Nú styttist óðum í úrslit í World Class sem er ein stærsta og virtasta barþjónakeppni landsins en fyrst þurfa topp 8 keppendur að þreyta lokaraun þar sem lúxuskokteilar og listsköpun verða í fyrirrúmi.
Þetta eru þau:
„Keppendur hafa haft mánaðartíma til að undirbúa sig og sýna sköpunargáfu sína með pop-up bar í Iðnó. Hver barþjónn fær úthlutað 2m x 2m gólfplássi til að búa til stórbrotna upplifun af Johnnie Walker Blue Label-kokteilnum sínum og er opið fyrir almenning að upplifa hvað bestu barþjónar landsins hafa sett á svið.
Þau nota innblástur frá heimi listarinnar og tísku til að gera lúxusdrykk í Iðnó og dómarar og gestir munu meta heildarupplifunina á hverjum bar,“ segir Sóley Kristjánsdóttir vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni sem heldur utan um keppnina.
Viðburður stendur yfir í dag, mámnudaginn 12. maí frá klukkan 16-18:30 í IÐNÓ og allir eru velkomnir að upplifa þennan viðburð. Yfirdómari er Tim Philips-Johansson, sigurvegari World Class-keppninnar árið 2012 og mikilsvirtur barþjónn sem vinnur nú fyrir Johnnie Walker á alþjóðavettvangi.
Í kvöld klukkan 21.00 verða úrslitin tilkynnt á kokteilbarnum Jungle, það er að segja hverjir þrír verða efstir og keppa í Iðnó á morgun.
Þrír efstu keppendur fá óvissubox með hráefnum sem þeir vita ekki hver eru fyrirfram og sú atlaga hefst klukkan 18:30, á morgun, þriðjudaginn 13. maí.
Klukkan 20:00 hefst síðan æsispennandi hraðakeppni uppi á sviði þar sem keppendur þurfa að reiða fram 6 ólíka kokteila á 6 mínútum og þurfa þeir að sjálfsögðu allir að vera afburða fallegir og bragðgóðir.
„World Class-barþjónakeppnin ýtir barþjónum út fyrir þægindarammann og hefur án efa verið mikil lyftistöng fyrir bransann síðan við hófum þátttöku árið 2016. Löndin sem taka þátt þurfa að uppfylla ákveðin gæðamarkmið í kokteilmenningu til að geta tekið þátt og Ísland náði á verðlaunapall síðast á meðal topp 10 bestu barþjóna heims í Sao Paulo 2023,“ segir Sóley sem er orðin full tilhlökkunar til að fylgjast með keppninni.
Stóra keppnin fer fram í Toronto, Kanada í haust og Ísland tekur þátt annað hvert ár. Það verður spennandi að sjá hver fer fyrir Íslands hönd í ár.