Færustu erlendu sérfræðingar á sviði bakaragreinarinnar kynntu næstu kynslóð bakara helstu nýjungar og tækni í bakstri á námskeiði á dögunum.
Í fjölbreyttri vinnustofu gáfu konditormeistarar og sérfræðingar frá þýsku fyrirtækjunum Ireks og Dreidoppel nemendum í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi innsýn í strauma, stefnur og tækni, allt frá þróun nýrra bragðtegunda til útfærslu á nútímalegum kökum og brauðmeti.
„Að fá slíka sérfræðinga til okkar er einstakt tækifæri fyrir nemendur að læra af þeim bestu í greininni. Slík tengsl við alþjóðlega markaði og nýjustu strauma skipta miklu máli fyrir framtíð þeirra í faginu,“ sagði Daníel Helgi Rúnarsson, vörumerkjastjóri hjá Danól, sem stóð fyrir vinnustofunni.
Ný hráefni og aðferðir undir leiðsögn sérfræðinganna settu sterkan svip á vinnustofuna þar sem bakarar framtíðarinnar fengu einstakt tækifæri til að kynnast fróðleik um hráefni, samsetningu bragða og hvernig nýjar aðferðir geta bætt gæði og útlit bakstursvara.
„Nemendurnir stóðu sig frábærlega, sýndu mikinn áhuga og hjálpuðu til við undirbúning og framkvæmd námskeiðsins. Stemningin var létt og lærdómsrík – allir fóru heim með nýja þekkingu og innblástur. Eftir að námskeiðinu lauk komu margir gestir í heimsókn til að skoða afraksturinn og hitta konditorinn.
Þetta var stórkostlegur viðburður sem undirstrikar hversu mikilvæg samvinna skóla og atvinnulífs er. Slík verkefni dýpka skilning nemenda á faginu, opna augu þeirra fyrir framtíðartækifærum og styrkja tengslin milli náms og starfs,“ segir Árni Þorvarðarson bakarameistarinn og fagstjóri við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi.
„Þetta var afar ánægjuleg vinnustofa og það gladdi okkur mjög að sjá eldmóðinn og áhugann sem ríkir hjá íslenskum bakaranemum, sem eru svo sannarlega tilbúnir til að standa í fararbroddi greinar sinnar, íslenskum neytendum til ánægju og heilla,“ segir Rene Kristoffersen, bakari og sérfræðingur hjá Ireks. Hann þekkir íslenska markaðinn vel, enda þjónustað hann í yfir aldarfjórðung.
Danól leggur mikla áherslu á að stuðla að framþróun í bakaraiðninni og telur slíkt samstarf dýrmætt fyrir nemendur og næstu kynslóðir bakara.