Byrjaði að grilla 13 ára gömul í útilegu

Landsliðskokkurinn Kristín Birta Ólafsdóttir elskar að grilla og fagnar hverju …
Landsliðskokkurinn Kristín Birta Ólafsdóttir elskar að grilla og fagnar hverju tækifæri sem hún fær til þess. mbl.is/Eyþór

Krist­ín Birta Ólafs­dótt­ir, mat­reiðslu­meist­ari og landsliðskokk­ur, elsk­ar að grilla og fagn­ar hverju tæki­færi sem hún fær til þess.

Krist­ín Birta ætl­ar að gefa les­end­um Morg­un­blaðsins upp­skrift­ina að upp­á­halds­grill­rétti sín­um þar sem ri­beye-steik er í aðal­hlut­verki ásamt meðlæti sem kitl­ar bragðlauk­ana.

Rauðvínsgljáinn er ljúffengur með og að setja chimichurri ofan á …
Rauðvíns­gljá­inn er ljúf­feng­ur með og að setja chimichurri ofan á steik­ina er synd­sam­lega gott. mbl.is/​Eyþór

Hún er 27 ára göm­ul og hjarta henn­ar slær í eld­hús­inu á Hót­el Reykja­vík Grand þar sem hún starfar sem vakt­stjóri. Þessa dag­ana und­ir­býr hún sig líka fyr­ir heims­meist­ara­mótið í mat­reiðslu sem fram und­an er seint á næsta ári.

„Æfing­ar eru núna á tveggja vikna fresti, tvo daga í senn, en við feng­um gott páskafrí sem var kær­komið. Ann­ars erum við að æfa hvorn flokk­inn til skipt­is, það er að segja Chef’s Table og Restaurants of Nati­ons. Mjög ólík­ir flokk­ar og það hef­ur gengið mjög vel hingað til. Við eig­um eft­ir tvær æf­ing­ar fyr­ir sum­ar­frí og síðan byrj­um við aft­ur í ág­úst,“ seg­ir Krist­ín Birta sem er mjög bjart­sýn á vel­gengni liðsins. „Við erum með mjög sterkt lið, frá­bær­an þjálf­ara og ég er sann­færð um að við mun­um ná langt á heims­meist­ara­mót­inu,“ seg­ir hún með bjart­sýnistón.

Lang­skemmti­leg­ast að grilla

Þegar kem­ur að því að mat­reiða finnst Krist­ínu Birtu lang­skemmti­leg­ast að grilla og mögu­leik­arn­ir eru marg­ir þegar kem­ur að út­færsl­um á grill­rétt­um.

„Ég vann á steik­húsi sem vakt­stjóri en ég fór líka á grillið á hverju kvöldi því mér finnst svo ótrú­lega skemmti­legt að grilla. Hvort sem það var að grilla stór­ar steik­ur á beini, lambaf­ille eða eitt­hvert annað kjöt eða fisk. Það er eitt­hvað við þessa eld­un­araðferð, ég er al­veg heilluð af henni.

Það er mis­mun­andi bragð og áferð sem kem­ur á hrá­efnið eft­ir því hvort grillað er á kol­um eða gasi, sem mér finnst spenn­andi. Það fer eft­ir stemn­ing­unni og eft­ir hverju ég er að leit­ast hverju sinni hvort ég vel kol­in eða gasið. Ég grilla bæði á gasgrilli og raf­magns­grilli, nema ef ég er í úti­legu, þá eru kol­in dreg­in fram og litla ferðagrillið,“ seg­ir Krist­ín Birta sposk á svip.

Krist­ín Birta byrjaði snemma að grilla og hef­ur alltaf verið hrif­in af þeirra eld­un­araðferð. „Ég var í úti­legu með fjöl­skyld­unni, lík­lega 13 ára göm­ul, þegar ég man fyrst eft­ir að hafa fengið að grilla ein. Ég fékk þá að grilla ham­borg­ara ofan í fólkið, það er fyrsta grill­m­inn­ing­in mín sem popp­ar upp. Fjöl­skyld­an mín er mik­il ferðafjöl­skylda og í öll­um úti­leg­um er grillað á kvöld­in. Þá er ég iðulega að snigl­ast í kring­um grillið og hef gert frá því ég man eft­ir mér, enda finnst mér það svo gam­an.“

Meðlætið skipt­ir líka máli

Meðlætið skipt­ir Krist­ínu Birtu ávallt miklu máli með öllu því sem grillað er. „Mér finnst meðlæti ávallt skipta máli með því sem er á boðstól­um. Með nauta­steik finnst mér klass­ískt að hafa kart­öflu sem er vaf­in inn í álp­app­ír með smjöri og salti, grillað græn­meti og síðan finnst mér ómiss­andi að vera með góða be­arnaise-sósu eða rauðvínssósu eða jafn­vel gott krydds­mjör. Ég set oft chimichurri ofan á steik eða fisk sem er grillaður, mér finnst það passa mjög vel sam­an.

Upp­skrift­in sem mig lang­ar að deila með les­end­um er ein af mín­um upp­á­halds en þegar ég vann í steik­hús­inu grillaði ég enda­laust mikið af nauta-ri­beye og fannst æðis­legt að hafa þetta meðlæti með. Ri­beye er fitu­ríkt og því er svo gott að hafa bragðgóða og ekki of feita sósu með, eins og chimichurri, og leyfa kjöt­inu að njóta sín. Síðan grilla ég asp­as og er með ristaðar smælkikart­öfl­ur með timj­an og hvít­lauk, og laga smá rauðvíns­gljáa.“

Nauta-ribeye með chimichurri, grilluðum aspas, ristuðum smælkikartöflum með timjan og …
Nauta-ri­beye með chimichurri, grilluðum asp­as, ristuðum smælkikart­öfl­um með timj­an og hvít­lauk, og rauðvíns­gljáa. mbl.is/​Eyþór

Byrjaði að grilla 13 ára gömul í útilegu

Vista Prenta

Nauta-ri­beye með chimichurri, grilluðum asp­as, ristuðum smælkikart­öfl­um með timj­an og hvít­lauk, og rauðvíns­gljáa

Nauta-ri­beye

fyr­ir 2

  • 2 stk. nauta-ri­beye (250 g)
  • 100 g smjör
  • salt eft­ir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja ri­beye-steik­urn­ar á grillið og stráið salti yfir.
  2. Þegar þykk­ar og góðar grill­rend­ur hafa mynd­ast snúið þá kjöt­inu við og penslið með brenndu smjöri og saltið eft­ir smekk.
  3. Mik­il­vægt er að grilla steik­urn­ar ekki of lengi til að þær ofeld­ist ekki, því steik­urn­ar eru oft frek­ar þunn­ar.
  4. Þegar ég hef grillað ri­beye er það aldrei leng­ur en 5 mín­út­ur á grill­inu en að sjálf­sögðu fer það eft­ir þykkt.
  5. Fínt er að hafa kjarn­hita­mæli við hönd­ina og hita­mæla kjötið, annaðhvort meðan það er á grill­inu eða þegar það hef­ur verið tekið af.
  6. Látið kjötið hvíla í að minnsta kosti 7-8 mín­út­ur áður en þið berið það fram.
  7. Ef hafa á ri­beye-ið medi­um-eldað, eins og ég mæli með, á hita­mæl­ir­inn að sýna 55-56°C, eft­ir að kjötið hef­ur verið hvílt.
  8. Því er betra að taka það frek­ar fyrr af grill­inu en seinna, því maður get­ur alltaf skellt því aft­ur á grillið í smá­stund ef hit­inn er ekki nógu hár inni í kjöt­inu.

Chimichurri

  • 125 g ólífu­olía
  • 2 msk. rauðvín­se­dik
  • 1 búnt söxuð stein­selja
  • 1 lít­ill chili, saxaður
  • 4 hvít­lauksrif, söxuð
  • 1 tsk. þurrkað óreg­anó
  • 1 tsk. gróft sjáv­ar­salt
  • ör­lítið af svört­um pip­ar

Aðferð:

  1. Setjið allt hrá­efnið í skál og blandið vel sam­an.
  2. Setjið síðan í krukku og látið helst standa í kæli yfir nótt til að bragðið nái að fara út í ol­í­una.
  3. Setjið síðan chimichurri ofan á kjötið eft­ir eld­un.

Ristaðar smælkikart­öfl­ur

  • 300 g smælkikart­öfl­ur
  • 5-6 grein­ar af fersku timj­an
  • 3 hvít­lauks­geir­ar
  • salt eft­ir smekk
  • repju­olía/​ann­ars kon­ar olía

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera kart­öfl­urn­ar til helm­inga og setjið í bakka eða eld­fast mót.
  2. Saxið hvít­lauk­inn smátt og setjið út á kart­öfl­urn­ar ásamt timj­an­grein­un­um.
  3. Setjið salt og olíu út á og blandið öllu vel sam­an.
  4. Bakið í ofni við 210°C hita í 12-15 mín­út­ur, eða leng­ur ef þess þarf.

Grillaður asp­as

  • 4-6 stk. asp­as
  • 30 g smjör
  • salt eft­ir smekk

Aðferð:

  1. Snyrtið asp­asinn, brjótið end­ana fram­an á af og setjið hann síðan á grillið.
  2. Bræðið smjörið og penslið síðan yfir asp­asinn og stráið smá salti yfir.
  3. Snúið hon­um við og haldið áfram að grilla, þar til hann er orðinn mjúk­ur.

Rauðvíns­gljái

  • 1 l rauðvín
  • 1,5 l nauta­soð
  • 5 sneiðar bei­kon
  • 6 stk. flúðasvepp­ir
  • 5 stk. ís­lensk­ar gul­ræt­ur
  • 2 stilk­ar sell­e­rí
  • 3 lauk­ar
  • 5 hvít­lauksrif

Aðferð:

  1. Skerið bei­kon og allt græn­metið í sneiðar og/​eða bita og svitið í potti í smá olíu.
  2. Hellið rauðvíni út í og sjóðið niður um helm­ing. Hellið síðan nauta­soði út í og sjóðið niður um helm­ing og látið malla.
  3. Sigtið síðan sós­una yfir í ann­an pott og haldið áfram að sjóða niður þar til hún hef­ur náð þeirri þykkt sem þið viljið.
  4. Kryddið til með salti og smá pip­ar eft­ir smekk.
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert
Loka