Marta Rún Ársælsdóttir ljóstrar upp nokkrum staðreyndum um matarvenjur sínar fyrir lesendum matarvefsins.
Hún er markaðsstjóri Fiskmarkaðsins, Uppi bar og Kampavínsfjelagsins, þar sem hún stýrir markaðsmálum og viðburðum og fær án efa ágæta innsýn í það sem er að gerast í veitingageiranum í sínu starfi.
Ástríðan hennar fyrir mat hefur ávallt verið til staðar. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mat og eldamennsku. Í mörg ár bloggaði ég um uppskriftirnar mínar á bæði femme.is og Trendnet.is, og það gleður mig alltaf jafn mikið þegar fólk segir mér að þær séu enn vistaðar og mikið notaðar,“ segir Marta Rún.
„Í dag á ég tvo litla stráka, og matartíminn snýst oft meira um að koma öllum niður en að taka myndir eða setjast við lyklaborðið. En hver veit – kannski tek ég upp þráðinn einhvern tímann aftur í öðru formi,“ bætir hún við og hlær.
Marta Rún segir að matarvenjur sínar breytist eftir árstíðum.
„Á sumrin lifnar allt við. Þá finnst mér sérstaklega skemmtilegt að grilla alls konar kjöt, fisk og grænmeti og bera fram fersk salöt með ávöxtum og kryddjurtum sem vaxa úti á svölunum. Hvítvín og rósavín eiga líka sinn stað í matarboðum yfir sumarið, létt, skemmtileg og fullkomin við réttina sem sólin kallar á. Það verða líka meira af matarboðum og samverustundum þar sem hægt er að sitja úti á svölum eða úti,“ segir Marta Rún sem er farin að hlakka til sumarsins.
Hún svarar hér nokkrum praktískum spurningum um matarvenjur sínar.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Kaffi.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég borða yfirleitt ekki mikið á milli mála, þá væri þá helst smá ávöxtur.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Þegar ég vil gera vel við mig og plana hádegisdeit niðri í bæ, hvort sem það er með vinum eða makanum, þá fer ég alltaf í fisk dagsins. Við ættum öll að borða meira af fiski, og að mínu mati færðu besta fisk dagsins á Fiskipönnu Messans.
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Dijon sinnep.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Ég vel mér alltaf Fiskmarkaðinn eða Uppi bar þegar mig langar í eitthvað virkilega gott. Þó að ég vinni þar, þá fæ ég svo mikla löngum í gottsushi – og þú færð það hvergi betra. Kvöldið toppast svo með góðu vínglasi á Uppi og rólegu spjalli. Það er einfaldlega uppskriftin að góðu kvöldi.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Við gerum reglulega pítsu heima í pítsaofninum og finnst mér mjög gaman að prufa alls konar nýtt í hvert skipti. En makinn minn biður oftast um að fá þessa hér sem ég deildi með ykkur á matarvef mbl.is fyrir svolitlu síðan.
Hvað færð þú þér á pylsuna þínu?
„Ég fæ mér allt nema remúlaði.“
Hver er uppáhaldsgrillrétturinn þinn?
„Það er erfitt að velja einn uppáhaldsrétt, en ef ég þyrfti að nefna eitthvað þá væri það góður, maríneraður kjúklingur með grilluðu grænmeti og fersku salati – einfalt, ferskt og fullkomið á sumrin.
Svo má aldrei gleyma góðri steik. Hún klikkar ekki, sérstaklega ef hún er borin fram með grilluðu grænmeti og heimagerðri chimichurri sem er reglulega löguð heima hjá mér.“
Áttu grill? Hvort heillar þig meira gas- eða kolagrill?
„Heima erum við með stórar lokaðar svalir og er ég með gasgrill þar. Draumurinn er að eiga bæði einn daginn þegar ég verð með meira pláss.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Ég geri aldrei máltíð án þess að hafa smá salat með. Þó að það séu kartöflur þá er alltaf salat líka. Salöt þurfa líka ekki að vera leiðinleg. Best er að prufa sig áfram með alls konar grænmeti, ávöxtum, hnetum og dressingu.“
Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Ég drekk bara vatn, kaffi og vín. Það er samt mesta stemningin að opna gott kampavín í góðum vinahóp.“