Kristín Birta Ólafsdóttir, matreiðslumeistari og landsliðskokkur, elskar að grilla og fagnar hverju tækifæri sem hún fær til þess.
Kristín Birta ætlar að gefa lesendum Morgunblaðsins uppskriftina að uppáhaldsgrillrétti sínum þar sem ribeye-steik er í aðalhlutverki ásamt meðlæti sem kitlar bragðlaukana.
Hún er 27 ára gömul og hjarta hennar slær í eldhúsinu á Hótel Reykjavík Grand þar sem hún starfar sem vaktstjóri. Þessa dagana undirbýr hún sig líka fyrir heimsmeistaramótið í matreiðslu sem fram undan er seint á næsta ári.
„Æfingar eru núna á tveggja vikna fresti, tvo daga í senn, en við fengum gott páskafrí sem var kærkomið. Annars erum við að æfa hvorn flokkinn til skiptis, það er að segja Chef’s Table og Restaurants of Nations. Mjög ólíkir flokkar og það hefur gengið mjög vel hingað til. Við eigum eftir tvær æfingar fyrir sumarfrí og síðan byrjum við aftur í ágúst,“ segir Kristín Birta sem er mjög bjartsýn á velgengni liðsins. „Við erum með mjög sterkt lið, frábæran þjálfara og ég er sannfærð um að við munum ná langt á heimsmeistaramótinu,“ segir hún með bjartsýnistón.
Þegar kemur að því að matreiða finnst Kristínu Birtu langskemmtilegast að grilla og möguleikarnir eru margir þegar kemur að útfærslum á grillréttum.
„Ég vann á steikhúsi sem vaktstjóri en ég fór líka á grillið á hverju kvöldi því mér finnst svo ótrúlega skemmtilegt að grilla. Hvort sem það var að grilla stórar steikur á beini, lambafille eða eitthvert annað kjöt eða fisk. Það er eitthvað við þessa eldunaraðferð, ég er alveg heilluð af henni.
Það er mismunandi bragð og áferð sem kemur á hráefnið eftir því hvort grillað er á kolum eða gasi, sem mér finnst spennandi. Það fer eftir stemningunni og eftir hverju ég er að leitast hverju sinni hvort ég vel kolin eða gasið. Ég grilla bæði á gasgrilli og rafmagnsgrilli, nema ef ég er í útilegu, þá eru kolin dregin fram og litla ferðagrillið,“ segir Kristín Birta sposk á svip.
Kristín Birta byrjaði snemma að grilla og hefur alltaf verið hrifin af þeirra eldunaraðferð. „Ég var í útilegu með fjölskyldunni, líklega 13 ára gömul, þegar ég man fyrst eftir að hafa fengið að grilla ein. Ég fékk þá að grilla hamborgara ofan í fólkið, það er fyrsta grillminningin mín sem poppar upp. Fjölskyldan mín er mikil ferðafjölskylda og í öllum útilegum er grillað á kvöldin. Þá er ég iðulega að sniglast í kringum grillið og hef gert frá því ég man eftir mér, enda finnst mér það svo gaman.“
Meðlætið skiptir Kristínu Birtu ávallt miklu máli með öllu því sem grillað er. „Mér finnst meðlæti ávallt skipta máli með því sem er á boðstólum. Með nautasteik finnst mér klassískt að hafa kartöflu sem er vafin inn í álpappír með smjöri og salti, grillað grænmeti og síðan finnst mér ómissandi að vera með góða bearnaise-sósu eða rauðvínssósu eða jafnvel gott kryddsmjör. Ég set oft chimichurri ofan á steik eða fisk sem er grillaður, mér finnst það passa mjög vel saman.
Uppskriftin sem mig langar að deila með lesendum er ein af mínum uppáhalds en þegar ég vann í steikhúsinu grillaði ég endalaust mikið af nauta-ribeye og fannst æðislegt að hafa þetta meðlæti með. Ribeye er fituríkt og því er svo gott að hafa bragðgóða og ekki of feita sósu með, eins og chimichurri, og leyfa kjötinu að njóta sín. Síðan grilla ég aspas og er með ristaðar smælkikartöflur með timjan og hvítlauk, og laga smá rauðvínsgljáa.“
Nauta-ribeye með chimichurri, grilluðum aspas, ristuðum smælkikartöflum með timjan og hvítlauk, og rauðvínsgljáa
Nauta-ribeye
fyrir 2
Aðferð:
Chimichurri
Aðferð:
Ristaðar smælkikartöflur
Aðferð:
Grillaður aspas
Aðferð:
Rauðvínsgljái
Aðferð: