Er ekki upplagt að baka ljúffenga skúffuköku með helgarkaffinu? Þegar okkur langar að fá góða gesti heim í kaffi þá er lag að gleðja þá með skúffuköku sem hlýjar sálinni.
Þessi skúffukaka er góð fyrir sálina, með smá kanilbragði og örlitlum kaffikeim. Galdurinn við mýktina í kökunni er Óskajógúrtið með hnetu- og karamellubragði. Uppskriftin er einmitt góð fyrir rigningar- og haglélsdaga að vori og sumri og kemur úr smiðju Helenu Gunnarsdóttur, matarbloggara hjá Eldhúsperlum. Uppskriftina gerði hún fyrir uppskriftavefinn Gott í matinn.
Ljúffeng skúffukaka sem yljar sálinni
Skúffukakan
- 5 dl hveiti
- 4 dl sykur
- 1 tsk. kanill
- 2 msk.kakó
- 1⁄2 tsk.salt
- 1 tsk. matarsódi
- 1 tsk. lyftiduft
- 2 dósirÓskajógúrt með hnetu- og karamellubragði
- 2 stk. egg
- 2 dl mjólk
- 2 tsk. vanilluextrakt
- 150 g smjör, brætt
Á milli
- 3 msk.sykur
- 2 tsk.kanill
Aðferð:
- Hitið ofn í 170°C með blæstri.
- Hrærið öllum þurrefnum saman í skál.
- Pískið saman jógúrt, eggjum, mjólk og vanillu og hellið út í deigið.
- Bætið að lokum bræddu smjöri saman við og blandið vel saman.
- Hellið helmingnum af deiginu í skúffukökuform, stráið kanilsykrinum á milli og breiðið svo restina af deiginu yfir.
- Bakið í um það bil 25-30 mínútur eða þar til bakað í gegn.
Kaffikrem
- 250 g flórsykur
- 2 msk.kakó
- 75 g smjör, brætt
- 4 1⁄2 msk. heitt sterkt kaffi
- 1 tsk. vanilluextrakt
- smá klípa sjávarsalt
Aðferð:
- Gerið kremið meðan kakan er í ofninum.
- Pískið öllum hráefnum saman og bætið heitu kaffi smám saman út í þar til kremið er passlega þykkt.
- Hellið kreminu yfir heita kökuna og látið standa í 15 mínútur áður en hún er borin fram.