Vala Kristín Eiríksdóttir leikkona og handritshöfundur afhjúpar nokkrar skemmtilegar staðreyndir um matarvenjur sínar á meðgöngunni og viðurkennir fúslega að þær séu öðruvísi þessa dagana. Hún á að eiga á næstu dögum svo hún er á síðustu metrunum á meðgöngunni sem hefur svo sannarlega áhrif á matarvenjur hennar.
Vala er landsmönnum vel kunnug fyrir verk sín en hún er til að mynda einn höfunda þáttaseríunnar Venjulegs fólks sem sýnd var hjá Símanum og með 10 ára starfsreynslu sem leikkona í Borgarleikhúsinu. Á fjölunum þessa dagana er sýningin Þetta er Laddi sem hún er meðhöfundur að ásamt Ólafi Agli Egilssyni sem er að fá góðar undirtektir leikhúsgesta.
Völu finnst æðislegt að borða góðan mat og nýtur þess sérstaklega þessa dagana.
„Ég get ekki sagt að ég sé ástríðukokkur eða liggi yfir vefsíðum til að kynna mér veitingastaði áður en ég sæki þá. En mér finnst æðislegt að borða góðan mat, og bara mat yfir höfuð.
Það er alltaf gaman að eiga lúxusmatarupplifun en svo getur góð grilluð samloka eða pakkanúðlur verið himnesk upplifun líka í réttum aðstæðum,“ segir Vala og hlær.
„Matarvenjur á meðgöngu hafa breyst þannig að ég borða miklu, miklu, meira. Og ég er farin að borða morgunmat sem ég hætti að gera í mörg ár. Stundum borða ég morgunmat tvisvar.
Ég vakna kannski um klukkan sex og get ekki sofið fyrir hungri, þá er morgunmatur númer eitt. Síðan vakna ég aftur um klukkan 10 og þá er morgunmatur númer tvö í röðinni. En það sem ég borða hefur lítið breyst, nema á meðan ógleðin stóð yfir fyrstu mánuðina. Ég borða bara það sem mér dettur í hug.“
Aðspurð segir Vala matarvenjur sínar breytast eftir árstíðum. „Á sumrin breytist það sem mig langar í. Þá langar mig meira í ferskt grænmeti og ávexti, salöt og grillmat. Á veturna langar mig oftar í kjötsúpu og heitt slátur og þvíumlíkt. Sú löngun hverfur nánast alveg á sumrin,“ segir Vala sposk á svipinn.
Vala gaf sér tíma til að svara nokkrum praktískum spurningum um matarvenjur sínar sem gefa líka lesendum góða innsýn í hve matarástin getur breyst á meðgöngunni.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Á morgnanna fæ ég mér yfirleitt ristað brauð með smjöri, osti og sultu. Eða AB-mjólk með múslí sem ég geri sjálf. Ég er alltaf á leiðinni að verða svona týpa sem kýlir í sig próteinum eins og eggjum á morgnanna því internetið segir að þá verði maður í topp formi og hamingjusamur. En þegar það kemur að því þá langar mig alltaf mest í brauð. Og brauð gerir mig alveg nógu hamingjusama.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég er engin formleg millimálatýpa en hendi stundum í mig hrökkbrauði, ávöxtum, hnetum eða gríp mér þeyting eins og eftir ræktina ef það er enn einhver tími í næstu formlegu máltíð.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Nei, formlegur hádegismatur finnst mér ekki ómissandi. Það fer þó eftir í hvaða rútínu ég er. Þegar ég er að æfa á daginn í leikhúsinu þá er dásamlegt að setjast niður með heita máltíð og oftar en ekki mikil eftirvænting í hópnum að sjá hvað er í matinn og svo gaman þegar hann er extra góður, hann gefur svo mikið inn í daginn.
Á sólríkum sumardegi er líka gaman að gera eitthvað úr hádegismatnum og gera gott pasta eða kjúklingasalat. En ef það er ekkert tilefni þá er aftur ristað brauð með aðeins matarmeira áleggi eins og góðu túnfiskssalati sem er alltaf negla.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Ég á eiginlega alltaf til gulan innocent smoothie, smjör, ost og sultu. Og yfirleitt kalda lifrarpylsu sem fer ýmist ofan í fólk eða hund.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Ég elska að fara á Sölku sem er veitingastaður á Skólavörðustíg. Það er boðið upp á stálheiðarlegan steiktan fisk, plokkfisk, rúgbrauð með síld, lambaskanka og vanmetnustu pítsur bæjarins. Þetta er svona mjög heimilisleg upplifun sem mér finnst æði ef maður nennir ekki að elda. Ef ég vil meiri lúxus þá finnst mér t.d. Grazie æði og Sumac.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Mér finnst alls konar gott á pítsur en ef það er ekki pepperóní þá skil ég varla af hverju við erum að þessu.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þína?
„Ég fæ mér allt á pylsur, helst kartöflusalat líka og pylsuna vafða í beikon ef það er í boði. „More is more“.“
Hver er uppáhaldsgrillrétturinn þinn?
„Það verður flest gott á grilli. En það er erfitt að klúðra klassísku lambalærissneiðunum.“
Áttu grill?
„Ég á grill, já. Og einhverra hluta vegna eru hér þrjú eða fjögur grill í geymslunni en bara tvær íbúðir sem deila geymslunni. Þetta hefur verið ráðgáta í aðdraganda sumars. Eins og geymslan framleiði lítil ferðagrill. Gasgrillin eru náttúrulega svo þægileg og lítið subb en auðvitað eru kolagrill meira sjarmó og kolin gefa gott bragð.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Ég fæ mér kartöflur og salat. Og meðlæti yfir höfuð er ávallt stærsti hlutinn af disknum mínum.“
Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Uppáhaldsdrykkurinn fer náttúrulega eftir aðstæðum. Ég verð þó að viðurkenna að ég er farin að hlakka mikið til að fá mér stórt glas af ísköldum Einstök Pale ale.“
Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?
„Það var hér um bil allt viðbjóðslegt fyrstu 3 mánuðina á meðgöngunni, að minnsta kosti tilhugsunin. Ég man ekki til þess að einhver spes matur hafi bragðast extra illa. Hins vegar voru töflur sem áttu að hjálpa til við ógleði og bragðið af þeim svo vont að það grætti mig. Ég sendi öllum konum sem eru staddar á þessum tímapunkti á sinni meðgöngu alla mína strauma. Þessa fyrstu mánuði er stundum eins og maður sé fangi í eigin líkama.“
Ertu með æði fyrir einhverju þessa dagana?
„Ég er með æði fyrir múslí-inu sem ég bý til sjálf. Hafrar eru uppistaðan og þær hnetur og þau fræ sem eru til að hverju sinni. Í skammtinum núna eru sólblómafræ, sesamfræ, möndlur, pekanhnetur. Svo bræði ég saman í potti kókosolíu, smá ólífuolíu, fullt af hnetusmjöri, vanilludropum, salti og smá hunangi.
Ég slumpa bara á magnið af vökva þannig að hann veltist um allt þetta þurra án þess að það verði blautt. Dreifi úr þessu á ofnplötu klædda bökunarpappír og baka við 170°C hita, grufla í því eftir 10 mínútur og baka svo þar til múslí-ið verður gullinbrúnt. Það er geggjað út í hvers konar jógúrt eða mjólk með rúsínum eða döðlum og ferskum ávöxtum.“