sama á virkum dögum. Ég undirbý yfirleitt nesti daginn áður og er svo með stútfulla tösku af mat sem ég tek með í vinnuna.
Vinnufélagar mínir hafa haft orð á því að ég þyrfti að bjóða upp á einhvers konar nestisþjónustu og búa til girnilega grauta fyrir þá. Kannski læt ég verða að því einn daginn. Það er eiginlega heilög stund á kvöldin að undirbúa máltíðir næsta dags og mér finnst skemmtilegast að hafa sem mest af lit í máltíðinni. Mér finnst gaman að borða en hef verið minna í því að elda. Er einmitt að flytja að heiman svo ég þarf að æfa mig að elda en kærastinn minn er mjög góður kokkur þannig ég nýt góðs af því,“ segir Lovísa og brosir.
Lovísa segir að hún taki mataræði föstum tökum á veturna en leyfi sér að slaka aðeins á þegar keppnistímabilið er búið. „Á sumrin hef ég verið gjörn á að leyfa mér að slappa af og vera ekki of ströng á því hvað ég borða. Þá erum við í fríi frá skipulögðum handboltaæfingum og eigum að sinna eigin þjálfun. Mér finnst samt alltaf best að vera í rútínu og í sumar ætla ég að búa mér til gott plan svo ég verði í standi þegar við byrjum aftur í haust.“
Þessa dagana standa Valsstelpurnar í ströngu en framundan eru bæði úrslit í Íslandsmótinu og Evrópukeppninni.
„Við eigum tvo leiki í Evrópukeppninni við spænska atvinnumannaliðið, BM Porrino. Fyrri leikurinn er á Spáni, þann 10. maí næstkomandi, og sá seinni hérna heima að Hlíðarenda þann 17. maí. Það er mikil eftirvænting innan hópsins enda erum við búnar leggja hart að okkur í allan vetur, bæði innan og utan vallar, til að ná þessum árangri. Mikill tími hefur farið í æfingar og í að safna fyrir keppninni með ýmsum fjáröflunum. Það er því gaman að við séum að uppskera,“ segir Lovísa.
„Við hefjum svo leik í úrslitum Íslandsmótsins 20. maí gegn Haukakonum en vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. Markmiðið það sem eftir lifir tímabilsins er að taka eina æfingu og einn leik í einu, fókusa á frammistöðu okkar og sjá svo að lokum hver niðurstaðan verður. Þetta tímabil hefur liðið mjög hratt og því skiptir miklu máli að njóta hvers einasta móments því þetta verður búið áður en við vitum af,“ bætir Lovísa við.
Þarftu að hugsa vel um hvað þú borðar fyrir keppni og leiki?
„Já, ég hugsa vel um hvað ég borða og þá sérstaklega daginn fyrir leik og á leikdegi. Það skiptir máli að vera með nóg bensín á tankinum og fylla hann vel af góðri næringu sem nýtist í átökin.“
Lovísa svarar hér nokkrum laufléttum spurningum um matarvenjur sínar og hefðir.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Morgunmaturinn er oftast skyrskál eða yfirnátta hafragrautur með alls konar gúmmelaði eins og t.d. berjum og fræjum. Síðan hef ég verið að æfa mig að drekka kaffi í vinnunni og það hefur gengið nokkuð vel.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Nei, ég er ekki vön að borða mikið milli mála en ef ég er að fara á æfingu eftir vinnu finnst mér fínt að fá mér t.d. banana, maískökur eða próteinstykki.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Í hádeginu tek ég oftast afgang frá kvöldmatnum daginn áður. Ég útbý líka oft svona eiginlegt „smørrebrød“ en þá vel ég mér eitthvað girnilegt brauð (fræbrauð, beyglur eða súrdeigsbrauð) og toppa með góðu áleggi sem ég hef lyst á þann daginn. Þessa dagana er ég mest að vinna með smjör, ost, kjúklingaálegg, gúrku og egg. Ég strái svo nógu af salti og pipar yfir, mjög gott.
Til að passa upp á próteininntökuna fæ ég mér svo eina Hleðslu með.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Ég á alltaf til skyr og gríska jógúrt.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Mér finnst mjög gaman að fara út að borða og þá í góðra vina hópi eða með kærastanum mínum. Minn uppáhaldsveitingastaður er Ráðagerði úti á Seltjarnarnesi og ég get farið þangað aftur og aftur án þess að fá leiða. Ég mæli hiklaust með því að prófa þennan stað en það er hægt að fá dýrindis dögurð og kostulegan kvöldverð á góðu verði. Andrúmsloftið og maturinn fá 10/10 frá mér.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Þó að ég elski Ráðagerði, sem er ítalskur veitingastaður, þá er ég eiginlega ekki mikil pítsukona. Mér finnst þó heimabakaða pítsan hjá mömmu best. Þá setur hún risarækjur, klettasalat, parmesanost og nóg af hvítlauksolíu.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þínu?
„Ég setti alltaf bara tómatsósu og steiktan lauk en nú, þegar ég hef þroskast aðeins meira, hef ég bætt við sinnepi og stundum smá remúlaði til að vera smá dönsk.“
Hver er uppáhaldsgrillrétturinn þinn?
„Ég er ekki vön miklum grillmat á mínu heimili en góður hamborgari beint af grillinu klikkar ekki.“
Áttu grill? Hvort heillar þig meira gas- eða kolagrill?
„Nei, ekki enn og ég veit því miður ekkert um grill svo ég veit ekki hvort heillar mig meira.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Það fer eftir því hvað ég er að fara að gera í kringum máltíðina. Ef það er stutt í leik fæ ég mér kartöflur en annars er ég meira fyrir salatið. Þetta er samt bæði gott í bland.“
Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Ég er mjög leiðinleg og elska íslenska vatnið meira en allt. Uppáhaldsdrykkirnir mínir þessa dagana eru sódavatn með granateplabragði og Stellar Blend Nocco.“
Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?
„Hákarl sem stjúppabbi minn mútaði mér að smakka um árið.“
Ertu með æði fyrir einhverju þessa dagana?
„Ég er með æði fyrir Bíókroppinu frá Nóa Síríus og Próteinpoppi. Ef mig langar í „möns“ er þetta mitt „go-to“.“