Aðeins fáeinum strætum frá Les Halles og listasafninu Musée des Arts et Métiers, eru steinlagðar og heillandi göngugötur sem tilheyra Montorgueil-hverfinu sem minnir dálítið á lítið sjarmerandi þorp.
Aðalgatan, rue Montorgueil, hýsir grænmetisverslanir og matvöruverslanir, bari og veitingastaði, sem og töff fataverslanir. Þarna getur verið ys og þys enda mikið um að vera. Á götunum og strætunum sem liggja samsíða og í nálægð við rue Montorgueil, hefur fjöldi nýrra veitingastaða, kokteilbara og töff verslana sprottið upp síðustu ár.
Rue Montorgueil, sem liggur í gegnum 1. og 2. hverfi Parísar, er án efa ein af mest heillandi götum í París. Óhætt er hægt að fullyrða að ferðamenn og heimamenn flykkist að þessari götu sem og hverfinu til að upplifa það sem kannski best er lýst sem hinni raunverulegu París.
Þarna finnur þú til dæmis sögulegt bakarí, þ.e.a.s. elsta bakarí borgarinnar, aragrúa af borðum utandyra hjá veitingamönnum og gnótt af ferskmeti, osti, fiski, ávöxtum, blómum, víni og matvöruverslunum til að glæða hungurtilfinninguna.
Aðalgatan, rue Montorgueil, er heillandi göngusvæði eins og áður sagði. Þarna er lífleg stemning og saga sem nær margar aldir aftur í tímann. Bakríið Stohrer og veitingahúsið Au Rocher de Cancale eru tveir af goðsagnakenndustu stöðunum á rue Montorgueil. Veitingastaðurinn Au Rocher de Cancale opnaði fyrir rúmum 200 árum og er þekktur fyrir fallegar framhliðarskreytingar í ljósbláum og gullnum litum. Stohrer, elsta bakaríið í bænum, var sett á laggirnar árið 1730. Stohrer kann líka að vera fallegasta bakaríið í París.
Ef þú hyggst heimsækja Parísarborg og langar að upplifa matarást og hina raunverulegu frönsku matarmenningu þá er þetta án efa hverfið sem á að fara á listann hjá þér yfir þá staði sem vert er að heimsækja.
Hér má sjá mannlífið, kræsingarnar og gleðina sem blasir við í þessu fræga sælkerahverfi sem enginn matarunnandi má láta fram hjá sér fara. Þetta er Instagram-síða p@aris.explor.adore
sem samfélgsmiðlastjarna Olivia Ruiz heldur úti.