Kaffihúsið Sykurverk á Akureyri fagnar 5 ára afmæli, föstudaginn 16. maí næstkomandi. Mæðgurnar Helena Guðmundsdóttir, Karólína og Þórunn reka Sykurverk saman.
„Við leggjum mikla áherslu á að bjóða aðeins gæðahráefni, allt er bakað á staðnum eftir dýrmætum uppskriftum frá mömmu og ömmum sem við höfum útfært eftir okkar höfði, þannig að allt sem við bjóðum upp á er eins og heimagert,“ segir Helena Guðmundsdóttir, sem ásamt dætrum sínum Karolínu og Þórunni rekur kaffihúsið Sykurverk á Akureyri, en það verður fimm ára næsta föstudag, 16. maí.
Helena segir að vissulega sé ekki auðvelt að koma fyrirtæki um rekstur kaffihúss og veitingasölu í gang og það hafi kostað gríðarmikla vinnu. Það sé þó þess virði og reksturinn hafi eflst og dafnað með árunum. „Við opnuðum í miðjum kórónuveirufaraldri,“ bætir hún við. „Síðan hefur allt verið upp á við og reksturinn blómstrar.“
Frá því í desember 2021 hefur verið til húsa að Strandgötu 3, í hjarta Akureyrar, og þar kunna þær mæðgur vel við sig. Þegar þær fóru af stað var ætlunin að einbeita sér að veisluþjónustu en Karolína hafði verið að spreyta sig í kökuskreytingum í tilefni af fæðingu dóttur sinnar. Með góðum árangri, kökurnar slógu í gegn, magnið jókst og mamman var kölluð til, til að aðstoða, og systirin líka.
„Það var gaman hjá okkur, gefandi samvera, góðar kökur og ánægðir viðskiptavinir. Þannig að þetta vatt upp á sig og endaði með því að við stofnuðum fyrirtækið Sykurverk. Nafnið er dregið af upprunanum, sykurlistaverkum,“ segir Helena.
Einmitt á þeim tíma sem dæturnar fengu hugmyndina um að stofna kaffihúsið var hún að hætta sem dagforeldri eftir 20 ára starf. „Ég var ekki komin með nýtt starf og hafði í eina tíð látið mig dreyma um að opna kaffihús. Það tók því ekki langan tíma að hoppa um borð í vagninn með stelpunum,“ segir Helena.
Mæðgurnar bjóða bæði veisluþjónustu og reka kaffihús. Hvort tveggja gengur vel. Kaffihúsið býður upp á fjölbreytt úrval af kökum og brauðréttum, en er einnig þekkt fyrir girnilegar pönnukökur, eða crepes, með mismunandi innihaldi. „Við sjáum aldrei eftir að hafa opnað kaffihúsið, það er orðið stór þáttur í lífi margra bæjarbúa að koma hér við og njóta veitinga í huggulegu umhverfi. Það þykir mörgum ómissandi að koma hér við í bæjarferðum og njóta stundarinnar yfir góðum veitingum,“ segir Helena.
Fyrir um einu og hálfu ári var sú ákvörðun tekin að bjóða hunda velkomna á kaffihúsið og hefur það gengið vel. Þær fengu í fyrra leyfi frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands til að taka á móti hundum.
„Það er gott að vera með öll leyfi á hreinu,“ segir Helena og bætir við að til séu á staðnum veitingar við hæfi hundanna, enda ekki hægt að skilja besta vininn út undan meðan eigandinn gæðir sér á kökusneið.
Til stendur að fagna fimm ára afmælinu um komandi helgi. „Við ætlum að hafa gaman og gleðin verður í fyrirrúmi auk þess sem tilboð verða í gangi,“ segir Helena.